Beint í efni

Að skrifa hið ósegjanlega

Að skrifa hið ósegjanlega
Höfundur
Abdulrazak Gurnah
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur
Að skrifa hið ósegjanlega
Höfundur
Annie Ernaux
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur
Að skrifa hið ósegjanlega
Höfundur
Annie Ernaux
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur
Að skrifa hið ósegjanlega
Höfundur
Jon Fosse
Útgefandi
Espólín forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Leikrit

Á síðasta ári komu út á íslensku fjórar bækur eftir þrjá nýjustu handhafa Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum.

Hinn tansaníski höfundur Abdulrazak Gurnah (f. 1948) hlaut lárviðarsveig Nóbels 2021. Hann hefur skrifað smásögur, ritgerðir og skáldsögur og eru afleiðingar nýlendustefnunnar í Austur-Afríku honum einkar hugleikið viðfangsefni. Paradís er eitt af hans þekktustu verkum. Sagan kom út í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur. Angústúra 2023. (Frumtexti Paradise 1994)

Annie Ernaux (f. 1940) er frönsk og hún var verðlaunuð í Stokkhólmi 2022. Ernaux hefur skrifað bæði skáldsögur og sjálfsævisöguleg verk. Kona var þýdd af Þórhildi  Ólafsdóttur og Ungi maðurinn kom út í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur. Ugla 2023. (Frumtexti Une Femme 1987 og Le Jeune Homme 2022)

Norðmaðurinn Jon Fosse (f. 1959) hlaut verðlaunin 2023. Höfundarverk hans samanstendur af leikritum, ljóðum og sögum, en – Þannig var það: eintal er einleikur sem út kom í þýðingu Kristrúnar Guðmundsdóttur. Espólín forlag 2023. (Frumtexti Slik var det: monolog, 2019).

Þrjár ræður

Höfundar fá ekki Nóbelsverðlaunin afhent (og engar 150 milljónir inn á bankareikninginn sinn) nema þeir samþykki að skrifa ræðu. Ég veit ekki hvort Akademían sænska segir nákvæmlega fyrir um innihaldið, en flestir fást við spurningarnar: Hvers vegna skrifa ég? Hvað knýr mig áfram? Hvað hef ég að segja heiminum?

Það er afar fróðlegt að lesa þessar ræður og segir manni mikið um höfundana þrjá sem hér eru til umfjöllunar. Abdulrazak Gurnah gengst við því að skrifa einkum til þess að bera vitni um sögu Austur-Afríku og það sem gerðist áður og eftir að evrópskir nýlenduherrar hófu þar innreið sína. Hann segist hafa fylgst með því að ekki einungis sé „mannkynssagan sögð af sigurvegurunum“, eins og almælt er, heldur hafi sagan líka verið einfölduð til muna og henni breytt, jafnvel af fræðimönnum og rithöfundum sem hafa lítinn áhuga á því að fara rétt með. Gurnah finnur bersýnilega til ábyrgðar og vill bæta þar úr. Hann segist í ræðunni hafa með skrifum sínum viljað segja frá því sem nánast var búið að slá striki yfir, sögu af grimmd og ofbeldi sem var við það að falla í gleymskunnar dá.

Annie Ernaux segist í sinni ræðu hafa ákveðið það ung að byrja að skrifa til þess að „hefna síns fólks“ (j´ecrirai pour venger ma race) Þegar ákvörðunin var tekin var hún í háskóla með sonum og dætrum frönsku yfirstéttarinnar og trúði því statt og stöðugt að ef hún skrifaði bækur þá gæti hún lagt sitt af mörkum til þess að leiðrétta óréttlæti stéttskiptingarinnar. Hún var sú fyrsta í fjölskyldunni til þess að leita sér menntunar, en upplifði sterkt að það væri litið niður á fólkið hennar; verkamenn, verksmiðjustarfsfólk og smákaupmenn - og það jafnvel fyrirlitið. Stéttaspursmálið liggur eins og rauður þráður um allt höfundarverk Annie Ernaux. Annað nefnir hún í ræðunni, sem ekki fer framhjá neinum sem les verk hennar – hún skrifar líka til þess að rétta hag kvenna og ljá þeim rödd.

Jon Fosse virðist ekki sligaður af því að hann þurfi að leiðrétta söguna eða taka svari lágstétta og kvenna. Í Nóbelsræðunni sagðist hann aldrei undirbúa sig neitt eða skipuleggja áður en hann hefst handa. Hann hafi bara lokað sig af til þess að skrifa það sem spretti úr einhverjum leynistað innra með honum sjálfum. Stað sem hann viti ekkert um, nema það að hann sé til. Hann segist þó hreint ekki skrifa til þess að tjá sig, miklu frekar til þess að „komast undan sjálfum sér“. Fosse lýsir muninum sem hann upplifir á hinu talaða orði og því skrifaða og þögninni/einsemdinni þar á milli. Þögninni þar sem merkingin liggur og á heima. Hann reyni því að skrifa hið ósegjanlega – enda sé ekki hægt að tjá það mikilvægasta með orðum.

