Beint í efni

Allt kom það nær

Allt kom það nær
Höfundur
Þorsteinn frá Hamri
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Ljóðabók Þorsteins frá Hamri sem kom út nú fyrir jólin geymir 37 ljóð og skiptist í tvo hluta, „Vera manns–“ og „Litvörp logans...“ Samkvæmt ritmálaskrá er fyrsta dæmið um orðið ‚litvarp‘ að finna í ferðaþáttum Thors Vilhjálmssonar, Undir gervitungli (1958), sem er viðeigandi því í bók Þorsteins er ákaflega fínt minningarljóð um Thor sem nefnist „... Og stormar blésu“, þar sem í örfáum orðum er dregin upp dramatísk mynd af manni, skáldskap og söknuði allt í senn.

Veruna, tilveruna sem mörg ljóðanna hverfast um, er ekki auðvelt að festa niður, því hún er ekki í núinu, heldur einhvern veginn ávallt í vændum. Í ljóðinu „Fræ“ er þar að auki gefið í skyn að það sem áður var í vændum, ef svo má segja, þ.e. það sem ekki varð, sé líka partur af minningunni og þá tilverunni. Verðandin er sem sagt ekki stöðug, heldur háð árstíðum og sveiflast á milli fortíðar og framtíðar. En það sem vænst var virðist þó hafa nálgast, eins og má lesa út úr ljóðinu „Hvörf, sjónmál, hafsaugu“, en þar segir, einmitt í titilorðum bókarinnar sem koma úr því ljóði, „allt kom það nær“. En þessi óvissa sem þetta flakk á verunni hefur í för með sér, gerir það að verkum að erfitt er að vita hvernig hlutirnir verði í reynd, eins og fjallað er um í ljóðunum „Skúraskin“ og „Gatan, kvöldið, birtan“.

Vera okkar markast í þessari bók líka af hruninu, það má sjá vísanir hér og þar í einhvers konar ‚fyrir og eftir‘ hugsun, til dæmis í ljóðinu „Ljósin inni“, það sem talað er um hið „átfreka oflætishóf“ sem áður ríkti.Og hin raunverulega auðlegð hafði rykfallið á meðan, óskoðuð, eins og segir í samnefndu ljóði: „Bæru þeir kennsl // á svo eldfornt, aflóga glingur?“

Líkingar eru margar fengnar úr náttúru og veðri, en náttúrumyndum, sem lesandi heldur að séu einfaldar í fegurð sinni, er einatt grafið undan, eins og má sjá í ljóðinu „Snjór“ þar sem fegurð drifhvítrar veraldar hylur jörðina þar sem „mangarinn býður mannslíf og hryggð til sölu“. Skáldið er ávarpað í síðasta ljóði fyrri hlutans, skáldið sem hefur glætt eld og komið honum fyrir „í kvæðum“ sem „einhverjir // þreyja við skin hans“ og „skrafa sín í milli // um litvörp logans ...“ sem er einmitt titillinn á seinni hlutanum. Einnig er fjallað um bernskuminningu skáldsins í ljóðinu „Veraldarsaga, bernskumynd“, en þar eru rætur skáldsins fundnar í „gráleitum bókarheftum“ sem gestur á heimilinu dreifði um gólfið og ljóðmælandi segir að skáldið „beri þess nokkrar, næsta kynlegar menjar“.

Margoft er vitnað til upphafa, nýrrar byrjunar eða vors í ljóðunum. Vor sem birtist til dæmis þar sem þess er síst að vænta, í „gegnum síma...“ í ljóðinu „Árstíðirnar“ eða um miðjan vetur í ljóðinu „Sólskinsdagur“. En vor er ekki einungis hér tákn um nýtt upphaf, heldur getur það einnig borið með sér minningar úr fortíð eins og fram kemur í ljóðinu „Vísur á vordögum“. Framtíðin er spurð um hvað sé í vændum: mun vora? má vona? eins og í kvæðinu „Í verunni“:

Það vorar um síðir, vonandi. Moldin
bíður græðslu og góðsemi;
                                           tuddar
níddu svörðinn í svað!
                                 Mun jörðinni
duga sú björg sem berst með fuglum,
sólaryl, regni, samhug manna,
ljóðum og söng, vinarþeli og vindum?

Og síðasta ljóð bókarinnar „Eftir eld“ geymir hvatningarorð til lesenda að nota „langminnug orð“ til að skyggnast um: „Ráðumst nú með þeim // í rannsókn // á brunarústum og brennugjám,“. Í öskunni leynast nefnilega fjársjóðirnir, hin „margræðu jartein“ sem einmitt koma „úr sögum, sígilda jartein!“ og svo líka „undrið sjálft: // hið óbrunna, kvika hjarta.“

Í ljóðunum má því lesa bjartsýni, hugboð um upphaf, um vor – það er ekki allt glatað, heldur leynist með okkur líf, sérstaklega ef við hyggjum að fjársjóði fortíðar: orðum og sögum. Í bókinni má sjá sterkan heildarsvip, þræði sem teknir eru upp aftur og aftur og ljóðin kallast á við hvert annað og magna þannig upp áhrif sín. Ljóðin gætu að sjálfsögðu einnig staðið hvert eitt og sér: orðfar, tónn, hrynjandi, líkingar gera hvert og eitt að sjálfstæðu listaverki, en engu að síður er gaman að sjá merkingu þeirra víkka og andblæinn breytast í samhengi þessarar fínu bókar.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, janúar 2012