Beint í efni

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur
Höfundur
Vigdís Grímsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ævisögur og endurminningar


Af bókarkápu:

Bíbí Ólafsdóttir fæddist árið 1952 við erfiðar aðstæður og saga hennar er örlagasaga sterkrar alþýðukonu sem bugast aldrei hvernig sem á móti blæs, konu sem gerir hið ómögulega mögulegt.

Úr Sögunni um Bíbí Ólafsdóttur:

11. Sögurnar eru mismunandi fallegar

En þótt Þóra Sigríður sé ekki blíðmál og orð einsog elskan mín og hjartað mitt, dýrðin mín og dásemdin séu henni alls ekki töm, þá veit ég snemma að orðin sem hún notar þurfa ekki endilega að merkja það sem þau raunverulega þýða. Það er raddblærinn, hreyfingarnar, litirnir í kringum hana og allt fasið sem geyma alla leynda og djúpa merkingu og segja þess vegna miklu meira en nokkur orð geta gert.

Hún á það til dæmis til að syngja allra handa söngva þegar hún er glöð og það dansar í kringum hana fjólublátt ljós og stundum gneistar mikið. Þá er gaman hjá okkur í Björk af því að við vitum að mamma nýtur sín og það er sem við manninn mælt að þá gerum við það líka; ljósið í kringum hana er alltaf sterkt í hvaða ham sem hún er og það hefur alltaf mikil áhrif.

Ljósið í kringum fólk hefur reyndar alltaf sagt mér mikið um það vegna þess að það leynir engu. Í ljósi fólks verður allt skýrt og greinilegt, jafnvel það sem leitast er við að fela.

Og ljósið hennar mömmu fylgir henni ekki bara þegar hún syngur heldur líka þegar hún segir okkur krökkunum sögur. Þá er hún kát og í essinu sínu, jafnvel þótt sögurnar séu ekki alltaf neitt sérlega gleðilegar. En henni finnst gaman að leika, syngja og segja frá. Það er ekki síst vegna sagnanna hennar sem ég veit að við eigum fleira sameiginlegt en blóðið.
Hvernig gerist þetta? Nú, hún er kannski að þrífa eða laga til, hreinsa, skrúbba, bóna, eða situr bara á bekknum í eldhúsinu, slappar af og reykir þegar hún segir okkur sögurnar. Við erum þá öll ein augu og eyru að hlusta og hugsa og sjá allt fyrir okkur. Sögurnar fjalla nefnilega margar hverjar um hana sjálfa, hana mömmu litlu, og þegar ég hlusta á hana upplýkst fyrir mér heimur sem ég þekki sjálf, þótt hann sé auðvitað ekki sá sami; heimur sem ég á eftir að kynnast enn betur seinna.

* * *

Ég sé okkur fyrir mér þar sem við sitjum fyrir framan hana og horfum öll upp til hennar; fjólurautt ljósið gerir hana enn þá fallegri og næstum óraunverulega. Birtan af minningunni er mikil og mér er sem ég heyri í henni; ég heyri orð hennar jafnskýrt núna og þá.

Röddin er alltaf djúp og róleg þegar hún segir okkur sögurnar af litlu stelpunni fyrir norðan. Þóra Guðrún litla á bestu og fallegustu mömmuna í heiminum og býr hjá henni og pabbanum við rjóma atlæti alveg þangað til hún er fimm ára gömul. (Seinna vissi ég að mamma hennar, amma mín, Baldvina Anna Hallgrímsdóttir, hafði fengið berkla og dvaldi á Kristneshæli frá því að mamma var fimm ára og alveg þangað til hún lést þar 1923 - tuttugu og átta ára gömul, en þá var mamma orðin níu ára. Við þessar staðreyndir vildi mamma annaðhvort ekki kannast eða vissi hreinlega ekki af þeim.)

En í sögu mömmu bankar dauðinn sem sé á dyr í litla húsinu þeirra fyrir norðan þegar hún er fimm ára og hrífur mömmuna góðu með sér inn í eilífðina. Pabbinn getur ekki ráðið við það einn, aumingja pabbinn, að hugsa um stelpuna sína (reyndar átti mamma fjóra bræður sem aldrei komu fram í sögunni) og sendir hana þess vegna frá sér, og við heldur illt atlæti á ýmsum norðanbæjum eyðir stelpan, Þóra Guðrún, svo bernskunni.

(s. 36-37)

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Grandavegur 7

Lesa meira

Im Netz gefangen

Lesa meira

Kaldaljós

Lesa meira

Fliegt ein Vogel

Lesa meira

Wach auf, Dornröschen

Lesa meira

Trúir þú á töfra?

Lesa meira

Dísusaga: konan með gulu töskuna

Lesa meira

Tystnaden

Lesa meira