Tvö verkanna; Þannig var það: Eintal, leikþáttur eftir Jon Fosse og Kona eftir Annie Ernaux fást við endalokin, þótt með ólíkum hætti sé. Þetta eru knappar sögur þar sem horft er inn á við – djúpt inn í manneskjuna og á lífsferil hennar allan. Í Unga manninum er líka tekist á við minningar og fortíð, af djúpum og einlægum vilja til þess að skilja og skilgreina. Paradís er margradda og útleitin saga sem fjallar um ungan dreng í Austur-Afríku í byrjun tuttugustu aldar. Gurnah tekst á við stór umfjöllunarefni, meðal annars kúgun og arðrán nýlendustefnunnar, sem fyrr segir. Það er mikið undir, margar persónur og heil heimsálfa.

Stutt þögn og mjög stutt þögn

Í leiktexta Fosse eru þagnirnar mjög mikilvægar, líkt og hann kom inn á í Nóbelsræðu sinni. Textinn er eintóna og endurtekningasamur, án allra greinarmerkja. Þögnin er skrifuð, eins og höfundurinn treysti ekki alveg kommum og punktum. Í Þannig er það er skiptis stutt þögn og mjög stutt þögn:

En ég vil ekki deyja

því ég veit ekki hvað það merkir að deyja

Og þess vegna vil ég það ekki

stutt þögn

kannski er það þannig

mjög stutt þögn

eða

mjög stutt þögn

já kannski

en nei

(18)

Það er flæði textans (eða skortur á því) sem skapar hughrif í verkum Jon Fosse. Í  fyrstu er það skynjunin eða tilfinningin frekar en skilningurinn sem heldur lesanda við verk hans. Sá lesandi sem hér skrifar las fyrir nokkrum árum óræða sögu eftir Fosse, hugsaði í sífellu „Hvað er maðurinn eiginlega að fara?“ og var alltaf í þann mund að fleygja bókinni frá mér í gremju, en uppgötvaði um síðir að textinn hafði  veitt mig í net, þar sem ég sat föst og horfði á mórauða furðufiska leika listir sínar. Þegar textinn hafði unnið sitt verk, þá kom skilningurinn, seint og um síðir.

Fosse er afar ólíkur t.d. Abdulrazak Gurnah, sem býður upp á frásögn sem fellur áfram eins og straumþungt fljót. Frásögn Fosse stendur oft í stað eða fer í hringi áður en nokkuð „gerist“.

Í Þannig er það er Fosse á kunnuglegum slóðum. Mörg verka hans fjalla um einmanaleikann og örvæntingarfulla leit mannsins að tengslum. Sjaldan er dauðinn langt undan, sjálfsmorð eru í fjölmörgum verkanna og svo rammt kveður að því að einn þýðandi hans telur að þar megi leita ástæðnanna fyrir því að Fosse sé svo lítt þekktur í Bandaríkjunum. Hann sé einfaldlega of „morbid“ fyrir þann markað.

Eina persóna verksins er maðurinn sem í leiklýsingu á íslensku er sagður „fullorðinn“ (en það orð er skrauthvörf fyrir það að vera gamall). Sjálfur kallar maðurinn sig „gamlingja“ og „öldung“. Nafn hans kemur ekki fram og heldur ekki nafn „hennar“ sem honum verður hugsað til í sífellu. Konunnar sem er heimilishjálp eða hjúkrun, tengist honum ekki fjölskylduböndum, en er eina manneskjan sem hann hefur samskipti við.

Þannig var það vekur hughrif, bæði við Tómas Jónsson Metsölubók Guðbergs og Krapp´s Last Tape Becketts. Einmana gamalmenni sem láta hugann reika um ævi sína og endalokin. Það er eftirsjá, biturð og jafnvel reiði í hugsunum og tali. Sú tilfinning ríkjandi að héðan af verði engu breytt.

Maðurinn hans Fosse er listmálari sem hefur þrisvar verið kvæntur og á mörg börn, en konurnar fóru frá honum ein af annarri og börnin vilja ekkert með hann hafa. Hann horfist í augu við að hafa verið slæmur eiginmaður og faðir, gefið sig listinni og ekki séð annað en málverkin. Í rauninni sóað lífi sínu í málverk sem hann hafi á sínum tíma selt fyrir lítið, þótt „nú“ seljist þau á stórar upphæðir og séu á fínum söfnum. „og ég er víst / svokallaður / mikill listamaður“ (46-47)

Aleinn og yfirgefinn af Guði

Þannig er það er saga listamannsins sem gefur „allt“ í list sína og áttar sig ekki á því að hann hefur vanrækt fólkið sem stendur honum næst fyrr en það er orðið of seint. Hann er einn og mun deyja einn.

