Bókmenntamerkingar

„Borg er svo miklu miklu meira en hús og götur. Borg er ekki síst sá skáldskapur sem hefur sprottið upp úr jarðvegi hennar. Fyrir mér er Reykjavík bókmenntir.“
– Pétur Gunnarsson, rithöfundur

Í menningarsögu borgarinnar hafa bókmenntir verið ein algengasta skírskotunin í listum af öllum toga. Eitt af mikilvægustu verkefnum Bókmenntaborgarinnar er að koma því á framfæri með því að kortleggja bókmenntalandslag Reykjavíkurborgar. Settar verða upp merkingar, varanlegar og tímabundnar, sem vísa í bókmenntasögu borgarinnar með ýmsum hætti og tengjast höfundum sem markað hafa djúp spor í menningu hennar.

Skáldabekkir og bókmenntaleg kennileiti

Haustið 2012 voru fyrstu varanlegu umhverfismerkingar Bókmenntaborgarinnar afhjúpaðar. Vegfarendur geta nú tengt sig beint við bókmenntasögu borgarinnar með snjallsíma og sótt upplestra úr verkum íslenskra rithöfunda á skáldabekkjum á sér til gerðum vef Bókmenntaborgarinnar. (meira hér)

Bókmenntaleg kennileiti borgarinnar hafa einnig verið merkt og með snjallsíma er unnt að glöggva sig á bakgrunni þeirra, tengdum bókmenntatextum og öðrum fróðleik. Merkingarnar eru á íslensku og ensku. (meira hér)

Bókmenntamerkingar sem og aðrir staðir í borginni tengdir bókmenntasögunni verða einnig merktir á gagnvirkt kort hér á vefnum, þar sem hægt er að nálgast textabrot, ítarefni eða ljósmyndir af viðkomandi stað. Kortið er í sífelldri þróun og nýir staðir munu smám saman bætast við.

Sjá nánar á síðunum bókmenntakort og bókmenntagöngur.

Íslenskur skáldskapur í Leifsstöð

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur Bókmenntaborgin, í samstarfi við Höfuðborgarstofu og ISAVIA, komið fyrir brotum úr íslenskum skáldskap í enskum þýðingum. Verkefnið miðar að því að kynna íslenska orðlist fyrir ferðamönnum sem eiga leið um flugstöðina og um leið að vekja athygli á því að Reykjavík er ein af Bókmenntaborgum UNESCO.

Á veggjum, gólfum, speglum og gluggum flugstöðvarinnar geta ferðalangar nú lyft andanum með því að lesa stutt brot úr ljóðum og sögum íslenskra höfunda, en alls eru tilvitnanirnar tuttugu talsins. (meira hér)