Reykjavíkurljóð – ABD

Reykjavíkurljóð – ABD

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða

 


Á gangi

Eitt haustið var ég á gangi

ég gekk niður þurra götu
og hitti þar fyrir sjálfan mig

Svo gengum við saman
niður strætið

Eftirá að hyggja held ég
að ég hafi ekki verið
með sjálfum mér.

 

Andri Snær Magnason
Ljóðasmygl og skáldarán. Nykur, 1995.

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.
Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina

Anton Helgi Jónsson
Tannbursti skíðafélagsins. Mál og menning, 2011.

Leyndir þræðir

Undir gangstéttunum þræðir
sem tengja okkur saman
tryggðaböndin ekki lengur
jafn augljós en þó
svo áþreifanleg
þegar upp er grafið.
Hvíslandi raddir í jörðinni
moldugar, sandblautar orðsendingar
sem berast leifturhratt á milli.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Hjartaborg. Reykjavík. Dimma, 2007.

Svaðilför með tvö mölt

sykraðir hringstigar
kafbátar í pappírum
og bréf sem ég skil eftir í ópalrauðum póstkassa
silkihnerr frá manni sem meinar það ekki

þú þokuþæfða þorp sem þykist vera borg
með dökka mjöll á malbiki
ég anda að mér úðaregni í roki

reikul geng um götur þínar
gegnumvot í skóna

í strætó
í mjódd
í skeifu
í mjódd
á hlemm
ljósastaur og hótel og ljósastaur og hótel og hótel og hótel og hótel
rúða sem skrúfast niður
og háværir hringitónar límdir saman í lag

Ásta Fanney Sigurðardóttir
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013
 


Stundum

Stundum
langar mig hreinlega
til að losa um bindið
og slökkva á tölvunni …

fara í látur
fást við brimla
rota hvíta kópa og skera á háls
fyllast þeirra fjörvi er ég drekk
það ylvolga blóð og æpa að dröngum
laugast aur og þangi jarðar
þrífa til stúlku er gengur hjá
bíta í og sjúga safa …
þartil hin hvíta framrás lífsins
hnígur í krefjandi svörð

Bergsveinn Birgisson
Innrás liljanna. Reykjavík. Nykur, 1997.

Orð og augu leysast upp með misjöfnum hraða

Í dag eru veðurguðirnir hryðjuverkamenn
hér sem túristar fylgjast með náttúrulífsmynd.
Við opnum augun eins og gjafir
hvort sem við skiljum það eða ekki
hér sem við dönsum svarthvítan tímadans í drama.
Stundum öskra ég á hjóli en nú sit ég á bekk.

Við sjáumst í mismunandi búningum
hvort sem við erum með fjaðrir eða ekki.
Snyrtileg villimennska og villimannleg snyrtimennska
villisnyrting og snyrtivilling.
Einhvers staðar í öllum er skilningur.
Dagarnir opnast eins og pakkar
hvort sem við kærum okkur um þá eða ekki
og á loftnet setjast þrír fuglar.
Ég klæði mig í fyrstu konuhanskana mína

Sá vinstri gæti alveg eins verið svartur og sá hægri hvítur.

Bergþóra Einarsdóttir. 
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013.

 


Tuttugu línur um borgina

Heil borg
fellur ekki af himnum ofan
og fær um leið nafn eins og Höfðaborg eða Grosní.
Borg er byggð. Og byggð
er borg. Og inn í borgina
liggur gata úr óbyggðunum.
En gatan sem liggur inn í hringtorgið
er ekki í laginu eins og spurningarmerki
að ástæðulausu.
En hver er spurningin?
Hvað er það sem fellur ofan af himnum,
annað en snjórinn og froskarnir?
Rigningin.
En sé það rigning,
verður að vera borg til að taka á móti henni.
Og þess vegna er Reykjavík. Borgin með gleraugun
– með glerið fyrir augunum –
sem liðast í sundur undir sólinni
en kemur til sjálfs sín aftur
þegar rignir.

Bragi Ólafsson.
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013.

Reykjavíkurlíf

I
Útvarpið er allsstaðar.
Útvarpið er alltaf opið.

Við höfum lagt niður þann ósið
að láta skoðanir okkar í ljós.
Það gæti komið sér ílla.

Á morgun
tökum við á okkur rögg
og hættum að mynda okkur skoðanir.

Útvarpið er alltaf opið.

II
Skrúfaðu fyrir útvarpið!

Til hvers?
Það er þýðíngarlaust.
Nágranninn kemur
og tekur að sér hlutverk þess.

Ef ég skrúfa fyrir
á ég það á hættu
að kellíngin mín breytist í útvarp.

Útvarpið er allsstaðar.
Útvarpið er opið.

III
Fyrir nokkrum arum
sagði maður sem ég þekki
um kunníngja sinn:

Það getur svosem vel verið
að hann sé kommi
en hann er ei dreingur góður.

Nú segir sami maður um sama kunníngja:
Hanne r kannski ekki slæmur maður
en hann er bölvuð kommaspíra!

IV
Við höfum lagst til svefns
Í drullupolli.

Við sofum og sjáum ekki
sýkilinn
sem gerjar í svaðinu
og býr sig undir innrás
í líkama okkar.

V
Maður nokkur byggir hús.
Maður nokkur verður gráhærður
og gigtveikur
við að byggja hús.

Húsið kemst undir þak.
Maðurinn heldur reisugilli.
Virðulegur góðborgari
ekur bjúikk í hlað.

-Góðan daginn. Ég
er fyrsti veðhafi.

VI
Við erum átthagafjötruð
í fýluborg
á 63°norðlægrar breiddar
og látum slúðurvélina
stjórna lífi okkar.

Fari það í
kerfisbölvað
rentufóts
viðreisnarvíti!

 

Dagur Sigurðarson
Hundabærinn eða Viðreisn efnahagslífsins. Heimskringla, 1963.