Beint í efni

Þvingun

Þvingun
Höfundur
Jónína Leósdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Maður finnst myrtur í sumarbústað við Laugarvatn og sú sem kemur að honum er Magga, dóttir Adams sálfræðings og Soffíu rannsóknarlögreglukonu. Mál fara að flækjast þegar í ljós kemur að einn skjólstæðingur Adams hefur fengið hótunarbréf sem tengist þessu morði og fyrr en varir er Adam enn á ný kominn hálfnauðugur í hlutverk aðstoðarmanns sinnar eldhressu, lakkrísbryðjandi fyrrverandi eiginkonu. Í ofanálag ágerist heilabilun móður hans sífellt og leyndarmálið um Jenný leitar upp á yfirborðið.

Jónína Leósdóttir hefur skrifað á þriðja tug bóka og er ekki síst þekkt fyrir glæpasögur sínar um Eddu á Birkimelnum. Þvingun er þriðja bók hennar um Adam og Soffíu, en þeim fyrri hefur verið afar vel tekið.

Úr bókinni

Samskipti þeirra við úrilla kokkinn og framlága ljósmyndarann höfðu ekki bætt líðan Adams sem enn var helaumur í höfðinu og þjakaður af þorsta. Samúel hafði verið kaldhæðinn og fráhrindandi og Elva eins og afturganga. Og svo borgaði fólk fyrir aðstöðu til að vinna þarna með þeim. Alveg var það makalaust.
   En líklega voru þau óvenju illa fyrirkölluð núna. Geðvonska Samúels var skiljanleg í ljósi bílastæðisrimmunnar. Það var óskemmtilegt fyrir hann að manneskja, sem lagt hafði ólöglega í stæðið hans, setti sig síðan á háan hest og heimtaði af honum allskyns upplýsingar sem hann yrði lengi að tína til. Og Elva ljósmyndari hafði verið tiltölulega nýsofnuð eftir næturvinnutörn þegar þau Soffía mættu í morgun. Konan hlaut að vera bæði syfjuð og þreytt, enda hlammaði hún sér niður á kaffistofunni og lagðist fram á borðið.
   En þótt Samúel og Elva ættu sér kannski málsbætur var Adam samt feginn þegar þau Soffía gátu snúið sér að geðþekkara fólki. Manneskjurnar við borðið á kaffistofunni virtust miður sín út af fréttunum um grafíska hönnuðinn, sátu þétt saman og ræddu málið í lágum hljóðum. Og þótt Hanna Rossi væri ekki beinlínis mjúk týpa var hún kurteis og drífandi og tók umyrðalaust við stjórninni af syfjaða ljósmyndaranum.
   Fréttin um að lögreglan hefði handtekið "dóna með dróna" var nú ekki lengur bundin við kjaftasöguvefinn heldur höfðu aðrir miðlar sagt frá málinu. Þetta heyrði Adam af hvísli fólksins í kaffistofunni sem allt var með síma eða spjaldtölvu fyrir framan sig. Og við þessa samkeppni höfðu ritstjórar Heyrsthefur.is gengið skrefi lengra og birt nafn Daníels sem þeir sögðust hafa eftir traustum heimildum. Gefið var í skyn að þær heimildir væru úr innsta hring hjá lögreglunni.
   Það sauð á Soffíu þegar Hanna Rossi bar þetta undir hana fyrir framan hópinn. Þótt Soffía segði Adam stundum frá rannsóknum, sem mikil leynd átti að hvíla yfir, gerði hún það í þeirri fullvissu að ekkert af því færi lengra. Leki í fjölmiðla var allt annar handleggur.
   En þetta var hvorki staður né stund til að æsa sig yfir lekum löggum, enda voru Soffía og Adam hér í mikilvægum erindagjörðum þó svo að yfirbragð spjallsins við starfsfólkið á Speis ætti að virka óformlegt. Einhver sem starfaði hérna eða átti auðveldan aðgang að staðnum hafði skipulagt árás á Örn sem endaði hafði með andláti hans.

(s. 118-119)

Fleira eftir sama höfund

M’aime – m’aime pas!

Lesa meira

Við Jóhanna

Lesa meira
varnarlaus

Varnarlaus

Adam er rétt mættur í vinnuna á sálfræðistofunni Sáló þegar barni er rænt úr afgreiðslunni.
Lesa meira

Launsátur

Lesa meira
andlitslausa konan

Andlitslausa konan

Andlitslausa konan er fimmta bók Jónínu um Eddu á Birkimelnum, glímu hennar við flókin sakamál og samskiptin við fjölskylduna sem stundum eru síst einfaldari.
Lesa meira

Barnið sem hrópaði í hljóði

Lesa meira

Konan í blokkinni

Lesa meira

Stúlkan sem enginn saknaði

Lesa meira

Óvelkomni maðurinn

Lesa meira