Bókmenntaverðlaun

Á heimasíðu Borgarbókasafns má sjá hvaða höfundar hafa hlotið eftirtalin verðlaun og einnig hverjir hafa verið tilnefndir til þeirra. Smellið á hlekkina til að nálgast viðkomandi lista.

Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur
Menntaráð Reykjavíkur veitir árlega tvenn verðlaun fyrir barnabækur, aðra frumsamda og hina þýdda. Verðlaunin nefndust upphaflega Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, síðan Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur frá 1990-96 en nafnið breyttist aftur í Barnabókaverðlaun fræðsluráðs 1997. Árið 2006 var svo ákveðið að verðlaunin skyldu heita Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur.

Blóðdropinn
Hið íslenska glæpafélag veitir Blóðdropann ár hvert, fyrir bestu íslensku glæpasöguna.

Bókaverðlaun barnanna
Borgarbókasafn veitir verðlaunin hvert ár fyrir tvær bækur aðra frumsamda og hina þýdda. 6-12 ára börn velja bækurnar og fer valið fram á heimasíðu safnsins og í grunnskólum og bókasöfnum í Reykjavík. Verðlaunin eru veitt á sumardaginn fyrsta.

Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness
Bókaútgáfan Vaka – Helgafell stofnaði árið 1995 til Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness í samráði við fjölskyldu skáldsins. Megintilgangur verðlaunanna er að efla íslenskan sagnaskáldskap og stuðla þannig að endurnýjun íslenskrar frásagnalistar.
Verðlaunin eru veitt árlega að hausti og kemur verðlaunabókin út sama dag hjá Vöku – Helgafelli. Samkeppnin er öllum opin og eru verðlaunin veitt fyrir nýja og áður óbirta skáldsögu eða smásagnasafn.

Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana
Frá árinu 2000 hafa bóksalar og starfsfólk bókaverslana valið bestu bækur ársins af þeim sem gefnar eru út á Íslandi. Valdar eru bækur úr eftirfarandi sjö flokkum: Besta íslenska skáldsagan, besta þýdda skáldsagan, besta íslenska barnabókin, besta þýdda barnabókin, besta ljóðabókin, besta ævisagan og besta handbókin/fræðibókin.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
Reykjavíkurborg veitir verðlaunin ár hvert fyrir handrit að ljóðabók. Þriggja manna dómnefnd tilnefnd af Borgarráði Reykjavíkur, menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur og Rithöfundasambandi Íslands metur verkin. Úthlutað er að hausti.

Davíðspenninn
Félag íslenskra rithöfunda veitti Davíðspennann á afmælisdegi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi 21. janúar.

Fjöruverðlaunin
Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru fyrst veitt árið 2007. Verðlaunin eru veitt árlega í þremur flokkum: flokki fagurbókmennta, flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, og flokki barna- og unglingabókmennta. 

Íslensku barnabókaverðlaunin
Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka var stofnaður árið 1985 af Ármanni Kr. Einarssyni rithöfundi og fjölskyldu hans í samvinnu við bókaútgáfuna Vöku – Helgafell. Íslensku barnabókaverðlaunin eru veitt árlega fyrir nýja og áður óbirta skáldsögu fyrir börn og unglinga. Samkeppnin er öllum opin. Verðlaunin eru veitt að hausti.

Íslensku bókmenntaverðlaunin
Félag íslenskra bókaútgefenda veitir Íslensku bókmenntaverðlaunin í janúar ár hvert. Verðlaun eru veitt í flokki fagurbókmennta og í flokki fræðibóka. Tvær nefndir sem skipaðar eru af Félagi íslenskra bókaútgefenda, Heimspekideild H.Í., Rithöfundasambandi Íslands, Rannsóknaráði ríkisins og Hagþenki tilnefna bækur en þriðja nefndin velur síðan eina bók í hvorum flokki sem hlýtur verðlaunin. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1989.

Íslensku þýðingaverðlaunin
Forseti Íslands afhendir Íslensku þýðingaverðlaunin á degi bókarinnar, þann 23. apríl, ár hvert. Verðlaunin eru veitt af Bandalagi þýðenda og túlka með stuðningi Rithöfundasambands Íslands og Félags íslenskra bókaútgefenda.

Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar
Minningarsjóður Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda á Kirkjubóli og Ingibjargar Sigurðardóttur konu hans, veitir verðlaunin og skulu þau veitt þriðja hvert ár. Þau voru fyrst veitt 1994.

Ljóðstafur Jóns úr Vör
Lista- og menningarráð Kópavogs hefur staðið að árlegum ljóðaverðlaunum i minningu skáldsins Jóns úr Vör frá árinu 2002. Veitt eru peningaverðlaun og verðlaunaskáldið fær til varðveislu í eitt ár göngustaf, sem var í eigu Jóns. Á hann er festur skjöldur með nafni verðlaunahafa ásamt ártali. Verðlaunin eru veitt við hátíðlega athöfn á fæðingardegi skáldsins þann 21. janúar ár hvert.

Menningarverðlaun DV í bókmenntum
DV veitir árlega menningarverðlaun í sjö listgreinum. Þriggja manna dómnefndir tilnefna fimm einstaklinga eða aðila sem til greina koma í hverri listgrein og gera grein fyrir tilnefningunum. Verðlaunin eru síðan veitt einum aðila eða einstaklingi í hverri grein, venjulega í febrúarlok.

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Á gamlársdag ár hvert er úthlutað viðurkenningum til eins eða tveggja rithöfunda úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Í stjórn sjóðsins eiga sæti fimm menn, einn skipaður af menntamálaráðherra og er hann formaður, tveir af Ríkisútvarpinu og tveir af Rithöfundasambandi Íslands.

Stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar
Að verðlaununum standa Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, Mál og menning og menntamálaráðuneytið. Verðlaunin eru veitt fyrir óvenjulega stílgáfu og frumleik í meðferð íslensks máls og geta þau hlotnast hverjum þeim sem vekur athygli fyrir góðan stíl, hvort sem viðkomandi er skáld eða einhver sem fæst við ritstörf af öðrum ástæðum.

Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi
Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi (The International Board on Books for Young People), hefur verið veittur siðan árið 2007. Verðlaunin eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir.

Viðurkennig Hagþenkis
Viðurkenning Hagþenkis hefur verið veitt árlega síðan 1987. Samkvæmt skipulagsskrá um viðurkenninguna, sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 1993, skal veita hana fyrir samningu fræðirita, kennslugagna, aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember ár hvert, veitir menntamálaráðuneytið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

Íslenskar bækur tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs