Beint í efni

Það sem ekki drepur mann

Það sem ekki drepur mann
Höfundur
David Lagercrantz
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Bók Davíðs Lagercrantz, Það sem ekki drepur mann, er kynnt sem fjórða bókin úr smiðju Stiegs Larsson, en er það þó ekki, þetta er einfaldlega nýtt verk sem byggir á persónum og áhersluatriðum úr hinni frægu trílógíu sænska blaðamannsins sem lést langt um aldur fram. Það er sannarlega ekki öfundsvert hlutverk að skrifa bók inn í þessa seríu, enda margt sem gengið hefur á. Annarsvegar nutu glæpasögur Larssons fádæma vinsælda og nokkuð meiri virðingar en almennt gerist og gengur með verk af þessu tagi. Það út af fyrir sig gerir eftirfylgninga ekki auðvelta, jafnvel þó um sama höfund væri að ræða. Hinsvegar spruttu miklar fjölskyldudeilur upp í kjölfar dauða Larssons, svo hatrammar og skrautlegar að þær eru í raun efni í heila bók. Það er inn í þessi átök um höfundarrétt sem fjórða bókin er skrifuð og móttökurnar hljóta að markast eitthvað af því. Væntingarnar eru því miklar og margvíslegar.

Bókin gerist nokkru eftir atburði þríleiksins og ýmislegt hefur breyst og annað ekki. Millennium, tímarit Mikaels Blomkvists, berst enn í bökkum, en átök í Vangers-fjölskyldunni hafa gert það að verkum að fjárhagslegur grunnur er ekki lengur tryggur. Hluti eignarhaldsins hefur verið seldur stórri fjölmiðlasamsteypu. Inn í þetta blandast svo umræða um stöðu fjölmiðla, hvarf rannsóknarblaðamennsku og andstæðingar Blomkvists halda því fram að hann sé búinn að vera, vinnubrögð hans og hugsjónir séu úrelt fyrirbæri og unga kynslóðin viti ekkert hver hann er. Stjörnublaðamaðurinn er með öðrum orðum í nokkurri kreppu og frekar týndur í byrjun bókar. Og svo saknar hann Lisbeth Salander sem hefur ekkert samband haft við hann.

En þá dregur til tíðinda – eins og búast mátti við. Ungur maður, tölvuhakkari, vill koma Mikael í samband við gervigreindarsérfræðinginn Frans Balder, en sá hefur þróað tækni sem síðan var stolið af honum og seld samkeppnisaðila. Mikael er tregur til, en atvik haga því svo að Balder hringir í Blomkvist og óskar eftir viðtali. Þegar Mikael mætir á staðinn lendir hann í æsingslegri atburðarás, einhver hefur brotist inn hjá Balder og myrt hann og einhverfur sonur hans er vitni að öllu saman.

Þessi kafli minnir nokkuð á takta Larssons, Balder óttast um öryggi sitt og það gera fleiri. Fyrir utan öryggiskerfi hefur hann því tvo lögreglumenn á vakt, en þeir reynast hinir mestu trúðar. Innbrotsmaðurinn er hinsvegar gallharður drápari, sem þó treystir sér ekki til að myrða barnið. Inn í málið blandast svo stjúpi sonarins, drykkjusvoli og ofbeldismaður. Það er því heilmikill sirkus í kringum þetta alltsaman og lofar bara nokkuð góðu.

Og vissulega er margt vel gert í þessari sögu um tölvuhakkara, iðnaðarnjósnir, spillingu og sérgáfu einhverfra barna, að ekki sé minnst á beinagrindur í skápum Lisbeth Salander. Hér er fjallað um hinn rafræna nútíma gervigreindar og sívaxandi tölvunotkunar, þar sem eftirlit með borgurum verður sífellt auðveldara jafnframt því að vald tölvunnar (og þeirra sem hafa tölvutæknina á valdi sínu) vex stöðugt. Allt í kring er svo veldi kapítalismans, sérhagsmuna og peningagræðgi. Þetta eru mikilvæg málefni í samtímanum, sem oft vilja gleymast í hverdsagslegri lífs- og launabaráttu.

Þó fannst mér eitthvað vanta, einhvern drifkraft sem einkenndi skrif Larssons. Það sem gerði bækur hans svo áhrifamiklar var að lesandi skynjaði svo vel hversu mikið hann brann fyrir viðfangsefninu og réttlætinu. Annað einkenni bókanna er sú hlýja sem hann sýnir persónum sínum og smitar út til lesenda, hlýjan gagnvart Lisbeth sérstaklega en einnig í garð hins meingallaða Mikaels Blomkvists, sem er alltaf einskonar leiksoppur aðstæðna, maður sem virðist ófær um að ná taki á eigin tilveru.

Lagercrantz gerir hvað hann getur til að halda í hefðirnar, karlmennirnir sem koma við sögu eru iðulega spilltir eiginhagsmunaseggir eða ofbeldisfullir, nema hvorttveggja sé. Konurnar eru hinsvegar úrræðagóðar og fagrar – kannski einum of fagrar stundum. Allt var þetta þó á einhvern hátt of átakalítið í samanburði við fyrri bækurnar, sem óhjákvæmilegt er að hafa í huga við lesturinn.

Ekkert af þessu kom þó í veg fyrir að ég gleypti í mig bókina. Lisbeth Salander er einfaldlega ein áhugaverðasta persóna skáldskapar síðari tíma og eins og fjölmargir aðrir lesendur get ég ekki annað en fagnað því að fá að lesa meira um hana. Og þrátt fyrir að ná ekki þeim krafti sem fyrri bækurnar geymdu þá leiddist mér aldrei lesturinn. Það gladdi mig meira að segja sérstaklega að hér er Lisbeth gerð að myndasögunördi og fram kemur að hakkaranafn hennar, WASP, er sótt í eina af örfáum kvenhetjum Avengers-teymisins. Hér má sjá ummerki þess að Lagercrantz er að færa söguna meira inn í nútímann – og höfða til bandarískra lesenda sem hafa hingað til verið ansi hræddir við hina sérstæðu Salander.

Þýðing Höllu Kjartansdóttur sýndist mér ágæt, þó greinilega hefðu verið hafðar hraðar hendur á, eins og kemur fram í ansi mörgum prentvillum. Hér hefði einn prófarkalestur til komið sér vel.

úlfhildur dagsdóttir, september 2015