Beint í efni

Útlaginn

Útlaginn
Höfundur
Jón Gnarr
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Útlaginn eftir Jón Gnarr í samvinnu við Hrefnu Lind Heimisdóttur er þriðja verkið sem Jón sendir frá sér í röð sjálfsævisögulegra verka og er því framhald af Indjánanum og Sjóræningjanum sem notið hafa mikilla vinsælda og verið þýddar á  þó nokkur tungumál. Hér eru það unglingsárin sem eru undir og bókin er sú lengsta í flokknum, enda liggur sögumanni ýmislegt á hjarta. Fyrri hlutinn fjallar einkum um dvöl hans á Núpi í Dýrafirði, þeim sögufræga heimavistarskóla sem fjölmargir svokallaðir ‚vandræðaunglingar‘ úr bænum voru sendir í og margar sögur gengu um á sínum tíma. Síðari hlutinn segir frá árunum sem fylgja á eftir, þar sem hann reynir fyrir sér í ýmiss konar verkamannavinnu og kannski ekki síður í atvinnuleysi, sem honum finnst nú fara sér best.

Fyrri tvær bækurnar báru undirtitilinn skálduð ævisaga, en það gerir þessi ekki. Ekki hafa fengist nein ákveðin svör frá höfundi um það hvernig á því stendur og ef til vill hefði verið full ástæða til að halda í þann undirtitil af viðbrögðunum að dæma. En sem frægt er hafa fyrrverandi skólafélagar á Núpi og fleiri mótmælt ýmsu sem fram kemur í frásögninni. Þótt Jón hafi lagt áherslu víða í viðtölum á að hann sé fyrst og fremst rithöfundur að skrifa bók, þá er kynningin og umfjöllunin um hana einatt bundinn við að hér segi hann frá uppvexti sínum og verður því lesháttur auðvitað annar en ef um skáldsögu væri að ræða.

Í verkunum þremur eru uppvaxtarsaga, barnæska og unglingsár skoðuð í baksýnisspeglinum og, eins og oft er, undir ákveðnum formerkjum. Rauði þráðurinn er hvernig sögumaður verður að einhvers konar úrkasti, utangátta í skóla, einangraður frá fjölskyldu og jafnöldrum. Lýsingarnar af atburðum, útlegð, einsemd, þunglyndi og vonleysi eru ekkert grín, þótt margar séu engu að síður bráðfyndnar. Sambandsleysi, djúpur sjálfsefi, einelti og vanlíðan eru gegnumgangandi í öllum verkunum, en ná einhvers konar hápunkti, eða ættum við að segja lágmarki, í Útlaganum. En hann finnur líka svör og þá er það fyrst og fremst pönkið og anarkisminn sem honum sýnist varða leiðina út (eða heim til síns sjálfs).

Frásögnin af atburðum er þó fjörleg, litrík og grótesk. Það ætti varla að koma lesendum á óvart sem þekkja til fyrri verka Jóns, þarna má sjá fjölmargt sameiginlegt með ýmsum sketsum Fóstbræðra og ýmis persónueinkenni og sérkennileg, klaufaleg og vandræðaleg samskipti sem einkenna ‚Vakta‘-þættina. Þá má líka sjá í verkinu sígild hryllingssagnaminni eins og einangraða staðinn, umkringdan fjöllum og snjó, þar sem allt getur gerst, svo helst minnir á The Shining eftir Stephen King eða ámóta sögur. Að lesa verkið sem heimild um sögulegar staðreyndir er því ekki endilega gagnlegt, en þó er margt í textanum og kynningunni sem ýtir undir slíkt. Textinn slær tón einlægni, sem er til þess fallinn að fá lesandann á sitt band, en sá tónn kallast einnig á við frásagnargleði, allt að því pínlega sjálfsafhjúpun og alvöruþrungna pælingu um unglinginn sem útlaga.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, janúar 2016.