Beint í efni

Svava Jakobsdóttir

Æviágrip

Svava Jakobsdóttir fæddist 4. október 1930 í Neskaupstað. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949 og BA prófi í enskum og amerískum bókmenntum frá Smith College í Northampton í Massachusetts, Bandaríkjunum 1952. Svava var í framhaldsnámi í forníslenskum bókmenntum við Somerville College í Oxford á Englandi frá 1952 til 1953 og stundaði einnig nám í sænskum nútímabókmenntum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1965 til 1966.

Svava starfaði í Utanríkisráðuneytinu og í Sendiráðinu í Stokkhólmi 1955 til 1960. Hún kenndi við Barna- og unglingaskólann á Eskifirði 1963 til 1964. Svava var blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsisns 1966 til 1969 og starfsmaður við dagskrárdeild RÚV 1969 til 1970. Hún var þingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1971 til 1979.

Svava sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1968 til 1971. Hún gegndi ýmsum nefndarstörfum og var m.a. í nefnd til að semja frumvarp um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila 1971 og í nefnd til að semja frumvarp til laga um Launasjóð rithöfunda 1973. Hún sat einnig í Rannsóknaráði ríkisins 1971 til 1974 og var varamaður 1978 til 1979. Hún var ennfremur varamaður í Norðurlandaráði 1971 til 1974 og aðalmaður þess 1978 til 1979. Svava var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árin 1972, 1974, 1977 og 1982. Hún var í stjórn Máls og menningar 1976 til 1979 og átti einnig sæti í fulltrúaráði þess. Hún var í Rithöfundaráði 1978 til 1980. Svava var fulltrúi Íslands í samráðshóp sem gerði úttekt á menningarsamstarfi Norðurlandanna á grundvelli norræna menningarmálasamningsins 1972 til 1978. Hún var varamaður í stjórn Norræna hússins í Reykjavík 1979 til 1984 og í safnráði Listasafns Íslands 1979 til 1983. Hún var fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980 til 1983. Hún sat einnig í stjórn Leikskáldafélags Íslands 1986 til 1990. Svava var fulltrúi Íslands í listkynningu Scandinavia Today í Japan 1987.

Fyrsta bók Svövu var smásagnasafnið Tólf konur sem kom út árið 1965 en hún skrifaði smásögur, skáldsögur og leikrit, bæði fyrir svið og ljósvakamiðla. Hún skrifaði enn fremur fjölda ritgerða og blaðagreina og gerði þætti fyrir útvarp. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og hafa leikrit hennar einnig verið flutt víða erlendis. Svava flutti fyrirlestra og kynnti verk sín á vegum félagasamtaka erlendis og í boði bókmenntadeilda háskólanna í Björgvin 1979, Osló 1979 og 1988, London 1984, Freiburg 1987 og Amsterdam 1988.

Svava lést 21. febrúar 2004.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.