Beint í efni

Sjón

Æviágrip

Sjón (Sigurjón B. Sigurðsson) fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1962. Hann hóf rithöfundarferil sinn ungur sem ljóðskáld og kom fyrsta ljóðabók hans, Sýnir, út 1978 en fyrr sama ár gaf hann út einblöðung með þremur ljóðum. Sjón var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu og varð snemma áberandi í listalífi Reykvíkinga.

Sjón hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og skáldsagna, hefur skrifað leikrit og gefið út efni fyrir börn. Samhliða rithöfundarferlinum hefur Sjón tekið þátt í myndlistasýningum og tónlistarviðburðum af ýmsum toga. Hann hefur meðal annars starfað með Björk, samið með henni tónlist, texta og tónlistarmyndbönd, þar á meðal texta við tónlist hennar í mynd Lars Von Trier, Dancer in the Dark (2000). Hann bjó og starfaði um skeið í London. Sjón var einn af þeim sem stóðu fyrir fyrstu listasmiðjunum fyrir börn í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi og hefur hann víðar unnið í ritsmiðjum með börnum og unglingum. Hann er einn af stofnendum útgáfufélagsins Smekkleysu.

Sjón hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2005 fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur, Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Mánastein árið 2013 og svo Menningarverðlaun DV árin 1995 og 2002. Þá var hann sæmdur franskri heiðursorðu lista og bókmennta árið 2021, L'Ordre des Arts et des Lettres, sem er ein æðsta viðurkenning franska ríkisins á sviði lista. Kvikmyndin Dýrið, sem Sjón skrifaði handrit að í samstarfi við leikstjórann Valdimar Jóhannsson hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2022. Árið 2023 varð Sjón handhafi norrænu verðlauna Sænsku akademíunnar árið 2023, en þau eru veitt höfundi sem þykir hafa lagt sitt af mörkum með markverðum hætti á sínu sviði.

Verk eftir Sjón hafa verið þýdd á fjölda tungumála.