Maðurinn hefur ekki samskipti við neinn nema „hana“, sem hann er að bíða eftir þegar Fosse opnar þennan glugga inn í líf hans. Konuna sem kemur til hans reglulega, og er líklega hjúkrunarkona eða heimilishjálp. Hann er ósáttur við hana, talar um að hún vilji sér illt, hermir eftir henni og segist ekki vilja fá hana til sín, en er augljóslega afar einmana og að bíða eftir henni.

Nú hlýtur hún að fara að koma

mjög stutt þögn

já eins og ég hafi einhverja ánægju

af því að hún komi

En það hef ég aldrei haft

Stutt þögn

(40-41)

Hann er staddur í mótsagnakenndum heimi algerrar einangrunar. Þráir félagsskap konunnar, en á erfitt með að horfast í augu við raunveruleikann sem hún ber með sér. Hversdagslegar spurningar hennar um hvernig börnin hans hafi það og hvort hann eigi barnabörn fara illa í hann og ýfa upp sárar minningar. Í sjálfsvorkuninni kennir hann konunni um og ímyndar sér að ekki einungis vilji hún með spurningunum „vera erfið“, heldur vilji hún að hann detti og deyi. „Það er heitasta ósk hennar“ (51).

Í eintali gamla málarans um konuna sem hann er að bíða eftir og lífið sem hann sóaði er þriðja umræðuefnið Guð, yfirvofandi dauði og möguleg upprisa. Hann er vanur að fara með Faðirvorið á hverjum morgni eftir að hann sest á rúmstokkinn, en þennan morgun gerir hann það ekki, að eigin sögn vegna þess að hann fór að hugsa um upprisu holdsins. Í einsemdinni veltir hann því fyrir sér hvort hann hafi líka verið yfirgefinn af Guði, en slær úr og í með það:

Það er

mjög stutt þögn

eins og Guð hafi yfirgefið mig

sei sei nei

Guð hefur ekki yfirgefið mig

Guð hefur aldrei yfirgefið mig

Og ég hef aldrei yfirgefið Guð

Stutt þögn

(48)

Gamlingi Fosse er ansi langt frá því að vera áreiðanlegur sögumaður. Hann lýsir því yfir að hann vilji ekki að konan komi, en hugsar stöðugt til hennar. Hann segir að honum sé sama hvort hann á barnabörn eða ekki, þegar hugsanir um börnin hans og möguleg barnabörn láta hann ekki í friði. Hann lýsir yfir trúleysi („Og það sem ég hef átt af trú / Ja það er horfið“ (52)) þótt hann sé í sífellu að reyna að fara með Faðirvorið og geri það daglega. Í það minnsta dvelur hugurinn við Guð og Faðirvorið fæðist loks á lokasíðunum, þegar maðurinn deyr með það á vörunum.

Nóbelsverðlaunahafarnir þrír nálgast trú og trúarbrögð á afar ólíkan máta. Í Paradís Gurnah eru trú og trúarhugmyndir miðlægar. Allah er ein af aðalpersónum sögunnar, ef svo má að orði komast, og tilvitnanir tíðar í Kóraninn og ýmis helgirit. Það eru skörp skil á milli þeirra sem trúa og eru Allah þóknanlegir og „villimanna“ sem trúa á stokka og steina. Þeir fyrrnefndu eiga vísa vist í hinni títtnefndu Paradís, en hinir munu vitaskuld brenna í vítislogum til eilífðarnóns. Annie Ernaux skrifar varla staf, hvorki um Guð né skort á honum, trú eða trúleysi í þeim tveimur verkum sem hér eru til umfjöllunar. Þegar móðir hennar er jörðuð sér prestur um messu og talar um „eilíft líf“ og „upprisu systur okkar“ (hvort tveggja hefur Ernaux innan gæsalappa í Konu) en synir hennar verða alveg forviða, þar sem þeir hafa aldrei áður verið við messu.

Hin afmarkaða stund

Það sem Kona og Þannig var það eiga sameiginlegt, eins og nefnt var hér að ofan,  er að manneskjur horfa yfir „sviðið“ við lífslok. Í Konu rifjar Annie Ernaux upp ævi móður sinnar – og kannski fyrst og fremst, samband sitt við hana. Í Þannig var það lifir listamaður í þeirri kvöl að hafa „sóað“ ævi sinni í listsköpun, er einn, yfirgefinn og deyjandi og engu hægt að breyta. „Svo þetta var þá lífið“ (43) segir maðurinn þegar hann áttar sig á því að dauðinn er handan við hornið. Hér má rifja upp orð Predikarans: „Öllu er afmörkuð stund / og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma.“

Tíminn sem er á þrotum – eða hin afmarkaða stund mannsins er ákveðið stef í þremur bókanna. Annie Ernaux gerir sitt besta til þess að ná utan um líf móður sinnar Konu. Þá verður Ungi maðurinn til þess að hún hugsar um sitt líf sem afmarkaða stund, þegar hún veltir fyrir sér aldursmun þeirra og því sem þau geta ekki upplifað saman. Gamlingi Fosse er karlægur, lítur yfir farinn veg og er hreint ekki sáttur við það sem hann sér. Öfugt við Ernaux er hann ekki fús til þess að greina, horfast í augu við og sættast við ævi sína.

