Beint í efni

Ósýnilegir glæpir

Ósýnilegir glæpir
Höfundur
Guillermo Martínez
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Crímenes imperceptibles eftir Guillermo Martínez í þýðingu Hermanns.

Á sólríkum sumardegi finnst öldruð kona myrt á heimili sínu. Stærðfræðingurinn Arthur Seldom kemur fyrstur á morðstað eftir að honum hafa borist torskilin nafnlaus skilaboð. Í kjölfarið eru fleiri myrtir en ekkert virðist tengja þessi morð annað en torræð skilaboð sem berast til Arthurs Seldom í stærðfræðideild háskólans í sama mund og fórnarlömbin finnast. Hann lítur svo á að lykillinn að lausn morðgátunnar sé ákveðin samsvörun milli stærðfræðikenningar og táknanna í skilaboðunum sem hafa borist honum. Nú þarf Arthur að beita stærðfræðikunnáttu sinni til að leysa gátuna áður en morðinginn lætur til skarar skríða enn á ný.

Úr Ósýnilegum glæpum

Það er munur á sannleikanum og þeim hluta sannleikans sem hægt er að færa sönnur á: Þetta er í hnotskurn ályktun Tarskis af kenningu Gödels, sagði Seldom. - Auðvitað var dómurum, réttarlæknum og fornleifafræðingum fullkunnugt um þetta löngu á undan stærðfræðingum. Hugsum okkur glæp sem aðeins tveir eru grunaðir um. Hvor um sig veit allan sannleikann sem máli skiptir: Það var ég eða það var ekki ég. En rétturinn hefur ekki beinan aðgang að þessum sannleika og verður að fara lýjandi krókaleiðir til að safna sönnunum: yfirheyra, skoða fjarvistarsannanir, rannsaka fingraför ... Of oft er raunin sú að sönnunargögnin sem finnast nægja hvorki til að sanna sekt annars né sakleysi hins. Aðferðirnar svið sönnun á sannleikanum, sem eiga rætur að rekja til Aristótelesar og Evklíðs, þetta stolta kerfi sem vinnur út frá sönnum staðhæfingum og óvefengjanlegum frumforsendum og kemst að niðurstöðu skref fyrir skref samkvæmt strangri rökfræði, kerfið sem kemst að því sem við köllum fullreynda staðreynd, er stundum alveg jafn ófullnægjandi og aðferðirnar sem réttarkerfið notar við rannsóknir sínar. Seldom gerði aðeins augnabliks hlé á máli sínu til að teygja sig yfir á næsta borð til að ná sér í servíettu. Mér datt í hug að hann ætlaði kannski að skrifa eina af formúlunum sínum á hana en hann bar hana aðeins rétt sem snöggvast upp að munnvikinu áður en hann hélt áfram að tala. - Gödel sýndi fram á að jafnvel á einfaldasta stigi reiknings finnast yrðingar sem hvorki er hægt að sanna né afsanna með óvefengjanlegum hætti, þær eru utan seilingar hefðbundinna aðferða, yrðingar sem enginn dómari gæti sagt til um hvort eru sannar eða ósannar, sekar eða saklausar. Fyrst þegar ég kynnti mér kenninguna var ég enn í námi, Eagleton var umsjónvarkennarinn minn og það sem vakti ekki síst athygli mína þegar ég hafði náð að skilja og umfram allt samþykkja það sem kenningin sagði í raun og veru, það sem mér þótti hvað einkennilegast var að stærðfræðingum hefði tekist að halda áfram fullkomlega hiklaust að vinna með svo kolrangar aðferðir. Það sem meira var: þeir álitu flestir að það væri Gödel sem hefði gert einhverja villu og að senn kæmu glufurnar í sönnunum hans í ljós; sjálfur Zermelo lét af öllum öðrum störfum og tók sér tvö ár í að reyna að afsanna kenninguna. Þetta var það fyrsta sem ég spurði mig: Hvers vegna rákust stærðfræðingar í aldanna rás aldrei á neina af þessum óleysanlegu yrðingum, hvernig getur stærðfræðin enn í dag, eftir Gödel, haldið áfram för sinni á öllum sviðum eins og ekkert hafi í skorist?

Við vorum orðnir einir eftir á fellows-borðinu í Merton háskóla. Fyrir framan okkur héngu í virðulegri röð myndir af afreksmönnum sem einhverju sinni höfðu verið nemendur við skólann. Ég þekkti ekki önnur nöfn á bronsskjöldunum neðan við myndirnar en T.S. Eliot. Þjónarnir fóru hljóðlega um í kringum okkur og tóku diskana af borðunum eftir prófessorana sem farnir voru í tíma. Seldom bjargaði vatnsglasinu sínu áður en það var tekið og fékk sér stóran sopa og hélt áfram.

(52-4)

Fleira eftir sama höfund