Beint í efni

Björn Th. Björnsson

Æviágrip

Björn Th. (Theodor) Björnsson fæddist í Reykjavík 3. september 1922. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og stundaði síðan nám í listasögu við Edinborgarháskóla frá 1943 til 1944, Lundúnaháskóla frá 1944 til 1946 og Kaupmannahafnarháskóla frá 1946 til 1949.

Björn starfaði sem rithöfundur, kennari og listfræðingur um árabil og eftir hann liggur fjöldi rita á sviði listasögu, auk skáldsagna og ritgerðasafns. Hann kenndi listasögu við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Kennaraháskólann og Háskóla Íslands. Björn var fulltrúi í útvarpsráði og undirbúningsnefnd um stofnun íslensks sjónvarps frá 1953-1968, og fulltrúi í Menntamálaráði Íslands frá 1968-1974. Hann var formaður og varaformaður Rithöfundasambands Íslands á árunum 1958-1964, sat í ritstjórn tímaritsins Birtings 1958-1963 og var forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands frá stofnun þess árið 1980 þar til hann lét af störfum árið 1997. Björn skrifaði einnig fjölda greina í innlend og erlend tímarit og annaðist þáttagerð um menningu og sögu fyrir útvarp og sjónvarp.

Fyrsta skáldsaga Björns var Virkisvetur og hlaut hún fyrstu verðlaun í skáldsögusamkeppni Menntamálaráðs árið 1959. Sögulegar skáldsögur Björns hafa notið mikilla vinsælda og listasögurit hans um íslenska og erlenda myndlist eru einnig mikið lesin. Skáldsögur eftir hann hafa verið þýddar á dönsku.

Björn Th. Björnsson lést í Reykjavík 25. ágúst 2007.