Finn-Ole Heinrich – Gestarithöfundur Bókmenntaborgar

finn-ole1

Í sumar bauð Goethe-stofnun, í samstarfi við Bókmenntaborgina, tveimur þýskum rithöfundum til sex vikna starfsdvalar í Reykjavík. Rithöfundurinn Finn-Ole Heinrich kom til Íslands um miðjan júní síðastliðinn og nýtti tækifærið til að vinna að nýjum verkum og kynnast bókmenntaborginni.

„Ég vann talsvert mikið. Skrifaði smásögu fyrir fullorðna, vann í barnabók sem ég er að skrifa og bloggaði á vefsíðu Goethe-stofnunar,“ segir Finn-Ole um dvölina í Reykjavík. Barnabók Finn-Ole, Frerk du Zwerg! (sem mætti þýða sem Bergur dvergur!), með myndskreytingum Ránar Flygenring, kom út í Þýskalandi í fyrra og hefur verið tilnefnd til einna helstu barnabókaverðlauna þar í landi, Deutsche Jugendliteraturpreis. „Ég fékk tækifæri til að vinna að fleiri verkefnum með Rán Flygenring, sem var þýðingarmikið. Við ræddum saman og tókum upp efni fyrir mynd byggða á bókinni okkar. Það var frábært.“

Lesið var upp úr fyrstu köflum Frerk du Zwerg! á íslensku í aðalsafni Borgarbókasafns þann 11. júlí. Um tuttugu og fimm börn frá Frístundaheimilinu Selinu mættu og hlustuðu einbeitt á lesturinn, eins og meðfylgjandi myndir sýna. „Þau voru mjög athugul og þæg. Þau voru í yngri kanntinum og í fyrstu var ég hræddur um að þau skildu ekki söguna nógu vel,“ segir Finn-Ole um viðbrögð barnanna. „En eftir lesturinn fengum við svo margar fyndnar spurningar. Þau höfðu æðislegar hugmyndir um hvernig sagan myndi þróast.“ Bókin kveikti greinilega á ímyndunarafli barnanna og eftir lesturinn spunnust fjörugar umræður um loðin egg, geimverur og úlfhunda.

Hér að neðan má lesa stutt brot úr bókinni:

Berg langar í hund, helst stóran, allra helst sjúklega stóran, og lang-allra-allrahelst langar hann í stærsta írska úlfhund í heimi. Og hvað finnur hann í staðinn? Egg. Eftir skólann bíður hann Breki Meyvant eftir honum Bergi, rétt eins og alla aðra daga. En ekki vegna þess að þeir séu svona góðir vinir. Breki Meyvant er kominn í sjötta bekk. Hann er stór og sterkur, og því miður er hann líka svolítið vitlaus.

Hann kann ekki vel við Berg, en sennilega kann hann ekki vel við nokkra lifandi manneskju. Breki Meyvant virðist ekki vera þannig gerður að hann geti kunnað vel við neinn.

„Þú ert nú meiri pulsan!“ segir Breki Meyvant þegar hann sér Berg, og hrindir honum.  Bull og vitleysa, hugsar Bergur. Ég lít alls ekki út eins og pulsa. Ég lít út eins og pabbi minn, og hann er skókaupmaður. En þetta finnst Bergi ekki vænlegt að segja upphátt, heldur hugsar hann það bara. Annað væri líka tilgangslaust: Líklega veit Breki Meyvant ekki einu sinni hvað skókaupmaður er.

[…]

„Éttu drullu, pulsa!“ segir Breki Meyvant og klessir andlitinu á Bergi ofan í kaldan, votan sandinn á skólalóðinni. Virkilega djúpt og virkilega lengi. Síðan hleypur hann burt. Hann hlær ekki einu sinni yfir þessu, snýr bara skringilega upp á munninn, eins og honum þyki þetta ekki einu sinni skemmtilegt. Bull og vitleysa, hugsar Bergur. Þetta er sandur, ekki drulla. Lítill munur þar á, vissulega, en mikilvægur. Og svo finnur hann, í köldum sandinum, fyrir einhverju hlýju við nefbroddinn. Hann grefur það út. Það er egg! Hvers konar egg er nú þetta? En furðulegt egg.

[…]

Bergur mætir í tíma og krakkarnir góla: „Bergur dvergur!“

Bergur stingur hendinni í vasann, finnur eggið furðulega og strýkur úlfsfeldinum. Ef þau bara vissu! Í dag geta allir orgað, æpt og atast eins og þá lystir. Bergur sest bara pollrólegur og brosandi í sætið sitt. Og allir spyrja: „Hvað er svona sniðugt, Bergur dvergur?“

En Bergur yppir bara öxlum og glottir með sjálfum sér, því að hann á sér leyndarmál, og kann að halda leyndarmálunum sínum út af fyrir sig. Ekkert bítur á honum, það er ekki svo mikið sem ein mylsna af pirringi í honum, því að í hendinni er hann með leyndarmál með úlfsfeld.

„Börn geta verið svo grimm,“ segir frú Grænheiður að minnsta kosti sex sinnum á dag. Hún ætti að vita það fyrst hún er kennari. En hvað geta börn gert að því, þó að Bergur rími við dvergur, Gunna við tunna og Haraldur við engisprettufaraldur?

Bergur er eiginlega frekar heppinn. Dvergar eru vissulega litlir, en öllum líkar vel við dverga. Hann hefur það til dæmis mun betra en Lísa ýsa, Rósetta klósetta, Mist Hlín sem hefur kysst svín, Gunnar Mar bremsufar, og tölum ekki einu sinni um hann veslings Gunnar Gest gubbupest.

Þegar farið er í skotbolta í frímínútunum er Bergur kosinn í stelpuliðið. Breki Meyvant borðar nestið hans.

Þýðing úr Frerk du Zwerg!: Steingrímur K. Teague