Bókamessa í Bókmenntaborg

Harpa

Bókamessa í Bókmenntaborg

Dagana 19. og 20. nóvember 2016 verður Bókamessa í Bókmenntaborg haldin í sjötta sinn og nú í Hörpu. Bókaútgefendur leggja undir sig Flóa og dagskrá verður í viðburðarýmunum Rímu A og Rímu B.

Þarna geta gestir kynnt sér blómlega útgáfu ársins, hitt höfunda og útgefendur og notið fjölbreyttrar og lifandi dagskrár. Sérstakt krakkahorn verður á svæðinu þar sem boðið verður upp á smiðjur og föndur. Börnin geta einnig tekið þátt í ratleik með Snuðru og Tuðru, hitt Vísinda-Villa og Stjörnu-Sævar eða litið í nýjar bækur í bókahorninu.

Bókaútgefendur sýna nýjar bækur og boðið verður upp á fjölbreytta bókmenntadagskrá

Líf og fjör verður í Hörpu  alla helgina. Upplestrar, sögustundir, umræður með höfundum, glæpasagnadagskrá, ljúffengt smakk og óvæntar uppákomur. Þarna gefst fólki einstakt tækifæri til að kynna sér bókaútgáfu ársins á einu bretti, ræða við útgefendur og höfunda, fá hugmyndir að bókum í jólapakkana og skemmtilegu lesefni fyrir sig og sína.

Frá Bókamessu 2015

Bókamessan er opin frá kl. 11 – 17 báða dagana.

Ekkert kostar inn og eru allir hjartanlega velkomnir.

DAGSKRÁ:

LAUGARDAGUR 19. NÓVEMBER

11:00 – 17:00
Flói
Bókasmakk fyrir krakka á öllum aldri
Hér er hægt að skoða úrval nýrra barna- og ungmennabóka sem komið hafa út á árinu.

11:30 – 12:30 
Ríma
Barnadagskrá fyrir yngstu börnin
Notaleg sögustund með höfundum bóka fyrir yngstu börnin. Lesið verður úr eftirtöldum bókum.
Allie Doersch og Hulda Jónsdóttir Tölgyes: Hekla skilur hundamál
Sigrún Eldjárn: Sigurfljóð hjálpar öllum
Jóna Valborg og Elsa Nielsen: Hetjubókin
Birgitta Haukdal: Lára fer á skíði / Kósýkvöld með Láru
Íris Baldursdóttir: Sirkusráðgátan eftir Martin Widmark
Bjarki Karlsson: Enginn sá hundinn

12:00 – 13:00
Krakkahorn í Flóa
Geimsmiðja með Stjörnu-Sævari
Sævar Helgi Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu-Sævar, heldur geimsmiðju. Hvað eru stjörnurnar á himninum margar? Í hvaða stjörnumerki er ég í raun og veru? Þessum spurningum og stjarnfræðilega mörgum öðrum verður svarað. Að auki fá gestir að handleika steina úr geimnum. Nýja bókin hans Sævars, Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna, er stórskemmtileg ‒ og stækkar heiminn.

13:00 – 13:30
Krakkarhornið í Flóa
Leðurblökugerð með Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur
Í barnabókinni Úlfur og Edda: Dýrgripurinn koma leðurblökur nokkuð við sögu. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, höfundur bókarinnar, verður með leðurblökulistasmiðju í barnahorninu.

13:00 – 14:00
Ríma
Fjórar stjörnur glæpabókmenntanna
Fjórar kvenstjörnur glæpasagnanna, þær Val McDermid, Sara Blædel, Ann Cleeves og Leena Lehtolainen ræða um bækur sínar undir stjórn glæpasagnahöfundarins Ragnars Jónassonar. Pallborðið er á vegum hátíðarinnar Iceland Noir og Bókmenntaborgarinnar.

