Beint í efni

Í frostinu

Í frostinu
Höfundur
Jón Atli Jónasson
Útgefandi
JPV
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Það hefur varla farið framhjá þeim sem eitthvað fylgist með leikhúslífi á Íslandi, að Jón Atli Jónasson hefur skipað sér á bekk sem eitt helsta leikskáld landsins. Á dögunum sendi hann frá sér sitt annað prósaverk, stutta skáldsögu sem ber nafnið Í frostinu en árið 2001 kom út smásagnasafnið Brotinn taktur. Í frostinu gerist um hávetur í Reykjavík og segir frá Drífu, einstæðri móður með eitt barn. Hún vinnur á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem ber hið gildishlaðna nafn Kvöldroðinn. Drífa þarf að hafa fyrir því að láta enda ná saman, fyrrverandi sambýlismaður hennar hefur skilið hana og son þeirra eftir í skuldasúpu og vitjar þeirra aðeins með símtölum um miðjar nætur öðru hvoru. Drífa berst við að forða íbúð þeirra mæðgina frá því að sökkva í skuldafenið um leið og hún reynir að skapa þeim sæmilegt líf, síþreytt og ósofin af áhyggjum. Sjálf er Drífa barn einstæðrar móður, drykkfelldrar fyrrverandi fegurðardrottningar sem lifir í dofnandi ljóma fornrar frægðar. Sagan er sögð í fyrstupersónufrásögn Drífu. Stíllinn er raunsæislegur, knappur, hraður og á köflum í ætt við titilinn – kaldur.

Í frostinu gefur ekki sérlega fallega mynd af íslensku samfélagi. Þessi mynd er þrátt fyrir það jafn raunverulegur hluti þessa samfélags og tugmilljóna kaupaukasamningar manna sem klæðast jakkafötum sem kosta á við venjuleg mánaðarlaun. Glefsur úr þeim glamúrheimi koma reyndar við sögu í verkinu, birtast sem bakgrunnur eða andstæða við erfiðar aðstæður Drífu og skjólstæðinga hennar á vistheimilinu. Vistheimilið er einmitt byggt í fínu hverfi þar sem nágrönnunum þótti það ekki passa: „Á sínum tíma var mikil andstaða við þessa tíuhæða byggingu. Hún þótti ekki passa inn í þetta rólega hverfi þar sem landnemar höfðu stungið út grunn og reist heimili sín ... Í takt við efnahaginn hafa þau risið hægt en örugglega síðasta áratuginn og flest þeirra eru fullbyggð en dormuðu samt á hinu eilífa nostursskeiði sem aldrei tekur enda.” (32-33).

Önnur slík glefsa kemur fram á bílaplaninu við leikskólann: „Hvítur Jagúar rennir þá inn í stæðið við hliðina. Kona á svipuðum aldri og ég stígur út úr bílnum. Hún lyftir litlum strák út úr Jagúarnum og setur hann varlega niður á gangstéttina. Hann heypur af stað í átt að leikskólanum. Konan eltir. Skilur Jagúarinn eftir í gangi. Malandi eins og feitann kött [...] Konan hleypur á háum stígvélum á eftir drengnum sem berst við að opna leikskólahliðið. Sér ekkert nema hann. Gefur sér góðan tíma til að útskýra fyrir honum hvernig hliðið virkar. Hefur allan þann tíma sem hún þarf. Þannig er það. Sækir hann alltaf of snemma.“ (30-31).

Þarna birtast eiginlega tveir heimar en maður veit ekki alveg hvort Drífa beinlínis öfundi konuna á Jagúarnum. Öðrum þræði er þetta fjölskyldusaga því það má greina þráð frá móður Drífu til sonar hennar. Drífa virðist hafa skapað bil á milli sín og móður sinnar til að bregðast við erfiðri æsku: „Mamma bjó með nokkrum mönnum. Var með mörgum mönnum. Það fór reyndar aldrei í taugarnar á mér. Það var algjörlega hennar mál.“ (82) Eitthvað svipað virðist eiga sér stað í sambandi Drífu sjálfrar við son sinn: „Hann brosir og ég virði hann fyrir mér. Horfi djúpt í augu hans og finnst eins og ég eigi ekkert í þessum dreng. Hann á sig sjálfur. Og það finnst mér bæði dálítið flott en líka dálítið sorglegt.“ (79). Eða er þetta bara upplifun Drífu á syni sínum, þar sem hún speglar sjálfa sig í honum?