„Ef ég skrifa ekki um þá, ná hlutirnir ekki sínum lokapunkti, ég hef aðeins upplifað þá.“ skrifar Annie Ernaux. Hún hefur oft „skrifað sig frá“ hlutunum, ef svo má að orði komast, eða pakkað þeim inn í texta og sett aftan við þá lokapunkt, enda stór hluti höfundarverks hennar sjálfsævisögulegur. Í Unga manninum horfir Ernaux til baka á níræðisaldri og segir frá ástarsambandi sem hún átti í þrjátíu árum fyrr, við mann sem er þrjátíu árum yngri en hún.

Vangaveltur um tímann eru fyrirferðarmiklar í þessari stuttu sögu. Ernaux segir að ungi maðurinn hafi „staðsett sig utan tímans“ og gert sig „aldurslausa“. Sambandið við hann hafi búið til nokkurs konar göng aftur í tímann þar sem hún gat heimsótt sjálfa sig unga og m.a. rifjað upp þegar hún lét rjúfa þungun; atburður sem setti ævarandi mark á hana og hún hefur mikið skrifað um áður.

Ungi elskhuginn minnir hana á lágstéttarupprunann, ekki síður en æskuna. Hann er óheflaður á köflum, sker spagettíið og þurrkar sér um munninn með brauði og hún uppgötvar að þegar hún var á hans aldri hefði hún aldrei viljað hann. „Hann var boðberi minningarinnar um mína fyrstu stétt“ (17) og henni þykir það óþægilegt á köflum.

Eins og stéttaspursmálið er stef í verkum Ernaux eru femínísk álitaefni heldur aldrei fjarri. Hún finnur augnaráð hneykslunar hvíla á sér þegar hún lætur sjá sig með þrjátíu árum yngri manni sem augljóslega er ekki sonur hennar, en hún er meðvituð um að karl á sama aldri gæti spókað sig með þrjátíu árum yngri konu án þess að nokkur liti það hornauga. Hneykslunin sem hún finnur fyrir kippir henni líka aftur í tímann – þegar móðir hennar skammar hana fyrir að vera í of þröngum kjól. Hún verður aftur „hneykslanlega stelpan“ (25).

„Dýpt þess tíma sem aðskildi okkur gaf núinu meiri ákefð“ (26) skrifar Ernaux um unga manninn, en það hvarflar ekki að henni fyrr en löngu eftir að sambandinu er lokið að allt sem hún man frá því áður en hann fæddist fengi öfuga hliðstæðu eftir dauða hennar sjálfrar. Þá myndi hann upplifa hluti sem hún gæti ekki upplifað.

Hvað sem öðru leið var hann dauði minn, bara með tilveru sinni. Eins og synir mínir voru líka og ég hafði verið fyrir móður mína, sem lifði ekki fall Sovétríkjanna en mundi eftir hringingu kirkjuklukknanna um allt land, 11. nóvember 1918. (27)

Eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir hefur bent á, meðal annars í grein sinni „Sjálf í frásögn“ (Skírnir, vor 2003), þá eru ljósmyndir sjálfsævisagnahöfundum hugleiknar sem persónulegar heimildir. Þær eru oft og tíðum kynntar til sögunnar sem órjúfanlegur hluti af minningum höfundarins, þótt þær séu vitaskuld „búnar til“ (af ljósmyndaranum, tækninni) og sífellt auðveldara að eiga við þær, afmá hluta þeirra eða falsa á annan hátt.

Átta ljósmyndir af höfundi prýða bókina Ungi maðurinn. Þetta eru myndir af glaðlegri og hrifinni konu um fimmtugt, sú síðasta skuggamynd af pari við strönd. Án þess að það komi fram er líklegt að þessar myndir hafi ungi maðurinn tekið meðan á ástarsambandinu stóð. Ljósmyndin sem listform gerir manni vitaskuld kleift að stíga í einu vetfangi aftur í tímann, gegnir svipuðu hlutverki og táknmynd unga mannsins í verkinu. Ernaux hefur áður sent frá sér bók sem beinlínis fæst við ljósmyndaformið sem tækni til þess að frysta minninguna (L´Usage de la photo, 2005). Þegar hún var í krabbameinsmeðferð átti hún í ástarsambandi við blaðamanninn og ljósmyndarann Marc Marie. Þau heilluðust bæði af óreiðunni sem þau skildu eftir sig eftir ástríðunætur og tóku myndir af fötum á gólfi, húsgögnum sem færð höfðu verið úr stað og matardiskum sem þau höfðu borðað af, í viðleitni til þess að skrásetja óreiðuna og þar með ástríðuna og sambandið.