13:00 – 14:00
Flói, bás Forlagsins
Máttur matarins – Unnur Guðrún Pálsdóttir og Þórunn Steinsdóttir
Ein mikilvægasta forvörnin gegn sjúkdómum er að koma sér upp góðum lífsvenjum. Unnur Guðrún Pálsdóttir (Lukka) og Þórunn Steinsdóttir kynna Mátt matarins, glæsilega nýja matreiðslubók sem er stútfull af fróðleik og frábærum uppskriftum. Þær stöllur gefa smakk úr bókinni og spjalla við gesti og gangandi.

13:00-14:00
Flói, bás Sölku
Ormhildarsaga
Þórey Mjallhvít kynnir nýútkomna myndasögu sína, Ormhildarsögu, og ræðir við gesti og gangandi um sköpunarferli myndasögunnar. Myndir Þóreyjar verða til sýnis.

14:00 – 14:30
Krakkahornið í Flóa
Púkateiknismiðja Sigurlaugar púkamömmu
Sigurlaug, höfundur bókanna Letipúki og Feimnispúki, leiðbeinir krökkum á öllum aldri við að þekkja og teikna sína eigin púka.

14:00 – 15:00
Flói
Kökugleði Evu
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir kynnir nýja kökubók sína. Í Kökugleði Evu eru uppskriftir að kökum fyrir öll tilefni, allt frá smábitakökum að brúðkaupstertum. Eva kemur með gómsæt sýnishorn sem gestir geta gætt sér á.

14:00 – 15:00
Flói
Skapandi lopapeysuprjón
Auður Björt Skúladóttir kynnir bók sína, Lopapeysuprjón: fyrir byrjendur og lengra komna, og gefur gestum góð ráð. Í bókinni er hvatt til skapandi hugsunar við prjónaskapinn og leiðbeint hvernig megi prjóna eftir eigin hugmyndum og breyta uppskriftum að vild. Markmiðið er að gera lopapeysuprjón aðgengilegt og áhugavert fyrir hvern sem er, jafnt unga sem aldna.

14:00 – 15:000
Flói
Doddi
Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir kynna bók sína Doddi: Bók sannleikans!, gefa límmiða og bókamerki og bjóða upp á slímugt góðgæti.

14.00 – 15:00
Flói, bás Forlagsins
Sigurfljóð hjálpar öllum – Sigrún Eldjárn
Sigrún Eldjárn kynnir nýja bók sína um ofurstelpuna Sigurfljóð. Sigrún hefur skrifað og teiknað fjöldann allan af bókum fyrir krakka. Nú gefst tækifæri til þess að fylgjast með Sigrúnu mála mynd af Sigurfljóð.

14:00
Safnast saman við krakkahornið í Flóa
Ratleikur með Snuðru og Tuðru
Komdu og hittu þessar ofurhressu og uppátækjasömu systur og fylgdu þeim í spennandi ratleik um Hörpu. Allir krakkar þekkja Snuðru og Tuðru og nú bætist ný bók Iðunnar Steinsdóttur í safnið. Bókaverðlaun fyrir fundvísa þátttakendur.

15:00-15:30
Blindandi kökuskreytingar
Flói
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir (Kökugleði Evu) stýrir  skemmtilegri kökuskreytingakeppni þar sem þátttakendur eru með bundið fyrir augun.

15:00-16:00
Krakkahornið í Flóa
Bókagerð með Evu og Loga
Eva Rún Þorgeirsdóttir og Logi Jes Kristjánsson, höfundar bókarinnar Lukka og hugmyndavélin, leiðbeina börnum í einfaldri ritsmiðju sem allir geta tekið þátt í. Börnin semja og myndskreyta jólasögu eða aðra örstutta sögu sem þau geta síðan gefið sínum nánustu í jólagjöf.

