Beint í efni

Borg

Borg
Höfundur
Ragna Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1993
Flokkur
Skáldsögur

Úr Borg:

Eftirmiðdagur á torgi

Gatan opnast út á lítið kyrrlátt torg. Svo lítið að það stendur varla undir nafni. Kannski væri réttara að kalla það hellulagðan skika eða reit en eitthvað í andrúmsloftinu er þannig að torg á hér betur við.
 Tilgangur þessa torgs er óljós. Ef til vill er það hluti af borgarskipulaginu, nauðsynlegur hvíldarstaður vegfarendum þreyttum á erli borgarinnar. Þó er það hvergi á korti að finna.
 Torgið er ferhyrnt og jafnhliða, lagt ljósgráum hellum.
 Að tveimur hliðum þess liggja mjóar götur, að þeirri þriðju hvítmálaður húsveggur.
 Að fjórðu hlið torgsins liggur óhirtur garður, umgirtur lágu grænmáluðu grindverki.
 Torgið er autt. Á sama hátt og hægt væri að ímynda sér höggmynd á stöpli á torginu miðju, mætti einnig hugsa sér að hún yrði fjarlægð einhverja nóttina.
 Við gatnamótin á horninu gefur gamaldags ljósastaur torginu útlendan blæ. Í horninu á móti, þar sem húsveggur og garður mætast, er hávaxið linditré með stórri laufkrónu. Undir trénu stendur grámálaður trébekkur.
 Um eftirmiðdaginn er heitt á torginu, sólin skín beint niður á brennandi hellurnar og ekki bærist hár á höfði. Í loftinu liggur daufur ilmur af bráðnandi malbiki, fjarlægum bílaútblæstri, trjám og grasi.
 Bekkurinn freistar, í svölum skugga linditrésins.
 Beint á móti bekknum, handan torgsins, er hvítmáluð húsalengja með mjóum dökkgrænum útidyrum og eru tvö þrep upp á þröskuldana. Hægra megin við hverjar dyr er lítill eldhúsgluggi, rúðurnar nýþvegnar og þar fyrir innan sofa kettir vært milli blómstraðra gluggatjalda.
 Á hægri hönd er önnur húsalengja, einnig hvítmáluð og útidyrnar grænar. Þar sofa aðrir kettir.
 Á bekknum má láta líða úr þreyttum fótum og láta hugann reika. Halla aftur höfðinu og horfa upp á milli grænna laufa linditrésins, upp í endalausan dimmbláan sumarhimin.
 Torgið er kyrrlátt. Enginn umferð, enginn gengur hjá. Frá borginni berst lágur niður, straumur fljótsins eða umferðarniður.
 Lítil flugvél rýfur kyrrðina. Flýgur þvert yfir himininn og vélarhljóðið minnir á fjarlæga skelli í mótorbát, fulla af sumri og sól.

(s. 43-44)

Fleira eftir sama höfund

Bónusstelpan

Lesa meira

Lauch oder Aprikose

Lesa meira

Daði : Ódysseifur

Lesa meira

Stefnumót

Lesa meira

27 Rooms

Lesa meira

Vetrargulrætur

Lesa meira

Vinkonur

Lesa meira

The perfect landscape

Lesa meira

Fallegri en flugeldar

Lesa meira