Beint í efni

Kafbátakórinn

Kafbátakórinn
Höfundur
Steinunn G. Helgadóttir
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2011
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það hefur borið nokkuð á því að myndlistamenn leggi fyrir sig skrif. Í sumum tilfellum hafa þeir jafnvel að mestu horfið frá myndlistinni og snúið sér að ritlistinni, enda má vel halda því fram að þessi tvö listform séu ekki eins og ólík og ætla mætti í fyrstu. Undanfarið hafa textatengd myndverk einnig notið mikilla vinsælda og er þar skemmst að minnast Birgis Andréssonar. Það má vel skoða þetta í ljósi þess að almennar markalínur, til dæmis milli bókmenntagreina - ljóða og prósa, skáldskapar og æviskrifa - hafa verið að losna, eða voru jafnvel aldrei eins skýrar og talið var. Sem kemur þó ekki í veg fyrir að fólk skrifi ljóð og skáldsögur, ævisögur og prósa.

Kafbátakór Steinunnar G. Helgadóttur er sérlega skemmtilegt dæmi um hvað flakk milli listforma getur gefið af sér frjóa og ánægjulega afurð, en ljóðabókin er með því skemmtilegra sem á fjörur mínar hefur rekið undanfarið og er þar mikið sagt, því árið í fyrra var sérlega gjöfult á góð ljóð. Þó er myndlistin ekkert endilega áberandi í ljóðunum - ljóðið með sinni áherslu á myndauðgi er almennt ekki svo óskylt myndlistinni, svona þegar nánar er að gáð. Hinsvegar er ekki úr vegi að hugsa sér að skynjun listakonunnar, sem hefur meðal annars sérhæft sig í ljósmyndum og innsetningum, gefi henni nýja sýn á ýmis kunnugleg þemu ljóðlistarinnar.

Titilljóðið, „Kafbátakórinn”, er til dæmis ákaflega fallegt, en þar er því lýst hvernig kafbátarnir koma uppúr undurdjúpunum á kvöldin og leika sér saman:

Á kvöldin
koma þeir
upp, einn
af öðrum,
úr þykku
grænu myrkrinu.
Veltast, leika sér,

Samlíkingin við hvali er augljós, og fyrst í stað mætti ímynda sér að þetta séu hvalir, þar til í næstu línum:

snertast
stál við stál
og syngja.

Því þó þeir séu ekki hvalir þá syngja þeir og:

Raddirnar
eru marglitir skuggar.

Annar samsláttur tækni og náttúru, eða hins ólífræna og hins lífræna, er í ljóðinu „Kyrrð”, en þar „svífur / albatross / með kveikjara og / plasttappa í / maganum” yfir það sem líklegast er skip, en því er lýst þannig að „járnið / umvefur / lungu og auga / ástúðlega.” Kannski annar kafbátur? Sjónpípur eru víðar nefndar og hafið kemur einnig oftar við sögu, meðal annars í ljóði um litlu hafmeyjuna sem nefnist „Ævintýrahafið”.

Endurtekin minni skapa áhugaverða hrynjandi í gegnum alla bókina, en fyrir utan sjónpípurnar og hafið koma steinar víða við sögu, jafnvel fljúgandi, eins og í „Ættjarðir”, en þar verður ljóðmælandi að gista, án þess að vita almennilega hvar hún er eða hvert hún var að fara: „Það verður ekkert flogið í nótt. En í / myrkrinu svífur / hugurinn burt. / Mávar garga. / Þeir eru / sjálfstæðir hungraðir fljúgandi / steinar.”

Svo eru gróteskari ljóð eins og þegar „framandi / hold / umbreytist í litla iðandi orma / sem hakkavélin þrýstir / fram í birtuna”. Ljóðmælandi hugsar fallega um þann sem síðar meir á eftir að smakka kjötbollurnar, kryddaðar framandi jurtum. Ljóðið heitir „Lyst” sem varla er tilviljun. Annað skemmtilega líkamlegt ljóð heitir „Ást” (sem skyldi ekki rugla saman við „Ástarsögu” framar í bókinni, kómíska smámynd af ástum bófa og löggu). Það mætti vel taka sem leiðarvísi fyrir það hvað gera skuli við þær skemmtilegu hugmyndir og myndir sem kvikna við lestur ljóða Steinunnar:

Í dögun
læsir hún tönnunum
varlega
í hlýja hnakka
svefndrukkinna drauma
og leggur þá
einn af öðrum í 
veskið sitt.

Í rökkrinu
tekur hún draumana
baðar þá
og býr um.
Breiðir yfir 
útsaumaða hvíta
sæng og koddinn ilmar
af útiveru.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2011