15:00 – 16:00
Ríma A
Ísland og Evrópa
Þrír höfundar nýrra bóka með sagnfræðilegu efni kynna verkin og spjalla við gesti. Bækurnar bregða allar nýju ljósi á söguna, annars vegar Íslands og hins vegar Evrópu.
Þorleifur Friðriksson: Hulduþjóðir Evrópu
Sverrir Jakobsson: Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281
Guðmundur G. Þórarinsson: Árdagar Íslendinga

15:00 – 16:00
Ríma B
Spjallað við höfunda – smásögur
Andri Snær Magnason (Sofðu ást mín), Sigurbjörg Þrastardóttir (Óttaslegni trompetleikarinn), Friðgeir Einarsson (Takk fyrir að láta mig vita) og Þórarinn Eldjárn (Þættir af séra Þórarinum og fleirum) ræða við Jórunni Sigurðardóttur um nýútkomnar bækur sínar. Öll senda þau frá sér smásagnasöfn nú í haust.

15.00-16:00
Flói, bás Forlagsins
Havana heklbók – Tinna Þórudóttir Þorvaldar
Tinna Þórudóttir Þorvaldar hefur áður sent frá sér heklbækur sem notið hafa mikilla vinsælda en það var Havana, höfuðborg Kúbu, sem varð kveikjan að þessari nýju litríku uppskriftabók. Tinna kynnir bókina, gefur ráð og kemur með sýnidæmi.

16:00 – 17:00
Ríma A
Spjallað við höfunda – Skáldsögur
Sigríður Hagalín Björnsdóttir (Eyland), Einar Kárason (Passíusálmarnir), Hermann Stefánsson (Bjargræði) og Auður Ava Ólafsdóttir (Ör) spjalla um nýútkomnar bækur sínar við Höllu Oddnýju Magnúsdóttur. Sigríður Hagalín sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu en hinir þrír höfundarnir eru margreyndir á þessu sviði.

16:00 – 17:00
Ríma B
Ljóðastund
Sjö ljóðskáld, sum ný á ritvellinum og önnur sem eru meðal okkar þekktustu skálda, flytja ljóð úr nýjum bókum sínum.
Steinunn Sigurðardóttir: Af ljóði ertu komin
Kristín Svava Tómasdóttir: Þungi eyjunnar eftir Virgilio Pinera
Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir: Skýjafar
Hallgrímur Helgason: Lukka
Elín Edda: Hamingjan leit við og beit mig
Þorvaldur S. Helgason: Draumar á þvottasnúru
Sigurður Pálsson: Ljóð muna rödd

bokamessa_-157-roman-gerasymenko

SUNNUDAGUR 20. nóvember

11:00 – 17:00
Flói
Bókasmakk fyrir krakka á öllum aldri
Hér er hægt að skoða úrval nýrra barna- og ungmennabóka sem komið hafa út á árinu.

12:00 – 13:00
Ríma B
Heimur fræðanna
Fimm höfundar frá Háskólaútgáfunni kynna bækur sínar í örstuttu máli. Hér gefst lesendum tækifæri til að skyggnast inn í heim fræðanna á aðgengilegan hátt.
Steinunn Knútsdóttir: Lóðrétt rannsókn - Ódauðleg verk atvinnuleikhúss áhugamanna 2005 – 2015
Guðrún Ingólfsdóttir: Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar - bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld.
Trausti Ólafsson: Stef ástar og valds – í sviðsetningum Þórhildar Þorleifsdóttur
Ársæll Már Arnarsson: Síðustu ár sálarinnar
Ólafur Páll Jónsson: Sannfæring og rök

12:00 – 13:00
Ríma A
Sögustund fyrir börn
Notaleg sögustund fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Höfundar frá Bókabeitunni verða í Rímu og lesa úr bókum sínum, sem henta börnum frá 5 – 8 ára:
J.K. Kolsöe: Afi sterki og Amma óþekka
Sigurlaug H.S. Traustadóttir: Letipúkar og Feimnispúkar
Ósk Ólafsdóttir: Búðarferðin

12:00-13:00
Krakkahornið í Flóa 
Vilhelm Anton Jónsson – Vísinda-Villi
Í Vísindabók Villa ‒ Skynjun og skynvillur er fjallað um heilann og hvernig hann getur „svindlað“ á eiganda sínum, látið okkur sjá hluti sem eru ekki til staðar eða sjá þá öðruvísi en þeir eru í raun. Vísinda-Villi gerir fræðandi og fyndnar tilraunir með krökkunum sem dýpka í leiðinni skilning þeirra á heilanum.

