Landsbókasafn Íslands

Fyrsti vísir íslensks þjóðbókasafns, Landsbókasafns Íslands, varð til árið 1818 að tillögu danska fornfræðingsins Carls Christians Rafns.

Fyrsti vísir íslensks þjóðbókasafns, Landsbókasafns Íslands, varð til árið 1818 að tillögu danska fornfræðingsins Carls Christians Rafns. Í upphafi nefndist safnið „Stiftsbókasafnið“. Því var komið fyrir á lofti dómkirkjunnar í Reykjavík. 

Árið 1881 var bókasafnið flutt í hið nýreista Alþingishús og hlaut þá nafnið Landsbókasafn Íslands. Þá var fjöldi prentaðra bóka og handrita í safninu um 19 þúsund. Árið 1886 var íslenskum prentsmiðjum gert að afhenda safninu tvö eintök af öllu prentuðu máli.

Landsbókasafnið fluttist í nýja byggingu, Safnahúsið við Hverfisgötu, árið 1909. Safnahúsið var þá eitt stærsta og glæsilegasta hús landsins. Landsbókasafnið var þar til húsa í 85 ár, fram að samruna þess við Háskólabókasafnið árið 1994.