Beint í efni

Ragnar Helgi Ólafsson

Æviágrip

Ragnar Helgi Ólafsson er fæddur 5. október 1971. Hann er rithöfundur og listamaður. Ragnar Helgi las heimspeki við Háskóla Íslands og lauk þaðan B.A. prófi árið 1997. Að loknu diplómanámi í kvikmyndaleikstjórn við The New York Film Academy lagði hann stund á meistaranám í myndlist við École Supérieure des Beaux-Arts d’Aix-en-Provence í Frakklandi og útskrifaðist árið 2001. Árið 2016 lauk hann MA-prófi í Ritlist frá Háskóla Íslands. Hin síðari ár hefur Ragnar Helgi helgað sig ritstörfum, gefið út skáldskap, ljóð, leikrit og ritgerðir.

Fyrsta bók Ragnars Helga, skáldsagan Bréf frá Bútan, kom út sumarið 2013. Í kjölfarið fylgdi smásagnasafn og ljóðahefti. Árið 2015 hlaut Ragnar síðan Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­­sonar fyrir ljóðabókina Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Smásagnasafnið Handbók um minni og gleymsku leit dagsins ljós haustið 2018 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og menningarverðlauna DV. Bókasafn föður míns – sálumessa kom út ári síðar var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Um árabil hefur Ragnar Helgi jafnframt unnið að sjónlistum og sýnt verk sín víða um heim, í söfnum eins og KIASMA í Helsinki, MoMA PS1-Colony í New York, TBA21 í Vínarborg og Listasafni Íslands, Reykjavík. Hann hefur einnig unnið að samstarfsverkefnum með öðrum rithöfundum og listamönnum eins og Douglas Edric Stanley, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, Anne Carson og Ragnari Kjartanssyni.

Ragnar Helgi er einnig annar forsvarsmanna bókaútgáfunnar Tunglsins forlags, sem gefur út bækur og ljóðatímarit auk þess að skipuleggja lista- og gjörningakvöld á Íslandi jafnt sem erlendis. Meðfram listsköpun sinni leikur Ragnar Helgi tónlist auk þess að sinna grafískri hönnun, en hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga á því sviði, sem og fyrir myndlist sína.

Heimasíða Ragnars Helga.