Beint í efni

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Tilviljun leiðir saman ólíka sögumenn þessarar einstæðu skáldsögu: Borghildi sem nýorðin er ekkja; tölvukarlinn Árna sem þarf að takast á við offitu og hreyfingarleysi; hina ungu Hönnu sem glímir við átröskun, og Aron Snæ ellefu ára son einstæðrar móður … en eftir því sem sögunni vindur fram fléttast örlög þeirra saman í stigmagnandi frásögn.

Úr Aðferðum til að lifa af

Stígurinn beint fyrir framan mig var vel sýnilegur og allt sem var innan þriggja metra sást greinilega. Það var engin hætta á að villast, svo lengi sem ég fylgdi ánni en álpaðist ekki inn á aðra stíga. Hliðarstígarnir lágu líkast til heim að bústöðunum í kring en það gat ég ekki vitað fyrir víst. Sólarnir á Dr. Martens skónum mínum bjuggu til dempað hljóð á moldargötunni sem minnti á hjartslátt eða hest sem fór fetið út í haga. Ég hlustaði á mitt eigið fótatak og grafalvarleg rödd innra með mér sagði: Dauðinn er. Eða: Dauðinn er hér. Á þeirri stundu vonaði ég að það væri ímyndun, en núna held ég að ósýnilegar skógarverur hafi hvíslað því í eyrun á mér.
  Til að verða ekki frávita af hræðslu byrjaði ég að syngja - þótt ég myndi í svipinn engin lög eða texta. Ég gekk og hummaði fyrir munni mér heimatilbúna lagleysu, þar til ég kom auga á tvær þústir framundan, dökka og ljósa, sem sýndust vera á hreyfingu. Ég nam staðar til að athuga hvort hreyfingin væri sjónhverfing; ef maður er sjálfur á ferðinni geta kyrrir hlutir virst hreyfast. En þeir hreyfðust. Það var líkt og þeir fléttuðust um hvorn annan þarna framundan á stígnum. Hjartað hamaðist og skelfingin þrengdi að hálsinum en samt hélt ég áfram. Ég var komin nógu nálægt til að heyra fótatak, þrusk og andardrátt en dökki og ljósi héldu áfram að vera stækkandi blettir þar til ég var komin alveg upp að þeim. Þeir voru svartklæddir, þéttvaxinn náungi með breiðar herðar, stórt og kantað höfuð og silkiklút um hálsinn og stór, gulur labradorhvolpur, allur á iði, í kjánalegum hlutföllum. Lappirnar voru hrammar, líkt og hann hefði fengið þær að láni frá enn stærri hundi og hann hóf þær hátt á loft í hverju skrefi. Ánægður með sig, uppspenntur og streðandi í taumnum sem maðurinn hélt þétt í hinn endann á og stytti með því að vefja hann um höndina. Hringsnúandi úlnliðshreyfingarnar voru nettar og liprar miðað við vaxtarlagið. Klúturinn og úlnliðsdansinn fengu mig til að hugsa um flamencodans.
  Hann er bara forvitinn, sagði maðurinn og röddin hljómaði áberandi skýr í þessu útmáða landslagi.
  Ég kinkaði kolli, passaði að láta ekki sjá á mér að ég væri alveg að fara að gráta og smeygði mér framhjá þeim. Hundurinn náði að reka trýnið í skóna mína þótt hann hefði varla neitt svigrúm eftir að húsbóndi hans eða fylgdarmaður lauk við að vefja tauminn upp í hönk.
  Smám saman varð hjartslátturinn eðlilegur miðað við gönguhraðann en eyrun héldu áfram að vera ofurnæm. Traðk mitt á mjúkri götunni, árniðurinn, andardráttur minn, þjótandi lauf. Ég heyrði í rjúpu og síðan sá ég hana; hún hljóp yfir stíginn beint fyrir framan mig. Hvítar vetrarfjaðrir gægðust fram úr brúndröfnóttum sumarhamnum.
  Á bakaleiðinni bjóst ég hvað eftir annað við að sjá manninn og hundinn spretta upp úr jörðinni og eitt sinn var ég næstum búin að ávarpa klett sem ég hafði ekki veitt athygli á leið út eftir.

(14-16)

 

Fleira eftir sama höfund

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Rencontres

Lesa meira

Les pieds de la libraire

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira
útsýni

Útsýni

Sigurlilja er ung kona „sem passar ekki inn í normið“, eins og móðir hennar segir, og gædd óvenjulegri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar.
Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira