Beint í efni

Don Kíkóti

Don Kíkóti
Höfundur
Miguel de Cervantes
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2002
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Hermann Stefánsson

Gjarnan er sagt að með Kíkóta hafi nútímaskáldsagan fæðst. Hún fjallaði allavega fyrst um skáldskapinn sjálfan og ímyndunaraflið þarna. Allir vita um hvað hún er, um riddarann Don Kíkóta frá Mancha sem heldur af stað út í spænskar sveitir með fylgisveini sínum, Sansjó Pansa, til að gegna hlutverki riddara. Allir vita líka að Don Kíkóti er skopstæling á riddarasögum þessa tíma sem Kíkóti hefur lesið yfir sig af. En það voru ekki bara riddarasögur á kreiki heldur einnig sveitasögur og svo var píkareska sagan, skálkasagan svonefnda, komin fram. Sveitasælubókmenntir voru vinsælar og í formála segir þýðandi, Guðbergur Bergsson, bókina hæðast að þeim sem og riddarasögunum. Svo munu ítalskar nóvellur hafa haft áhrif á höfundinn.

Hver var höfundur Kíkóta? Miguel de Cervantes Saavedra fæddist í Alcalá de Henares á Spáni árið 1547. Hann lifði býsna merkilegu og ævintýralegu lífi sem eitthvert slangur er vitað um en margt þó allsekki, áhöld um hvað er logið og hvað satt; hann var einhentur, en furðu stór hluti genginna spænskra rithöfunda er einhentur. Í alvöru? Já, til dæmis Valle-Inclán. Sumir segja að Cervantes hafi byrjað ritun frægustu bókar sinnar í fangelsi, aðrir draga það í efa. Don Kíkóti kom út á árunum 1605-1615. Í tvennu lagi. Í apríl 1616 deyr Cervantes en þessi mánuður var afleitur fyrir bókmenntirnar því Shakespeare dó í vikunni á undan. Kíkóti er ekki bara sagan af þeim kumpánum, það eru ótal sögur inni í sögunni, ótalmargir útúrdúrar og hlykkir, sögur sem á vegi þeirra félaga verða á förum sínum, og einhverjum fræðimanni grautaði ég í sem vildi flokka þessar sögur strangt til ólíkra bókmenntategunda og taldi þá Cervantesi oft vera full alvara í sentimentalli sögum. Annar fræðimaður sagði að Kíkóti hefði fyrsta kastið verið lesinn sem skopstæling á riddarasögur, sem hún líka er, en síðan hefði fljótlega komið tímabil þar sem lesendur fóru að samsama sig firrum Kíkóta. Og þá fyrst verði hún að því mikla verki sem hún er. Annar til viðbótar sem oft er vitnaði í sagði: Allur prósaskáldskapur er tilbrigði við þemað úr Don Kíkóta. Fólk sem rannsakar metafiksjón endar gjarnan á því að fremur en að hún sé nýbreytni 20. aldar skáldsögunnar hafi hún byrjað með Kíkóta. Annars eru allir sammála um ágæti bókar Cervantesar, flestir um að hún sé með einhverjum hætti fyrsta nútímaskáldsagan en enginn er á sama máli um það í hverju nýbreytni hennar felist.

Er þýðingin góð? Mér finnst hún ansi góð, já, ég hef svosem ekki rannsakað það nákvæmlega en ég hnýstist í frumtextann hér og þar af forvitni minni til að sjá hvaða vanda væri verið að leysa. Lausnirnar eru oft ótrúlega snjallar, ferlega sjálfsagðar og augljósar. Það má læra líka af Guðbergi að láta ekki nákvæmnina hlaupa með sig í gönur, hann drepur ekki textann með oftrúnaði. Og að búa til stíl, snið, Guðbergur býr alltaf til stíl á textann á íslensku og heldur sig svo við hann. Þetta gerir hann líka hér, býr til ansi fínan stíl. Þýðingin á Kíkóta er auðvitað afrek. Þetta er í annað sinn sem Kíkóti kemur út á íslensku, fyrst kom bókin út fyrir mörgum árum í ægilega mörgum bindum en síðan endurskoðaði Guðbergur þýðingu sína og endurþýddi; fyrra bindi kom út í fyrra og varð metsölubók. Það síðara nú fyrir jól og fetaði í fótspor fyrra bindis. Árið 1998 kom út á Spáni útgáfa af Kíkóta sem átti loksins að vera sú rétta, loksins er Kíkóti komin út, sögðu menn, ritstjórinn heitir Francisco Rico, allar útgáfur hafa verið vitlausar hingað til. Guðbergur tekur líka mið af þessari útgáfu í þýðingu sinni. Er sú íslenska þá fræðileg útgáfa? Nei, þetta er ekki fræðileg útgáfa, það er engin þörf á fræðilegri útgáfu á Kíkóta á Íslandi. Neðanmálsgreinum er stillt í hóf.

En hvernig er bókin sjálf? Útgáfan er mjög glæsileg og þetta er eigulegur gripur, allavega langaði mig í hana, annars hefði ég ekki tekið að mér að tala um hana hér. Bindin tvö eru skreytt myndum eftir Gustave Doré sem er mjög þekktur franskur bókaskreytir frá nítjándu öld. Það eru líka ljóð í Kíkóta…Engum þóttu ljóðin góð og öllum þótti Cervantes vont skáld. Sumir vilja hnekkja þeirri skoðun en fyrir mitt leyti finnst mér ljóðin ekki beinlínis segja mér mikið, ekki heldur á íslensku. Má ég þá heldur fá Góngora. Cervantes var náttúrulega bara að fíflast með ljóðunum í Kíkóta. Þetta eru paródíur.

En hvort er betra fyrra bindið eða seinna? Það var svo merkilegt að eftir að fyrra bindi verksins kom út, "að einhver maður, Avellaneda, rýkur til og skrifar í fússi seinni hluta þess og kemur honum út árið 1514, áður en Cervantes lýkur sínum ári síðar," einsog segir í formála þýðanda. Semsé einhver falsaði síðara bindi áður en Cervantes lauk við sitt. Síðan gerðist það að kóngurinn í Kína skrifaði Cervantesi bréf á kínversku og bað hann um að skrifa seinni hlutann og lofaði að láta hann fá lektorsstöðu í Háskólanum í Kína ef hann gerði það. Eða svona lýsir Cervantes þessu í formála sínum að seinna bindinu. Sumir segja að síðara bindið sé betra, myndir upp úr Kíkóta renna svolítið út í sandinn, kannski er það einmitt vegna þess að síðari hlutinn er betri texti þótt sá fyrri sé með miklu af frægum senum. Margar góðar senur í seinna bindinu eru þannig að þær kvikmyndast ekki vel.

Afhverju ætti fólk að lesa Don Kíkóta? Fólk getur lesið Kíkóta af tveimur ástæðum: 1) Af snobbi. 2) Vegna þess að hún er svo skemmtileg. Það er gott að lesa bækur af snobbi. Þannig auðgar maður ekki aðeins sálarlíf sitt og bætir við sig víddum heldur öðlast maður þekkingu sem maður getur notað til dæmis til að dissa fólk… SVO ER AFTUR allsekki verra þegar bókin er bráðskemmtileg og fyndin einsog Don Kíkóti. Þannig má segja að maður stórgræði á öllu saman, bæði skemmtir maður sér við lesturinn og auðgar sálarlíf sitt. Kíkóti er málið.

Hermann Stefánsson, mars 2004