Beint í efni

Guðjón Sveinsson

Æviágrip

Guðjón Sveinsson er fæddur að Þverhamri í Breiðdal, S-Múlasýslu 25. maí 1937. Guðjón lauk landsprófi frá Alþýðuskólanum á Eiðum 1955 og Hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1961. Hann fékkst við ýmis störf í gegnum tíðina, starfaði sem sjómaður, stýrimaður, kennari, afgreiðslumaður, skrifstofumaður, stundaði búskap, var virkur í trúnaðar- og félagsstörfum og bauð sig tvívegis fram í þingkosningum. Hann gegndi formannsstöðu hjá Ungmennafélaginu Hrafnkeli Freysgoða um sex ára skeið (1960-1966) og Verkalýðsfélagi Breiðdæla frá 1963-1975. Hann sat einnig í hreppsnefnd Breiðdalshrepps frá 1970 í um 20 ár, þar af oddviti í 8 ár. Hann var í framboði fyrir Alþýðubandalagið í Austurlandskjördæmi í þingkosningum 1974 og 1978, sat í stjórn Hraðfrystihúss Breiðdælinga hf. um nokkurra ára skeið frá 1975 og gegndi einnig stöðu stjórnarformanns 1975- 1976. Hann sat í bókasafnsnefnd Breiðdalshrepps frá 1970 og átti sæti í stjórn Skógræktarfélags Breiðdæla frá 1987.

Guðjón skrifaði einkum bækur fyrir börn og unglinga en orti einnig ljóð, skrifaði ýmsar ritgerðir og lét að sér kveða í þjóðmálaumræðunni með skrifum í blöð og tímarit. Ljóð hans og smásögur hafa einnig birst á þeim vettvangi. Fyrsta barna- og unglingabók Guðjóns, Njósnir að næturþeli, kom út 1967. Hann hlaut fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Félags íslenskra móðurmálskennara fyrir söguna Morgundögg árið 1981.

Guðjón Sveinsson lést árið 2018.