Beint í efni

Gunnar Hersveinn

Æviágrip

Gunnar Hersveinn (Sigursteinsson) er fæddur í Reykjavík 28. mars 1960. Hann ólst upp í Voga- og Heimahverfinu. Hann lauk B.A. prófi í heimspeki og sálfræði 1986, blaðamennskunámi 1995 og hefur stundað meistaranám í kynjafræði við Háskóla Íslands.

Gunnar Hersveinn hefur gefið út fjórar ljóðabækur, skrifað leikrit og nokkrar bækur almenns eðlis og hefur JPV útgáfa meðal annars gefið út bækur hans Gæfuspor – gildin í lífinu og Orðspor – gildin i samfélaginu. Gunnar hefur með ritstörfum m.a. verið blaðamaður á Morgunblaðinu og kennari, til að mynda í framhaldsskólum og Listaháskóla Íslands.

Gunnar Hersveinn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir skrif sín um samfélagsmál, meðal annars Ljósberann 2004 fyrir greinar um uppeldismál, friðarmenningu, menntun og siðfræði, tilnefningu til Blaðamannaverðlauna 2004 fyrir skrif um mannlíf á sviði jafnréttis-, uppeldis- og menntamála og Fjölísviðurkenningu Rithöfundasambandsins 2010 fyrir bækur sem hafa sett umtalsvert mark á hérlenda þjóðfélagsumræðu.