Beint í efni

Ból

Ból
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Ból er saga um ofurást og hjartasorg, styrk og uppgjöf.

Líneik Hjálmsdóttur – LínLín – er ekki fisjað saman. Hún hefur stigið ölduna í stórsjó lífsins og stendur enn keik þrátt fyrir sáran missi og þung áföll. En nú er komið að ögurstund. Náttúran fer hamförum rétt við sælureitinn hennar í sveitinni, hjartastaðinn sem foreldrarnir byggðu upp og ræktuðu. Einbeitt heldur hún til móts við ógnina sem engu eirir – og fortíðina um leið: minningarnar, ástina, leyndarmálin og sorgirnar stóru.

Úr bókinni

Eins og stendur í skáldsögunni þá er upphaf endalokanna yfirleitt á baðherberginu. Já einmitt þar, varð vör við smáblæðingu, fimm árum eftir menópásu. Fór strax til kvensjúkdómalæknis, samviskusöm. En ekki hrædd. Var eiginlega sama þótt slæmska væri á ferð. Spurning hvort mér þótti það hreinlega skárra.
   Hér var læknir sem tók ekki sjensa. Ég var strax sett í allar rannsóknir. Og það kom í ljós að ég var með krabbameinsæxli í leginu. Skurðaðgerð, geislameðferð og kemóterapía. Æxlið var nógu stórt, en ekki af mjög svæsinni sort. Til vonar og vara yrðu eggjastokkarnir teknir líka.
   Ég var fegin því að draslið yrði hirt úr mér. Af tómum vitleysisgangi hafði ég ekki farið í legnám þegar hæst hóaði. Tíu dagar á túr. Ekkert annað að gera en taka legið. En ég lét þetta yfir mig ganga og hélt þá áfram að missa úr marga daga í hverjum einasta mánuði, árum saman.
   Mín skoðun er sú, að þótt ekki væri fyrir neitt annað en tíðabölvunina, þá sé plága að vera kvenmaður. Hvað eru margar okkar sem hafa kvalist eins og ég, marga daga í mánuði, af verkjum, slappleika? Hvað verður þetta stór hluti af ævinni, "bestu árunum", þegar upp er staðið? Og við hliðina á þessu blóðsyndaflóði eigum við að vera í vinnu, elda mat, þrífa og ala upp börnin. Tjónka við eiginmenn sem smábörn væru. Eða vera samvistum við rolumenni. Algengustu sortir af eiginmönnum sem ég hef haft fyrir augunum. Undantekning er til dæmis Róbert hennar Þyríar.
   (Hreint út, ef ég á að endurfæðast, gerðu mig að kalli, helvítið þitt, hver sem þú ert. Þá ætla ég að fá mér meðfærilega konu sem kemur með kaffi í rúmið og passar að vera stanslaust með físibelg hróssins á lofti svo ekki ýrist vindur úr útblásna egóinu. Og ef ég hefði bara fengið að vera kall þá hefði mér verið hlíft við ástinni á Hansa mínum - ofurást konu á manninum - sem er örugglega enn djöfullegri en ofurást manns á konu. Samanber mömmu. Mömmu mína.)
   Meðan á þessum blóðlátahamförum stóð hugsaði ég minnst út í hvers konar plága þetta væri. Lét bara yfir mig ganga, og eins og kvenfíflið sem ég er (konur allra tíma, sérfræðingar í að láta yfir sig ganga, yfir sig ganga!). Og þá ekki fjarlægja óþurftalíffæriið sem gekk þannig frá mér að ég ráfaði um náföl og blóðsogin á löngum köflum.
   Þegar kvenmannslíffærið hætti að plaga mig loksins, þá bjó það til æxli sem ógnaði lífi mínu beinlínis - meðan blæðingaflóðið og verkjavítið gerðu það óbeint, hundrað daga á ári. (Það eru vel á minnst ekki nmea þrjúhundruð sextíu og fimm dagar í árinu.) Enginn sársauki fylgdi þessu lúmska þykkildi, það gerði vart við sig með penni blæðingu sem kærulausar konur hefði ekki tekið mark á.
   Líffærið var þá ekki aldeilis hætt að hrella mig þótt formlegu hlutverki þess væri lokið. Geislameðferðin og kemóterapían gerðu mig að heilalausri tuskudúkku, að sköllóttu fríki á brauðfótum. Þurrkuðu upp slímhúðir þannig að ég á við króníska hæsi að stríða, augnþurrk, skitu og oftíð þvaglát. Ekki hefði mig dreymt um það eftir meðferð að stunda áfram kynlíf eins og slímhúðirnar voru á sig komnar. En það segi ég líka satt, að ef ég sakna ekki einhvers, þá er það sex.

(s. 69-70) 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Liebe auf den ersten Blick

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Amour de l'Islande

Lesa meira

Ljóð í Poésie islandaise contemporaine

Lesa meira

The Thief of Time

Lesa meira

Ástarljóð af landi

Lesa meira