Beint í efni

Afhjúpun fyrstu bókmenntamerkingar og Vögguvísuganga

Einar Örn Benediktsson afhjúpar bókmenntamerkingu til heiðurs Elíasi Mar í Aðalstræti og Hjálmar Sveinsson leiðir göngu um söguslóðir Vögguvísu.

Sunnudaginn 14. október kl. 14 verður fyrsta bókmenntamerking Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur afhjúpuð.  Það gerir Einar Örn Benediktsson formaður Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, en þessi skjöldur er sá fyrsti af níu merkingum sem Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO mun koma upp í borginni á þessu ári. Skildinum verður komið fyrir í Aðalstræti 6 – 8 þar sem sódabarinn Adlon, eða Langibar eins og hann var jafnan nefndur, stóð um miðja síðustu öld. Tilefnið að þessari merkingu er fyrsta Lestrarhátíðin í Reykjavík en Langibar kemur mjög við sögu í Vögguvísu eftir Elías Mar, sem er í brennidepli á hátíðinni. Fasteignafélagið Reitir á húsið sem nú stendur á lóðinni og er merkingunni komið fyrir í góðri samvinnu við félagið. Bókmenntamerkingar í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og Símans. Á skjöldunum er, auk texta og myndar, rafrænn kóði sem veitir aðgang að ítarlegri upplýsingum um bókmenntaslóðirnar ásamt myndefni og hljóðefni og er sú tæknilausn framlag Símans til bókmenntamerkinganna. Einnig á Ljósmyndasafn Reykjavíkur aðild að verkefninu með því að leggja til myndefni. Merkingarnar eru á íslensku og ensku. Aðrar bókmenntamerkingar sem settar verða upp á þessu ári verða við Skáldastíg í Grjótaþorpi, í Vonarstræti 12 sem var heimili Theodóru Thoroddsen (nú í Kirkjustræti), í Ingólfstræti 18 sem var síðasta heimili Torfhildar Hólm, á lóð Melkots sem var fyrirmynd Brekkukots Halldórs Laxness, í Pósthússtræti 5 þar sem Málfríður Einarsdóttir átti heimili, að Grundarstíg 10 þar sem Hannes Hafstein bjó, á Hressingarskálanum til heiðurs Steini Steinarr og á Laugavegi þar sem Margrétar Jónsdóttur verður minnst fyrir ljóð sitt um þvottakonurnar sem fetuðu þann veg. Allar þessar merkingar verða studdar af rafrænu ítarefni á snjallsímavef Bókmenntaborgarinnar í samvinnu við Símann. Þess má geta að fyrir eru nokkrar bókmenntamerkingar í Reykjavík, meðal annars til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni á Hringbraut 45, en þá merkingu lét Félag áhugamanna um bókmenntir setja upp árið 1989, og við fæðingarstað Halldórs Laxness á Laugavegi. Þar var komið fyrir hellu til heiðurs skáldinu árið 2002 og stóðu Rithöfundasamband Íslands og Borgarbókasafn Reykjavíkur að því.

Ganga um Vögguvísuslóðir

Í framhaldi af opnunarathöfninni, þar sem Einar Örn spjallar stuttlega um bókmenntamerkingar í Bókmenntaborginni, leiðir Hjálmar Sveinsson göngu um Vögguvísuslóðir í miðbænum. Þar verður gengið um þær slóðir sem sögupersónur Vögguvísu  feta. Gangan hefst við téðan Langabar í Aðalstræti en þaðan verður gengið að Naustinu þar sem einu sinni var „billjardbúla“, leiðin liggur síðan að Hótel Skjaldbreið við Kirkjustræti og endar á Austurvelli við NASA eða Sjálfstæðishúsið. Í göngunni verður söguþráðurinn í Vögguvísu rifjaður upp, sagt verður frá Elíasi Mar og sögunum sem hann skrifaði og rætt um unglingamenningu og þróun borgarinnar. Gangan tekur um 50 mínútur. Bambínó, „söguhetjan“ í Vögguvísu, er fjórtan ára. Honum leiðist í skólanum og hlustar ekki mikið á foreldra sína. Hann vill helst hanga með vinum sínum, spila billjard, drekka kók, fara í partý og vera í flottum fötum. Hann hefur fengið gælunafn sitt úr vinsælu bandarísku dægurlagi þar sem er sungið: „Chibaba, chibaba, chiwawa, my bambino go to sleep“. Sagan hefst á því að vinirnir Baddi Pá, Einar Err og Bambínó brjótast inn hjá Arngrími heildsala aðfararnótt fimmtudags og endar á sunnudagskvöldi þegar  Bambínó liggur í leðjunni á Austurvelli fyrir utan skemmtistaðinn NASA, sem þá hét Sjálfstæðishúsið. Hann á von á því að „svartfuglarnir“ komi á „salatfatinu“ og fari með sig í „kjallarann“. Vögguvísa er sennilega fyrsta unglingasaga hins unga íslenska lýðveldis. Elías Mar skrifaði hana sumarið 1949, sama sumar og hann varð 25 ára. Elías gaf út fjórar skáldsögur sem hann skrifaði milli tvítugs og þrítugs. Þær fjalla allar um unglinga í Reykjavík sem lenda í vandræðum. Þeim leiðist, hætta í skóla, fremja innbrot, lenda í „ástandinu“. Lestrarhátíð í Reykjavík stendur allan októbermánuð. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og ætluð fólki á öllum aldri.  Á vef hátíðarinnar er einnig hægt að taka þátt í leshring, skoða vefstiklur tileinkaðar hátíðinni og taka þátt í slangurorðasamkeppni. Lestrarhátíð í Reykjavík er í samvinnu við vefinn ebaekur.is en þar geta lesendur nælt sér í frítt eintak af Vögguvísu. Aðrir samstarfsaðilar eru forlagið Lesstofan, Borgarbókasafn, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, RÚV, Landsbókasafn Íslands og Ljósmyndasafn Reykjavíkur.