Beint í efni

Viktor Arnar Ingólfsson

Æviágrip

Viktor Arnar Ingólfsson fæddist á Akureyri þann 12. apríl 1955. Hann lauk B. Sc. námi í byggingartæknifræði frá Tækniskóla Íslands 1983 og hefur auk þess sótt námskeið í handritsgerð á vegum Félags kvikmyndagerðarmanna og hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Árin 1990 og 1995 dvaldi Viktor Arnar um tíma við nám í almannatengslum, útgáfu, tölvugrafík o.fl. við George Washington University í Bandaríkjunum. Viktor Arnar hóf störf hjá Vegagerðinni 1969 og hefur verið þar í fullu starfi frá 1983. Frá 1985 hefur hann séð um útgáfumál stofnunarinnar.

Fyrsta skáldsaga Viktors Arnars, Dauðasök, kom út árið 1978. Síðan hefur hann sent frá sér fjórar aðrar spennusögur, nú síðast Aftureldingu 2005, en á henni byggðust spennuþættirnir Mannaveiðar, sem Ríkissjónvarpið sýndi vorið 2008. Einnig hafa smásögur eftir hann birst í blöðum og tímaritum. Skáldsaga hans, Engin spor, var tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, árið 2001. Hann var einnig tilnefndur af Íslands hálfu til Glerlykilsins 2004 fyrir Flateyjargátu. Viktor Arnar er félagi í Hinu íslenska glæpafélagi.

Viktor Arnar býr í Reykjavík. Hann er kvæntur og á eina dóttur og eina stjúpdóttur.

Forlag: Mál og menning.