13:00-14:00
Krakkahornið í Flóa
Rúnar góði og dagur mannréttinda barna
Hanna Borg Jónsdóttir og Heiðdís Helgadóttir kynna Rúnar góða og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir börnum. Alþjóðlegur dagur barnasáttmálans er 20. nóvember. Krakkar spreyta sig á að teikna og velta vöngum um réttindi allra barna. Bókamerki, plaköt og þátttökuverðlaun fyrir hressa krakka.

13:00 – 13:30
Ríma B
Eiga forritun og skáldskaparskrif eitthvað sameiginlegt?
Hildur Sif Thorarensen er höfundur spennusögunnar Einfari. Hún er líka hugbúnaðarverkfræðingur sem stundar nú læknanám í Osló og fyrrverandi oddviti Pírata. Einfari er fyrsta bók Hildar og hér ætlar hún að fjalla um hvað henni finnst líkt með því að forrita og að skrifa bók út frá reynslu sinni á báðum sviðum.

13:00 – 14:00
Ríma A
Spennandi sögur fyrir alla krakka
Langar þig að vita hvort pabbi klúðrar jólunum? Viltu litast um í ævintýraheimi undir yfirborði jarðar með Úlfi og Eddu? Finnst þér draugar spennandi? Viltu vita hvernig franskur munaðarlaus strákur verður lukkudýr fyrir íslenska fótboltalandsliðið? Þá ættirðu að koma í æsispennandi sögustund með fjórum höfundum splunkunýrra bóka sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Gunnar Helgason: Pabbi prófessor
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: Úlfur og Edda
Inga Mekkín Beck: Skóladraugurinn
Þorgrímur Þráinsson: Henri og hetjurnar

13.00 – 14:00
Flói, bás Forlagsins
Eitthvað ofan á brauð – Nanna Rögnvaldardóttir
Nanna Rögnvaldardóttir er sannkölluð matmóðir Íslendinga. Hún hefur sent frá sér fjölmargar matreiðslubækur, nú síðast Eitthvað ofan á brauð sem inniheldur hugmyndir fyrir hvers kyns tækifæri að áleggi á brauðið, mauki til að setja á kexið, ídýfu fyrir flögurnar og ýmsu öðru girnilegu. Nanna gefur smakk úr bókinni og ræðir við gesti og gangandi.

13:30 – 14:00
Ríma B
Vigdís Grímsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir
Egill Helgason ræðir við Sigríði Halldórsdóttur og Vigdísi Grímsdóttur um nýútkomna ævisögu Sigríðar, Elsku Drauma mín. Þar fer hún á kostum þegar hún lætur hugann reika um víðan völl – allt frá æskuheimilinu á Gljúfrasteini, móðurinni, Auði Laxness, föðurnum, Halldóri Laxness – fram til þeirrar kyrrðarstundar þegar hún vill fá að eldast í friði, án athugasemda. Vigdís Grímsdóttir skrásetur frásögn Sigríðar af fullkomnum trúnaði við hana sjálfa og tíðarandann. Búast má við notalegum en fjörugum umræðum.

14:00 – 15:00
Krakkahornið í Flóa
Litagleði
Nýja forlagið Angústúra gefur út skemmtilegar lita- og teiknibækur, Litabókina hennar Rosie Flo og Tímaflakkara. Sestu niður í krakkahorninu með leiðbeinanda frá Angústúru og dundaðu þér við þessar skemmtilegu teikningar þar sem má meðal annars spreyta sig á að teikna höfuð, handleggi og fótleggi á persónur og forvitnast um riddara hringborðsins, loðfíla og múmíur.