Að komast hærra í þjóðfélagsstiganum

Móðir höfundar deyr í upphafi Konu og í smáatriðum er greint frá því sem þarf að gera við andlát. Samskipti við sjúkrahús, útfararþjónustu, blómabúð. Þetta eru raunsæislegar lýsingar, vesenið í kringum dauða og greftrun yfirskyggir sorgina fyrstu dagana. Þegar því er lokið koma minningarnar æðandi.

Ernaux syrgir móður sína ákaflega og dvelur við hugsanir eins og „Hún verður aldrei nokkurs staðar í heiminum framar“ (16) en hefst þegar handa við að gera ævi hennar skil. Móðirin var alin upp í stórum systkinahópi í úthverfi lítillar borgar í Normandí og æska hennar var „að hluta til barátta við að hljóta ekki líklegustu örlögin, verða örugglega fátæktinni að bráð, kannski áfenginu“ (29). En hún var skapbráð og stolt, „gerði sér glögga grein fyrir lágri samfélagsstöðu sinni en neitaði að láta dæma sig aðeins út frá henni“ (28).

Móðirin hefur verið sterkur karakter og dugnaðarforkur og Ernaux segir frá henni með kostum og göllum. Henni var laus höndin; dóttirin uppskar ófáan löðrunginn í uppeldinu og var kölluð ýmsum ónefnum, en „dýpsta löngun hennar var að gefa mér allt sem hún hafði ekki fengið“ (47). Hún talar um „taumlausa ástúð hennar og skammir“ (48) og að móðirin hafi verið tilbúin að fórna öllu svo að dóttirin ætti betri ævi en hún, jafnvel þótt það þýddi að hún færi frá henni.

Hvarvetna skjóta upp kollinum vangaveltur um þjóðfélagsstöðu foreldranna og það hvernig Ernaux sjálfri tókst að komast upp um stétt – úr verkamannastétt upp í millistétt, með því að mennta sig og giftast inn í menntamannafjölskyldu.

Faðirinn las ekkert annað en héraðsblaðið og honum var alveg sama hvort hann talaði gott mál eða ekki. Móðurinni var umhugað um að vanda orðaval sitt, forðast málvillur og reyndi að læða inn í samræðurnar orðum sem hún hafði lesið eða heyrt „fínt fólk“ nota. „Að komast hærra í þjóðfélagsstiganum var í hennar augum fyrst og fremst að læra og henni fannst ekkert fegurra en fróðleikurinn“ (53). Hún bar svo mikla virðingu fyrir honum að hún þvoði sér um hendurnar áður en hún snerti bækur.

Texti Ernaux er viðkvæmnislegur, djúpur og gáfulegur en í frásögninni er hrá og nakin einlægni. Hún skirrist ekki við að segja frá vandræðalegum/pínlegum uppákomum og hugsunum sem flestir myndu bara þegja um. Hún játar að hafa á tímabili skammast sín fyrir hvernig móðir hennar talaði og bar sig á óheflaðan hátt – einkum vegna þess að hún fann hvað hún líktist henni. „Ég var sár við hana fyrir að vera eins og ég forðaðist að líta út fyrir að vera, fyrst ég var í þann veginn að flytja mig yfir í aðra þjóðfélagsstétt“ (59-60).

Alzheimer-sjúkdómurinn heltók móðurina undir lok ævinnar, persónuleikinn hvarf, útlit hennar breyttist og hún varð æ „ómennskari“. Ernaux lýsir því hvernig hún vill með skrifum sínum bæta þar úr og leiðrétta: „Ég get ekki lifað án þess að láta textann tengja brjáluðu konuna sem hún var orðin við þá sterku og geislandi sem hún hafði verið“ (86).

Ernaux talar um þetta sem nauðsyn („ég get ekki lifað án þess“), sem kallast á við það sem hún hefur sagt um að láta sér ekki nægja að upplifa atburðina, heldur verði hún að skrifa um þá. Þetta tengir hún móðurinni og því að hún sé skuldbundin henni, einmitt vegna þess að hún greiddi götu hennar til menntunar:

Móðir mín, sem fæddist meðal fólks sem var undirokað af öðrum og vildi komast þaðan, hún varð að verða að sögu svo mér finnist ég ekki vera eins einmana og gervileg í heimi sem drottnar yfir öðrum með orðum og hugmyndum og þangað sem ég, að hennar ósk, er farin. (103)

Hún hefur sem menntuð kona og rithöfundur vald yfir tungumálinu – og vald yfir sögu móðurinnar. Í Unga manninum hefur hún líka allt vald – í sambandinu og frásögninni og það vald er miskunnarlaust á köflum. Hún gengst við því að nota unga manninn til þess að geta skrifað á ákveðinn hátt um fóstureyðinguna sem hún fór í áður en hann fæddist og þegar því er lokið fannst henni hún vera knúin til þess að yfirgefa hann. „Rétt eins og ég vildi losa mig við hann og fleygja honum út eins og ég hafði gert við fóstrið meira en þrjátíu árum áður“ (30).

