Beint í efni

Síðasti musterisriddarinn

Síðasti musterisriddarinn
Höfundur
Raymond Khoury
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Síðan Da-Vinci-lykil-æðið hófst hefur önnur hvor bók verið ásökuð um að vera eftirherma, meira að segja afgreiddu margir Konungsbók Arnaldar Indriðasonar sem slíka. Þó voru margir sem bentu á að Dan Brown hefði nú ekki beint fundið neitt upp í sinni spennusögu um leyndardóma fyrri alda og urðu málaferli út úr því, auk þess sem lítt þekktir höfundar, eins og hinn norski Tom Egeland, náðu skyndilega mikilli útbreyðslu á þeim forsendum að vera fyrirmynd Lykilsins.

Fjaðrafok af þessu tagi kemur þó ekki í veg fyrir að fleiri höfundar sjái sér hag í því að dæla út eftirhermum, sem síðan eru eins og gengur, mis vel heppnaðar. Síðasti musterisriddarinn eftir hin líbansk-bandaríska Raymond Khoury er til að mynda gott dæmi um illa heppnaða eftirhermu, reyndar svo að ég var hálf glaseyg af undrun eftir lesturinn.

Sagan gengur út á mikinn leyndardóm sem musterisriddararnir (sem eru afar vinsælt tema í sögulegum reyfurum af þessu tagi, því saga þeirra virðist beinlínis böðuð ljóma leyndardómsins) hafa geymt um aldir. Og leyndardómurinn hefur að gera með ættboga Jesú. Eftir dramatískt rán í Metropolitan safninu í New York fær ungur fornleifafræðingur, hin einstæða móðir Tess, sérstakan áhuga á einum gripnum sem var stolið, en hann virðist vera einskonar dulmálsvél. Hún tengir vélina musterisriddurunum, en ekki er tekið mikið mark á henni, utan að hinn ungi alríkislögreglumaður Reilly er tilbúinn til að hlusta, en það er nú aðallega vegna þess að hann er skotinn í henni. Hinn dularfulli fulltrúi Vatikansins, De Angelis, er reyndar einnig áhugasamur, en af öðrum og vafasamari ástæðum. Tess hefur rétt fyrir sér og fornleifafræðanef hennar leiðir hana í ýmsar hættur, með Reilly í eftirdragi.

Hér höfum við allar klisjurnar, það er fornleifafræðingur með sérþekkingu á leyndardómum fortíðarinnar sem leiðir plottið (og það að hún er að þessu sinni kvenkyns nægir því miður ekki til að bæta úr þessari flatneskjulegu skák), lesandinn fær rosalega mikið af (klaufalega framreiddum) fróðleik um musterisriddarana og stöðu kristninnar, sérstaklega nú á tímum hryðjuverka (sem fólk annarrar trúar stendur fyrir, og nei, ég er ekki að tala um búddisma), og svo fylgir væn sletta af rómantík milli hinnar smávöxnu og ljóshærðu Tess, sem virkar svo viðkvæm en er í raun harður nagli inni við beinið, og hins töffaralega Reilly sem er í raun allur mjúkur að innan. Í ofanálag hlýtur hinn heppni lesandi góða lexíu í bandarískum kristilegum gildum sem meðal annars eru forsenda þess hversu mikilvægt er að verja þjóðina gegn hinni skelfilegu ógn hryðjuverka. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að Vatikanið sé sýnt sem varhugaverð stofnun, enda virðist prestþjálfun aðallega snúast um leynimorð um þessar mundir. Eftir að hafa gengið í gegnum þetta ákveður höfundur svo að bíta höfuðið af skömminni með því að binda endi á málið með þeim hætti að lesandi er skilinn eftir gapandi og með gæsahúð: ekki af gleði og undrun, heldur skjálfta yfir að slík vonska skuli fyrirfinnast í hinu göfuga fyrirbæri bók.

Í umsögnum erlendra gagnrýnenda er mikið talað um hvað þessi endir hafi verið óvæntur og snúinn, en eins og bent hefur verið á í öðrum skrifum um bókina sér vanur lesandi niðurstöðuna (reyndar báðar, því endirinn er tvöfaldur í roðinu) nálgast í mílufjarlægð, og óttast.

Æææ, þetta er orðið voðalega svartnættislegt hjá mér og ég ætla að bæta fyrir með því að benda á að þeir kaflar sem gerast á tímum musterisriddaranna eru ljósið í myrkrinu og má þar sjá glitta í slarkfæran sögulegan reyfara. Ekki má heldur gleyma lýsingunni á sjálfu ráninu, sem er dramatísk og áhrifamikil og lofaði góðu og dulmálsvélin gladdi mig einnig (minnti mig á hinn dásamlega doðrant Neil Stephensons um dulmálsfræðin), þó ég ætti reyndar erfitt með að trúa að hún væri fremri nútíma tölvum í dulkóðun.

Einnig rifjaðist upp fyrir mér hin ánægjulega ruglingslega musterisriddara saga Umberto Eco, Foucault’s Pendulum (1988), sem er full ástæða til að mæla með.

Ekki vil ég heldur fordæma eftirhermur, þær sem slíkar eru ekki vandamálið og ekki veitir af að herma eftir Da Vinci lyklinum, þó ekki væri nema í góðri von um að gera betur. Leyndardómar sögunnar sem plott í reyfurum er heldur ekkert sem Brown fann upp, eins og áður er sagt, enda snýst afþreyingin meira eða minna um það að endurtaka, máli skiptir bara í hvaða form endurtekningin er færð.

Og það er einmitt vandamál Khoury, hann hefur ekkert nýtt né skemmtilegt fram að færa í þessari formúlusögu sinni. Þýðingin er að auki óþarflega hnúskótt og hefði að ósekju mátt yfirfara hana betur.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2007