Beint í efni

Stefán Hörður Grímsson

Æviágrip

Stefán Hörður Grímsson fæddist í Hafnarfirði 31. mars 1919. Hann nam við Laugarvatnsskóla og hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Hann vann við landbúnaðarstörf og sjómennsku, var sundkennari og næturvörður.

Fyrsta ljóðabók Stefáns Harðar, Glugginn snýr í norður (1946), þykir dæmigert byrjendaverk þar sem höfundur fer troðnar slóðir í formi og tjáningarmáta og fetar í fótspor eldri skálda. Við annan tón kveður í annarri ljóðabók hans, Svartálfadansi (1951). Bókin vakti mikla athygli og aðdáun og þar þótti Stefán Hörður stíga fram sem fullmótaður módernisti og atómskáld. Nítján ár líða fram að næstu ljóðabók hans, Hliðin á sléttunni (1970). Aftur líða ellefu ár þar til Farvegir (1981) kemur út. Árið 1987 sendi hann síðan frá sér ljóðabókina Tengsl og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1989. Önnur ljóðabók kom út tveimur árum síðar, Yfir heiðan morgun. Fyrir hana fékk hann íslensku bókmenntaverðlaunin fyrstur manna. Ljóð Stefáns Harðar hafa verið þýdd á önnur tungumál og komið út í ljóðasöfnum.

Stefán Hörður lést í Reykjavík 18. september 2002, 83 ára að aldri.

Forlag: Mál og menning.