Lík(ami) móðurinnar, andlit elskhugans

Andspænis hrörnun og dauða verður það óþægilega ljóst að maðurinn er ekki annað en hold (sem er mold, hverju sem það klæðist). Hið líkamlega – stundum gróteska – er áberandi í verkum Nóbelsverðlaunahafanna.

Í Konu er lík móðurinnar í forgrunni á fyrstu síðunum.

Það var búið að þvo henni, hvítt bindi var bundið þétt um höfuðið, undir hökuna svo hörundið hrukkaðist í kringum munn og augu. Lak var breitt yfir hana alveg upp undir axlir, hendurnar faldar undir því. Hún minnti á litla múmínu. (7)

Sagan af lífi móðurinnar hefst svo þegar kistan hefur verið látin síga ofan í gröfina. Í upprifjuninni tvinnast saman líf móður og dóttur og kynferði þeirra er í brennidepli. Brugðið er upp mynd af móðurinni þar sem hún er að klifra upp á bjarg, fjörutíu og sex ára og tiltekið að hún hafi hætt að fara á blæðingar tveimur mánuðum áður. Þegar dóttirin byrjar á blæðingum réttir móðirin, rauð í framan, henni bindi og búnað til þess að setja það á sig, án þess að útskýra hvernig eigi að nota það:

Það gladdi hana ekki að sjá mig stækka. Þegar hún sá mig nakta virtist henni bjóða við líkama mínum. Sjálfsagt þýddu brjóst og mjaðmir eins konar ógnun, þá að ég færi að eltast við stráka og hætti að hafa áhuga á námi. (57)

Móðirin afneitar dóttur sinni sem kynveru, reynir að hafa áhrif á hvernig hún klæðir sig og er stöðugt hrædd um að hún sofi hjá og verði ólétt. Þegar Ernaux rifjar þetta upp bregður hún upp gróteskri mynd af afrískri móður sem heldur handleggjum dóttur sinnar föstum fyrir aftan bak „á meðan umskurðarkerlingin sker af henni snípinn“ (59).

Þegar móðirin veikist af alzheimer og verður ósjálfbjarga hefur hlutverkunum verið snúið við, dóttirin berst gegn því sem móðirin er orðin: „Ég vildi ekki að hún yrði aftur lítil telpa, hún hafði engan „rétt“ til þess“ (90). Ernaux tekur að sér umönnunarhlutverk, snertir líkama móðurinnar, gefur henni að borða og greiðir á henni hárið, enda var hún „lítil stelpa sem aldrei myndi stækka“ (97).

Kvöld eitt sér hún í kynfæri móður sinnar þar sem hún liggur sofandi ofan á rúmfötunum í nærfatasamfestingi. Hún fer að gráta, þar sem hún uppgötvar að þarna liggur konan sem fæddi hana. Dótturina dreymir síðan margvíslega drauma og í einum þeirra renna kynfæri hennar saman við kynfæri móðurinnar:

Einu sinni lá ég úti í miðri á, marandi í hálfu kafi. Úr kvið mínum og kynfærum, sem aftur voru orðin slétt eins og á lítilli telpu, lágu þráðjurtir og flutu, linar. En þetta voru ekki bara mín kynfæri, heldur líka kynfæri móður minnar. (101)

Þetta er afar kvenlegur texti og nánast eins og skrifaður inn í kenningar Juliu Kristevu um hið orðlausa samband barnsins við móðurina. Þegar Ernaux tekur sér svo vald tungumálsins er móðirin dáin og samruninn við hana endanlega rofinn. Hlutverkin hafa snúist við. Dóttirin sem rithöfundur verður sú sem fæðir:

Núna finnst mér ég vera að skrifa um móður mína til þess að geta sjálf komið henni í heiminn. (39)

Í Unga manninum er áherslan á líkamann sem eldist (og hrörnar), þar sem samanburðurinn við unga manninn er stöðugur. Æxlunarhlutverki líkama Ernaux er lokið – hún hefur grunsemdir um að félagar hans spyrji: Hvernig getur þú verið með konu sem er á breytingaskeiði? (14) án þess að hann hafi gefið slíkt í skyn.

Ernaux þykir elskhuginn staðsetja hana utan tímans, eins og vikið var að hér að ofan, en hann er nokkurs konar hlið að hennar yngri líkama. Hún segir að í sambandinu við hann sé líkami hennar orðinn aldurslaus, en á þann hátt hafi karlmenn alltaf kunnað að nýta sér yngri konur:

En ég vissi, þegar ég horfði á þessi hjón á miðjum aldri, að væri ég með ungum, tuttugu og fimm ára manni, væri það til þess að hafa ekki stöðugt fyrir framan mig markerað andlit manns á mínum aldri, andlit minnar eigin öldrunar. Andspænis andliti A. var mitt líka ungt. (22)

Gamli maðurinn í Þannig var það er karlægur og hreyfir sig einungis með mestu erfiðismunum, en veltir fyrir sér dauðanum og hvað það þýðir að „rísa upp í holdinu“ þegar hann getur varla reist sig upp í rúminu:

