Beint í efni

Að heiman og heim

Þann fyrsta júní næstkomandi verður haldið málþing til heiðurs rithöfundinum Guðbergi Bergssyni í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Málþingið er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2013. Þar verður sjónum beint að verkum Guð­bergs í alþjóðlegu sam­hengi og sækir glæsi­legur hópur erlendra fræðimanna, rit­höfunda og þýðenda Ísland heim til heiðurs skáldinu en einnig munu íslenskir fræðimenn og rit­höf­undar taka þátt í dag­skránni. Þingið stendur frá kl. 10 til 17 og er öllum opið á meðan húsrúm leyfir. Meðal fyr­ir­lesara eru rit­höf­und­arnir Colm Tóibín og Lucía Costa Gomes, bók­mennta­fræð­ing­arnir Ást­ráður Eysteinsson, Birna Bjarna­dóttir og Ármann Jak­obsson og þýð­end­urnir Enrique Bér­n­ardez,  Massimo Rizzante, Eric Boury og Hans Brükner. Meðal þess sem ber á góma eru þýð­ingar á verkum Guð­bergs, fag­ur­fræði hans og „leitin að landinu fagra“, samtal skáld­skapar hans við verk yngri skálda og sá leið­angur sem list skáldsins hefur bæði tekist á hendur og fer með les­andann í. Að þinginu standa Stofnun Vig­dísar Finn­boga­dóttur í erlendum tungu­málum,  Íslensku­deild Manitobahá­skóla, Reykjavík Bók­menntaborg UNESCO, Mennta– og menn­ing­ar­mála­ráðu­neytið, Utan­rík­is­ráðu­neytið , Bók­mennta– og list­fræði­stofnun Háskóla Íslands, Hug­vís­inda­stofnun Háskóla Íslands og Grindavíkurbær. Dagskrána og nánari upp­lýs­ingar má finna á heimasíðu þingsins.