14:00 – 15:00
Ríma A
Gott hugarfar
Hér verða fjórar áhugaverðar bækur um málefni sem skipta sköpum í mannlegu samfélagi kynntar. Þær fjalla um samskipti, innra líf, gagnrýna hugsun, sjálfsskoðun og velgengni. Höfundar þriggja þeirra spjalla við gesti um verk sín og útgefandi þeirrar fjórðu kynnir.
Gunnar Hersveinn og Friðbjörg Ingimarsdóttir: Hugskot: Skamm-, fram og víðsýni
Jón Thoroddsen: Gagnrýni og gaman
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir: Samskiptaboðorðin
Dögg Hjaltalín: Þriðja miðið

14:00 – 15:00
Ríma B
Spjallað við höfunda – nýgræðingar
Arngunnur Árnadóttir (Að heiman), Ása Marin Hafsteinsdóttir (Og aftur deyr hún), Guðmundur Óskarsson (Villisumar) og Kött Grá Pje (Perurnar í íbúðinni minni) spjalla við Sunnu Dís Másdóttur um nýútkomnar bækur sínar. Öll eru þau að senda frá sér annað hvort fyrstu eða aðra bók sína sem hafa þegar vakið athygli og kvikmyndaréttur verið seldur að einni þeirra.

14.00 – 15:00
Flói, bás Forlagsins
Hekla skilur hundamál – Hulda Jóns Tölgyes og Allie Doersch
Hekla skilur hundamál er hlý og skemmtileg barnabók fyrir dýravini á öllum aldri. Höfundar bókarinnar, Hulda og Allie, eru báðar miklir hundavinir og áhugasamar um að gera samskipti hunda og barna örugg og ánægjuleg. Komdu í hundastund!

15:00 – 16:00
Flói
Teiknað með Heiðdísi
Heiðdís Helgadóttir, annar höfundur bókarinnar Rúnar góði, kemur með útlínuteikningar og leyfir krökkum að spreyta sig á að teikna.

14:00 – 15:00
Flói
Allt um villibráð
Úlfar Finnbjörnsson, höfundur bókarinnar Stóra bókin um villibráð, kynnir bókina, spjallar við gesti og býður upp á villta bita. Bókin, sem kemur nú út í aukinni útgáfu, er sannkallað alfræðirit fyrir matgæðinga og áhugafólk um nýtingu villibráðar. Hún inniheldur nú nær alla villibráð og upplýsingar um allt frá skoti til skeiðar.

15:00 – 16:00
Flói
Grænt og vænt
Kynning á bókunum Eldhús grænkerans og Bakað úr súrdeigi sem Salka gefur út. Hanna Hlíf Bjarnadóttir og Katrín Rut Bessadóttir, höfundar Eldhúss grænkerans, gefa gestum og gangandi gómsæta bita að smakka sem gera öllum gott. Ilmandi súrdeigsbrauð frá Brauð & co á boðstólum.

15:00 – 16:00
Ríma A
Spjallað við höfunda – Skáldsögur
Gerður Kristný (Hestvík), Ásdís Thoroddsen (Utan þjónustusvæðis), Orri Harðarson (Endurfundir) og Steinunn G. Helgadóttir (Raddir úr húsi loftskeytamannsins) ræða við Þorgeir Tryggvason um nýútkomnar bækur sínar. Gerður Kristný er meðal okkar þekktustu höfunda og sendir nú frá sér skáldsögu fyrir fullorðna eftir nokkurt hlé. Endurfundir er önnur skáldsaga Orra en þær Ásdís og Steinunn eru hér með sínar fyrstu skáldsögur. Sögusvið þriggja sagnanna er utan Reykjavíkur en að öðru leyti eru þær ólíkar, bæði að stíl og efni.