Því þá

í upprisunni

á þetta hold

þessi hrörlegi líkami

að rísa upp frá dauðum

Ha

ha ha

(9)

Hann reynir að komast að niðurstöðu um hvort það sé ekki ungi líkaminn sem eitt sinn var, sem mun rísa, og hvernig það muni annars gerast eftir að holdið hefur rotnað eða verið brennt. Maðurinn reynir að fara með Faðirvorið, reynir að hefja sig upp til guðdómsins, en er þó fastur við hugsanir um holdið, líkamann sem mun verða að ösku:

Af jörðu ertu kominn

að jörðu skaltu aftur verða

Þögn

Spyrjandi

Að jörðu

Að ösku

mjög stutt þögn

já að ösku

(16)

Á meðan maðurinn er kvalinn af hugsunum um lífið sem er að fjara út – lífið sem hann klúðraði, reynir að fara með Faðirvorið og bíður eftir hjúkrunarkonunni sem hann kann þó ekki við – einsemdin algerlega yfirþyrmandi, þá baksar hann við að hreyfa sig. Gengur örfá skref, en það verður honum nánast um megn. Leikmunir eru stafur, göngugrind, rúm, hjólastóll – allt tákn um vangetu til að hreyfa sig, elli, og kyrrstöðu. Líkaminn hefur misst nánast alla getu; sjónin er farin, hendurnar skjálfa.

Í lok verksins, þegar hann hefur komið frá sér Faðirvorinu á latínu, lognast hann út af. Senan er áþekk andláti Krists á krossinum, en lokaorðin ekki „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn“, heldur „Til komi þitt ríki.“ (55) Maðurinn beinir sjónum sínum til guðdómsins á dánarstundinni, en líkaminn, líkið verður eftir á sviðinu og   þvag rennur frá buxnaklaufinni.

Kjötkveðjuhátíð Gurnah

Annie Ernaux og Jon Fosse skrifa bæði knappan texta og takmarka sjónarhorn sitt og söguefni. Verkin eru 30-100 síður í íslenskri þýðingu. Abdulrazak Gurnah er alveg á hinum endanum á rófinu, ef svo má segja. Paradís er löng og litrík saga með ótal persónum, þjóðarbrotum, dýrum, tónlist, tungumálum, mat, hljóðum og myndum. Risavaxin kjötkveðjuhátíð andspænis algerri einangrun/einsemd mannsins í verki Fosse og hyldjúpri sjálfsskoðun Ernaux.

Pilturinn Yusuf er tákn fyrir hið fagra og góða sem verður óprúttnum að féþúfu. Í upphafi sögu býr hann með foreldrum sínum í smábæ í Tansaníu, en fer með Aziz „frænda“, auðugum kaupmanni, í ferð inn í landið. Yusuf áttar sig ekki á því strax, en kaupmaðurinn er hreint ekki frændi hans og ferðin engin skemmtiferð, heldur er hann nú orðinn vinnudýr Aziz og eign hans – settur upp í skuldir foreldra sinna.

Yusuf verður leiðsögumaður okkar lesendanna á leið sinni um brotakennda veröld.  „Það er tími til kominn að þú verðir að manni og sjáir hvernig heimurinn er“ (71) segir hinn sódómíski leiðangursstjóri við hann í upphafi ferðarinnar inn í land, en þar telja leiðangursmenn hið villta eiga heima, andspænis siðmenningunni við ströndina.

Í Paradís ægir öllu saman og tungumálið endurspeglar það. Gurnah skrifar á ensku, en persónurnar sletta á Swahili, arabísku, Hindí og fleiri málum. Í þýðingunni lætur Helga Soffía Einarsdóttir þetta halda sér og birtir orðskýringar í lok bókar, ásamt afar vönduðum eftirmála.

Margar kostulegar persónur verða á vegi Yusufs, sumar æði gróteskar, eins og Bakkus bílstjóri, sem tvinnar saman blótsyrði og talar fjálglega um geitariðla, tittlinga, píkur og rassgöt eða kjaftfori vélvirkinn og Indverjinn Kalasinga sem að mati múslimanna guðlastar útí eitt:  

Þú veist auðvitað ekkert um svona andleg málefni en við úr austrinu erum sérfróð. Þú ert bara vitlaus verslunarmaður með þína fimm-sinnum-kysstu-jörð og svelta-þig-í-hel-ramadan. Þú skilur ekki hugleiðslu eða það að hefja sig yfir efnisheiminn eða neitt í þá áttina. (134)

Gurnah bregður upp mynd af fjölmenningarlegu samfélagi Tansaníu fyrir daga evrópskrar nýlendustjórnar, þar sem verslun og samgangur ólíkra þjóðarbrota hafa staðið öldum saman áður en vestrænir landkönnuðir „uppgötvuðu“ Afríku, eins og segir í eftirmála. Kaupmennirnir, sem ýmislegt hafa séð og lifað og kalla ekki allt ömmu sína í viðskiptum, eru innilega hneykslaðir á Evrópumönnunum sem þá eru að hefja innreið sína í landið:

