Bókasöfn á höfuðborgarsvæðinu

Á höfuðborgarsvæðinu er fjöldi bókasafna af öllum toga, almenningsbókasöfn,skólasöfn og sérfræðisöfn. Hér eru upplýsingar um þau helstu.

Borgarbókasafn Reykjavíkur

grofarhusBorgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta almenningsbókasafn landsins með aðalsafn, fimm útibú, bókabíl og sögubíl. Á Borgarbókasafni er lagður metnaður í að veita faglega þjónustu við allra hæfi. Safnið býr yfir góðum safnkosti og býður upp á fjölbreytta þjónustu fyrir börn, unglinga og fullorðna, fyrirtæki og stofnanir. Meðal þess sem safnið býður upp á eru leshringir, fjölmenningarstarf, öflugt barnastarf og margvíslegir viðburðir á borð við Ljóðaslamm, sýningar og upplestra. Útibú Borgarbókasafnins eru Aðalsafn, Ársafn, Foldasafn, Gerðubergssafn, Kringlusafn og Sólheimasafn. Vefsíðu Borgarbókasafns má finna hér.

Landsbókasafn Íslands

safn004rLandsbókasafn Íslands og bókasafn Háskóla Íslands eru í Þjóðarbókhlöðunni en söfnin voru sameinuð í þessari byggingu árið 1994. Landsbókasafn safnar öllum íslenskum gögnum samkvæmt lögum um skylduskil til safna, varðveitir þau, skráir og flokkar. Það veitir einnig þjónustu við kennslu og rannsóknarstarfsemi Háskóla Íslands og heldur uppi bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega, stjórnsýslu og rannsókna á Íslandi. Safnið leggur mikinn metnað í að viða að sér gögnum á öllum sviðum og búa þau í hendur notenda og stendur auk þess fyrir ýmiss konar fræðslu og menningarstarfsemi. Vefsíðu Landsbókasafns má finna hér.

Blindrabókasafn Íslands

Annað mikilvægt safn á höfuðborgarsvæðinu er Blindrabókasafn Íslands, sem er í Kópavogi. Safnið er rekið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og þjónustar allt landið. Blindrabókasafn lánar út og framleiðir hljóðbækur fyrir blinda og sjónskerta, auk fólks með lesblindu, og stór hópur eldri borgara nýtir sér einnig þjónustu þess. Vefsíðu Blindrabókasafns má finna hér.

Bókasafn Norræna hússins

Norræna húsiðBókasafn Norræna hússins er eitt sinnar tegundar á landinu, á Norðurlöndunum og líklega í heiminum. Það hóf starfsemi árið 1969, ári eftir að húsið var vígt. Sérstaða safnsins er að þar er eingöngu að finna bækur á Norðurlandamálum eftir norræna höfunda. Bækur á íslensku eru ekki í safninu en þýðingar á íslenskum höfundum á önnur Norðurlandamál eru þar að sjálfsögðu. Þýðingar af öðrum tungumálum en Norðurlandamálum eru ekki í safninu. Safninu er fyrst og fremst ætlað að vera safn norrænna samtímabókmennta og sígildra norrænna höfunda. Barnadeild safnsins er í kjallara og gengur undir heitinu “Barnahellir” í daglegu tali. Vefsíðu Norræna hússins má finna hér.

Bókasöfn á Höfuðborgarsvæðinu
Borgarbókasafn Reykjavíkur Landsbókasafn – Háskólabókasafn Bókasafn Garðabæjar Bókasafn Hafnarfjarðar Bókasafn Kópavogs Bókasafn Mosfellsbæjar Bókasafn Seltjarnarness Blindrabókasafn Íslands Landskerfi bókasafna