15:00 – 16:00
Ríma B
Ef þú þorir …
Hrollvekjandi klukkutími með höfundum fjögurra bóka fyrir ungt fólk sem fá hárin til að rísa. Komdu ef þú þorir!
Hildur Knútsdóttir: Vetrarhörkur
Ragnheiður Eyjólfsdóttir: Skuggasaga
Ævar Þór Benediktsson: Þín eigin hrollvekja
Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassel: Endalokin

15.00 – 16.00
Flói, bás Forlagsins
Kryddjurtarækt fyrir byrjendur – Auður Rafnsdóttir
Viltu rækta þínar eigin kryddjurtir; elda úr þeim, útbúa kryddolíur og mauk eða ilmolíur og sápur? Auður Rafnsdóttir, höfundur bókarinnar Kryddjurtarækt fyrir byrjendur, gefur góð ráð og smakk úr þessari vinsælu bók. Allt sem þú þarft að vita til að byrja að rækta og fara að njóta.

15.00 – 16:00
Krakkahornið í Flóa
Margrét Tryggvadóttir
Íslandsbók barnanna er falleg og fræðandi bók um flest það sem einkennir eldfjallaeyjuna okkar; fjörur og fjallstinda, fiska og fugla, þjóðgarða og borgarlíf, hraun og skóga, vötn og sanda, ár og fossa og margt, margt fleira. Margrét Tryggvadóttir, annar höfundanna, fræðir krakkana um landið og fer meðal annars með þeim í skemmtilegan spurningaleik.

16:00 – 17:00
Ríma A
Ljóðastund með sjö skáldum
Sjö ljóðskáld flytja ljóð úr nýjum bókun sínum. Hér hitta áheyrendur fyrir nokkur okkar þekktustu skálda, nýjasta verðlaunahafa ljóðaverðlauna Tómasar Guðmundssonar og fleiri frábær skáld.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson: Sumartungl
Gyrðir Elíasson: Síðasta vegabréfið
Magnús Sigurðsson: Veröld ný og góð
Eyrún Ósk Jónsdóttir: Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa
Þórdís Gísladóttir: Óvissustig
Eva Rún Snorradóttir: Tappi á himninum
Guðrún Hannesdóttir: Skin

16:00
Safnast saman við krakkahornið í Flóa
Ratleikur með Snuðru og Tuðru

Komdu og hittu þessar ofurhressu og uppátækjasömu systur og fylgdu þeim í spennandi ratleik um Hörpu. Bókaverðlaun fyrir fundvísa þátttakendur.

16.00 – 16:30
Ríma B
Árni Heimir Ingólfsson
Einn helsti sérfræðingur Íslendinga um sígilda tónlist, Árni Heimir Ingólfsson, heldur erindi byggt á bók sinni Saga tónlistarinnar – Tónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans. Í bókinni er fjallað á aðgengilegan hátt um vestræna tónlistarsögu, allt frá kaþólskum kirkjusöng í upphafi 9. aldar til nýjustu hræringa í samtímanum en hún er jafnframt fyrsta yfirlitsritið um tónlistarsögu eftir íslenskan höfund.

16:30 – 17:00
Ríma B
Háski í hafi
Davíð Logi Sigurðsson og Illugi Jökulsson spjalla um bækurnar Ljósin á Dettifossi og Pourquoi-Pas – Manndrápsveður á Mýrum. Í fyrrnefndu bókinni segir Davíð frá afa sínum, Davíð Júlíusi Gíslasyni, sem stóð í stafni í hinstu siglingu Dettifoss og um aldamótakynslóð sjómanna sem hann tilheyrði. Fjallað er um örlög Dettifossar en einnig um mennina sem stunduðu sjóinn á fyrstu áratugum aldarinnar. Illugi fræðir gesti um sjóslys við Ísland og segir sérstaklega frá því þegar franska rannsóknarskipið Pourquoi-Pas fórst við Ísland árið 1936.