Þótt verkið sé ekki stórt í sniðum tekst Jóni Atla að gera efni þess nokkuð margslungið. Það má til dæmis nefna að vandamál þriðja heimsins eru dregin fram á dálítið kaldhæðinn hátt. Í partíi þar sem gamli hjúkrunarfræðibekkur Drífu kemur saman lýsir ein af bekkjarsystrum Drífu veru sinni í Afríku við hjálparstörf: „„Eymdin þarna er svo svakaleg“, segir Fanney á útsoginu. „En þetta var samt þess virði,“ segir hún dálítið dularfull á svipinn. „Þroskandi.“ [...] „Sko við áttum að vera þarna í sex mánuði en við urðum að fara eftir þrjá. Af því að skæruliðarnir voru að skipuleggja innrás í þorpið. Það hefði sko ekki verið gaman að lenda í því. Grimmdin þarna er svo rosaleg.“ Það slær þögn á partíið. En bara í nokkrar sekúndur. Sara stendur við veisluborðið og er að fylla á snakkið. Hún snýr sér snöggt við og æðir að græjunum og hækkar vel. Destiny’s Child sjá um að fleyta paríinu yfir þessa smávægilegu hraðahindrun.“ (94-95)

Í fáum orðum er dregin upp örlítil mynd af sjálfhverfu viðhorfi vesturlanda. Viðhorfi sem einkennist af okkur og þeim og snýst meira um hvað það sé mikils virði og þroskandi fyrir okkur að hjálpa þeim. Og svo þegar það er komið á hreint má bara hækka í græjunum og háma í sig snakk.

Það er stígandi í frásögninni, þótt hann fari reyndar rólega af stað, og hún er vel uppbyggð. Einhver spenna byggist smám saman upp og stígandin endar á örvæntingarfullu augnabliki þar sem barátta Drífu gæti öll farið í vaskinn. Eins og við er að búast af leikskáldi tekst Jóni Atla sérlega vel að skrifa góð samtöl. Þau fljóta vel og tungumálið er eðlilegt og trúverðugt. Hið sama má segja um fyrstu persónu frásögn Drífu sem er einskonar eintal hennar. Á það er lesandinn minntur með einstaka „æ fokkitt“ sem hún segir við sjálfa sig þegar eitthvað fer úrskeiðis. Kaldhæðinn húmor Drífu er skemmtilegur og kryddar söguna, til dæmis þegar hún vísar í íslenska dægurmenningu: „Þetta er íslenskt kántrí. Ekkert töff við það. Enginn Johnny Cash eða neitt. Bara fráskilin að vestan og til í hvað sem er.“ (70) Það er töffarablær yfir rödd Drífu og lítið um tilfinningasemi eða barlóm, jafnvel þótt viðmælandinn sé hún sjálf. Töffarablærinn er einhverskonar leið hennar til að brynja sig, með „uppglenntum augum og aldeilis ósýnilegu fokkjúmerki“ (33) eins og þeim sem hún gefur nágrönnum Kvöldroðans á hverjum morgni. Knappur og harður stíll sögunnar hæfir efni hennar vel. Bæði til að lýsa kaldranalegu hugarástandi Drífu sem og ytri aðstæðum hennar. Þessi stíll gengur vel upp innan hins knappa forms stuttrar skáldsögu en væri e.t.v. full eintóna í lengra verki.

Að lokum er vert að geta þess að bókin kemur út í ódýrri kiljuútgáfu sem er alltof sjaldgæft með fyrstu útgáfu hér á landi og mætti vera mun algengara. Því bækur eiga að snúast um innihald, ekki umgjörð.

Ingi Björn Guðnason, nóvember 2005