Hvert sem þeir fóru núna komust þeir að því að Evrópumennirnir höfðu verið þar á undan þeim og komið fyrir hermönnum og embættismönnum sem sögðu fólkinu að þeir væru komnir til að bjarga því frá óvinum þess sem sæktust aðeins eftir því að hneppa það í ánauð. Miðað við hvernig þeir töluðu var líkt og aldrei hefði verið nein önnur verslun. Kaupmennirnir töluðu um Evrópumennina í forundran, þeir voru agndofa yfir grimmd þeirra og vægðarleysi. Þeir leggja undir sig besta landið án þess að borga baun fyrir það, neyða fólk til að vinna fyrir sig með endalausum prettum, éta allt sem að kjafti kemur, sama hversu seigt eða ónýtt það er. Lyst þeirra er óseðjandi og án sóma, þeir eru eins og engisprettuplága. (96-97)

Talið berst oft að Evrópumönnunum og hvaða þjóðir þeirra séu skæðastar (Þjóðverjarnir þykja ansi hrikalegir), jafnvel eru sagðar af þeim flökkusögur sem gefa til kynna að Evrópumennirnir séu nánast ódrepandi kvikindi. Að ef einn þeirra deyi, þá geti annar blásið í hann lífsanda.

Yusuf er tólf ára þegar Aziz kaupmaður nemur hann á brott, en sagan gerist á nokkrum árum og hann er „kominn til manns“ þegar honum er sagt undir lokin að faðir hans sé látinn og móðirin flutt burt. Yusuf hefur öðlast mikilvægan þroska. Hann hefur lært „hvernig heimurinn er“, áttað sig á stöðu sinni í lífinu og því að frelsið stendur honum ekki til boða.

Ólíkt persónum Fosse og Ernaux, sem líta yfir heila ævi, að leiðarlokum, þá er Yusuf að byrja sína ævi. Eftir harkalegan lærdóminn í Paradís er það ekki dauðinn sem blasir við, heldur lífið.

Að renna vel

Nú kemur kaflinn þar sem sagt er að þýðingarnar „renni vel“ en ég hafi því miður ekki haft frumtextann til hliðsjónar og geti því ekki lagt frekara mat á þýðingarnar. Ég verð að viðurkenna að ég er sérlega ánægð með að stjörnuþýðandinn Helga Soffía Einarsdóttir var milliliður á milli mín og Abdulrazak Gurnah. Þýðing hennar er vönduð og orðskýringar og eftirmáli alger nauðsyn fyrir fólk sem lítið hefur kynnt sér eftirlendufræðin. Rut Ingólfsdóttir þýddi Unga manninn, en hún hefur skipað sér í framvarðasveit þýðenda gæðaverka úr frönsku hin síðari ár; hún þýddi m.a. La Place (Staðinn) líka eftir Annie Ernaux og tvær bækur eftir hina margverðlaunuðu Judith Perrignon. Konu þýddi Þórhildur Ólafsdóttir. Hún er doktor í frönskum bókmenntum, eldri en tvævetur í þýðingabransanum og skrifar af ríku innsæi fróðlegan eftirmála um Annie Ernaux og Konu. Það leynir sér svo ekki að þýðandi Slik var det Jons Fosse er skáld, Kristrún Guðmundsdóttir hefur skrifað níu ljóðabækur og skilur hversu mikilvægt það er að fara sparlega með orð.

Afstaðan og rödd Guðs

Það er ákveðin tilhneiging – jafnvel krafa -- í samtímanum að rithöfundar hafi skoðun á því sem er að gerast í heiminum og láti hana í ljósi, taki jafnvel afstöðu í siðferðilegum álitaefnum. Abdulrazak Gurnah kom til Bretlands sem flóttamaður frá Zanzibar árið 1968 og hefur sagt að þá hafi umræðan um flóttamenn og hælisleitendur ekki verið neitt lík því sem hún er nú. Gurnah þykir sýna Austur-Afríkumenn í alþjóðlegu samhengi – sýna fram á að þeir hafi alltaf verið hluti af síbreytilegum umheiminum. Hann er fræðimaður, ekki síður en rithöfundur og hans fræðigrein er eftirlendufræðin – sem byggja á víðtækri þekkingu á sögu og menningu Afríku.

Abdulrazak Gurnah og Annie Ernaux vilja koma áleiðis sögum sem þau óttast að verði þaggaðar ef þau standa ekki sína pligt. Jon Fosse viðurkennir ekki neitt ákveðið „erindi“ – segist bara hlusta og reyna að miðla því sem ekki er hægt að segja upphátt. „Það er bara í þögninni sem hægt er að heyra rödd Guðs,“ sagði Fosse í Nóbelsræðunni sinni í desember. „Eða kannski“ bætti hann við með blik í auga.
 

Þórunn Hrefna, mars 2024