Beint í efni

Ólafur Jóhann Ólafsson

Æviágrip

Ólafur Jóhann Ólafsson fæddist 26. september 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1982 hélt hann utan til frekara náms og útskrifaðist sem eðlisfræðingur frá Brandeis University í Massachusetts í Bandaríkjunum 1985. Hann hóf störf hjá Sony í Bandaríkjunum strax að loknu námi. Tíu árum síðar var hann kjörinn aðstoðarforstjóri fyrirtækisins og forstjóri margmiðlunardeildar þess. Hann átti meðal annars þátt í að þróa geisladiskinn og undir forystu hans hleypti fyrirtækið af stokkunum PlayStation leikjatölvunni. Árið 1996 hóf hann störf hjá fjárfestingarfyrirtækinu Advanta og var síðan ráðinn annar tveggja yfirmanna Time Warner Digital Media 1999. Hann tók þátt í samningaviðræðum við America Online á vegum fyrirtækisins sem leiddi af sér samruna fyrirtækjanna Time Warner, stærsta netþjónustufyrirtækis heims, og America Online, stærsta fjölmiðlunarfyrirtækis veraldar.

Á námsárunum skrifaði Ólafur Jóhann greinar um atómeðlisfræði sem birtar voru í vísindatímaritum. Fyrsta verk hans, smásagnasafnið Níu lyklar, kom út 1986 og fyrsta skáldsagan, Markaðstorg guðanna, birtist á prenti 1988. Fyrirgefning syndanna, sem út kom 1991, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár en Ólafur Jóhann hlaut síðan verðlaunin 2006 fyrir bókina Aldingarðurinn, sem er safn tengdra smásagna.

Auk skáldsagna og smásagna hefur Ólafur Jóhann sent frá sér leikritið Fjögur hjörtu sem frumsýnt var í Loftkastalanum 1997. Leikgerð Sniglaveislunnar var frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar 2001 og hefur einnig verið sett á svið í Bretlandi. Verk Ólafs Jóhanns hafa verið þýddar á erlend tungumál.

Ólafur Jóhann er kvæntur Önnu Ólafsdóttur og eiga þau tvo syni. Þau eru búsett í Bandaríkjunum.

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.

Forlag: Vaka-Helgafell.