Beint í efni

Þorvaldur Þorsteinsson

Æviágrip

Þorvaldur Þorsteinsson fæddist 7. nóvember 1960 á Akureyri. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri frá 1977-1981, lauk prófi frá nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og frá Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989. Veturinn 1981-1982 nam hann við heimspekideild Háskóla Íslands. Þorvaldur starfaði jöfnum höndum sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hann hélt rúmlega 40 einkasýningar og tók þátt í tugum alþjóðlegra myndlistarviðburða og sýninga víða um heim. Hann lagði einnig stund á kennslu, flutti fyrirlestra og hélt námskeið, meðal annars í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, California Institude for the Arts í Valencia í Bandaríkjunum, ArtCenter í Los Angeles, AKI í Enschede í Hollandi og víðar. Myndverk eftir hann eru í eigu listasafna og einkasafna hér heima og erlendis og bókverk í eigu Bibliotheque Nationale í París og Victoria and Albert Museum í London.

Þorvaldur skrifaði fjölda leikverka fyrir svið, útvarp og sjónvarp. Meðal annars voru örleikrit hans flutt vikulega í Vasaleikhúsi Ríkisútvarpsins veturinn 1991-1992 og leikritið Við feðgarnir var sett upp af Hafnarfjarðarleikhúsinu Hermóði og Háðvöru 1998. Barnabækur hans um veruna Blíðfinn vöktu mikla athygli og hlaut hann Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1999 fyrir þá fyrstu, Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó. Blíðfinnsbækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála en sú síðasta þeirra, Blíðfinnur og svörtu teningarnir: Lokaorustan, kom út árið 2004. Leikgerð Hörpu Arnardóttur á sögunum er annað tveggja verka hans sem Borgarleikhúsið setti upp leikárið 2001-2002, hitt var leikritið And Björk of course.... sem síðar var einnig gert að sjónvarpsmynd, í leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar. Leikgerð á barnabók hans, Skilaboðaskjóðunni, var sýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1993. Fyrsta skáldsaga Þorvaldar fyrir fullorðna, Við fótskör meistarans, kom út haustið 2001.

Þorvaldur Þorsteinsson lést þann 23. febrúar 2013.

Forlag: Bjartur.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.