Beint í efni

Auður Ava Ólafsdóttir

Æviágrip

Auður Ava Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1958. Hún var lektor í listfræði við Háskóla Íslands 2003-2018. Hún hefur einnig kennt listfræði og listasögu við Leiklistarskóla Íslands og var um tíma forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Auður hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsum fjölmiðlum.

Fyrsta skáldverk Auðar var skáldsagan Upphækkuð jörð sem kom út hjá Máli og menningu árið 1998. Síðan hefur hún skrifað bæði skáldsögur, leikrit og ljóð.

Auður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar. Rigning í nóvember hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2004.  Skáldsagan Afleggjarinn er margverðlaunuð bók, meðal annars hlaut hún Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2008, Fjöruverðlaunin sama ár og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2009. Sagan vakti mikla athygli í Frakklandi þegar hún kom þar út í þýðingu Catherine Eyjólfsson sem Rosa Candida árið 2010, og einnig var franska þýðingin verðlaunuð í Quebec í Kanada vorið 2011. Auður hlaut bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana fyrir skáldsöguna Ör 2016 sem og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018. Hún hefur jafnframt tvívegis verið tilnefnd til þeirra; fyrst fyrir skáldsöguna Undantekningin: (de arte poetica) og svo Ungfrú Ísland 2018 en fyrir þá bók hlaut hún Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki skáldsagna.

Haustið 2019 hlaut Auður frönsku Médici-verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland í flokki erlendra bóka. Bókin kom út í Frakklandi það haust í þýðingu Erics Boury, sem Miss Islande. Verðlaunin eru veitt bæði frönskum og þýddum skáldsögum.