Beint í efni

Griðastaður

Griðastaður
Höfundur
William Faulkner
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1969
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Sanctuary eftir William Faulkner í íslenskri þýðingu Guðrúnar Helgadóttur. Með eftirmála Sverris Hólmarssonar.

Úr Griðastað

14

Þar sem hún sat við lækinn með sofandi barnið á hnjánum varð konunni ljóst, að hún hafði gleymt pelanum. Hún sat þarna um það bil klukkustund eftir að Popeye skildi við hana. Þá fór hún aftur upp á veginn og sneri við í áttina til hússins. Hún var komin næstum hálfa leið að húsinu með barnið í fanginu, þegar bíll Popeyes fór hjá. Hún heyrði hann koma og vék út af veginum og stóð fyrir utan hann og horfði á bílinn síga niður hæðina. Temple og Popeye voru í bílnum. Popeye brá ekki svip, þó að Temple horfði beint á konuna. Temple horfði beint í andlit konunnar undan hattinum, og í svip hennar sáust engin merki þess að hún þekkti hana. Hún leit ekki aftur, augun fengu ekkert líf; konunni við veginn fannst andlit hennar líkast lítilli, dauðafölri grímu, sem rynni framhjá henni eftir línu og burt. Bíllinn rann áfram og hentist og kastaðist til í hjólförunum. Konan hélt áfram áleiðis til hússins.

Blindi maðurinn sat í stól á veröndinni að framan, í sólinni. Hún hafði greikkað sporið, þegar hún kom inn í ganginn. Hún fann ekki fyrir óverulegum þunga barnsins. Goodwin var í svefnherbergi þeirra. Hann var í miðjum klíðum að setja á sig trosnað bindi; þegar hún leit á hann, sá hún, að hann var nýrakaður.

Já, sagði hún. Hvað er um að vera? Hvað er um að vera?

Ég neyðist til að ganga til Tull-fjölskyldunnar og síma eftir sýslumanninum.

Sýslumanninum, sagði hún. Já. Allt í lagi. Hún kom að rúminu og lagði barnið á það.

Til Tulls, sagði hún, já, þau hafa síma.

Þú verður að matbúa, sagði Goodwin. Handa pápa.

Þú getur gefið honum eitthvað af köldu brauði. Honum stendur á sama. Það er eitthvað eftir í eldavélinni. Honum stendur á sama.

Ég fer, sagði Goodwin. Þú verður hér.

Til Tull, sagði hún. Þá það. Tull var maðurinn á bænum, þar sem Gowan fékk bílinn. Þangað voru tvær mílur. Tull-fjölskyldan sat að snæðingi. Þau buðu henni að stanza. Ég þurfti bara að nota síma, sagði hún. Síminn var í borðstofunni, þar sem þau sátu undir borðum. Hún hringdi, og þau voru að matast við borðið á meðan. Hún vissi ekki um númerið. Sýslumaðurinn, sagði hún þolinmóð í tólið. Hún fékk samband við sýslumanninn, og Tull-fjölskyldan sat í kringum borðið, í kringum sunnudagsmatinn.

Dauður maður. Þér farið framhjá bæ Tulls, áfram um það bil mílu vegarlengd og beygið út af til hægri ... Já, Gamla franska villan. Já. Það er frú Goodwin sem talar ... Goodwin ... Já.

(s. 97-98)

Fleira eftir sama höfund

Sem ég lá fyrir dauðanum

Lesa meira

Ljós í ágúst

Lesa meira