Reykjavíkurljóð – EFG

REYKJAVÍKURLJÓÐ – EFG

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Bærinn vex

Eitt kvöld í júní
og Esjan teygir bláan koll
mót bláum himni
og flóinn mókir
kyrr og glóir

ég geng um Vesturgötu
burt frá bænum
og finn sjálfan mig í fjöru

þorskhausar kræklingar þari

römm er sú lykt
og römm er sú lykt
sem þorpsdrenginn dregur
að sjávarenda borgargötunnar

gömul sjóbúð rembist við
að verjast falli
undir súð er gisin
grandlaus skekta
og styður sig í trúnaði
við trébúkkana litlu

lúðunet á trönum
skeljabrot í möskvum
þarastöngull
kóralhrísla

gráskeggur með skeljahrukkur
seltusvip og sjávarróm
situr á hvalshrygg
sunnan undir vegg
hefir net á hnjám

látúnsnálin tínir
möskva ört og öruggt
unz netið er heilt

gamall veiðimaður?
setið í þorpsfjörunni
sjötíu ár
b o r g a rfjörunni?
noh?
hefir vaxið b o r g
á hinn enda götunnar?

 

Einar Bragi
Eitt kvöld í júní, 1950
 

Uppgjör við fortíðina I

Nú vil ég biðja þá
sem í óskammfeilni sinni
gengu niður Laugaveginn
einhvern tíma í nóvember
árið 1932
að vera svo vingjarnlega að snúa við
og ganga hann upp.

 

Einar Már Guðmundsson
Í auga óreiðunnar. Mál og menning, 1995.
 

Í umferðinni er ljóðið

Í umferðinni er ljóðið í götunni í færibandinu í hálsklútnum rauða

Á strætisvagnastöðinni hafa sumir náð áfanga og innihald strætisvagnsins breytist áður en hann lokar dyrum sínum og leggur aftur af stað

Á færiböndum fara vélarhlutar og bæta við sig og verða vél frá hendi til handar

Í umferðinni er ljóðið í strætisvagninum í færibandinu frá hendi til handar

Hundar fara framhjá í bandi og draga á eftir sér pelsklæddar konur

Börn hlaupa fyrir bíl og deyja

Við göngum eftir götunum inn í tískuvöruverlsanirnar inn í verksmiðjurnar inn í kirkjurnar

Róni spilar á munnhörpu og peningur út úr vegfarendaskaranum klingir á gangstéttinni á ská gegnum tón munnhörpunnar

Á ská í gegnum tón munnhörpunnar stendur peningurinn uns róninn breytir honum í öl

Í ölinu er ljóðið í munnhörpunni í andartaki dauðans í hundinum

Hvarvetna er ljóðið sundurkramið milli húshorna milli bíla milli færibanda milli hinna þúsund dauða

Hvarvetna er ljóðið á flótta hvarvetna er ljóðið í felum hvarvetna liggur ljóðið á glámbekk

Farandsalar │trésmiðir vændiskonur │þingmenn saumavélar hafnarverkamenn húsmæður vélsagir járnabindingamenn saumakonur logsuðutæki sjómenn skurðgröfur læknar flökunarvélar loftpressur

Ljóðið þegar þú klæðir þig úr og gengur nakinn gegnum almenningsgarðinn

Ljóðið í rósinni sem þú setur í vasa í víninu sem þú hellir í glas

Ljóðið í höndunum sem halda um hakann

Ljóðið í hálsklútnum rauða

Ljóðið í samförunum

Ljóðið í hárinu sem bærist í vindinum

Ljóðið í dansinum

Ljóðið í orðum þínum töluðum

Við göngum eftir götunum inn í strætisvagninn inn í bíóin inn í flökunarsalinn

Við göngum eftir götunum inn í skartgripaverslanirnar inn á barina inn á barnaheimilin

Við göngum inn í mjólkurbúðirnar við göngum hvert framhjá öðru við göngum saman og við rekumst hvert á annað og biðjumst afsökunar vandræðalega

Við göngumgöngum

Ljóðið er í andartaki dauðans

Ljóðið er í bílnum sem stansar ekki

Á göngunni elskumst við

Við megum til

Við göngumgöngum

Á strætisvagnastöðinni hafa sumir náð áfanga og innihald strætisvagnsins breytist áður en hann lokar dyrum sínum og heldur aftur af stað

Ljóðið í hálsklútnum rauða ljóðið í samförunum ljóðið í götunni ljóðið í dansinum ljóðið í færibandinu frá hendi til handar ljóðið í höndunum sem halda um hakann ljóðið í hárinu sem bærist í vindinum ljóðið í orðum þínum töluðum

Ljóðið

 

Einar Ólafsson
Sólarbásúnan. Blekbyttan, 1986.
 

Stafsetningaræfing

Taktu vel eftir þegar lesið er fyrir.
Ekki gera mistök.
Ekki hafa einfalt í
í lýðnum.
Hafðu á hreinu
hvenær þeir opnast og hvenær þeir lokast,
svigarnir utan um varirnar.
Þögnin –
er ekki örugglega stórt Þ?
Breyttu um fall
en bara í völdum föllum.
Gættu þín
að skipta ekki ástinni milli lína
eins og blá-ber eða ein-hver.
Gakktu úr skugga um
að á eftir ákveðnum dagsetningum sé punktur.
Og eftir öðrum
mínútuþögn.
Passaðu þig á
að skammstafa ekki lífið.

Mundu
að stafa dauðann ekki vitlaust.
Hvernig þú deyrð
sé réttritað.

 

Ewa Lipska
Þýðing: Bragi Ólafsson. Á frummálinu heitir ljóðið „Dyktando“. 
 

Vetrarljóð

Tunglið frosið
í Tjörninni
byltir sér undir ísnum

rökkrið kastar
rekum á daginn

og ég er þegar
farin að kvíða
dauða þínum.

Gerður Kristný
Ísfrétt. Mál og menning, 1994.
 

Vesturbær

Á hverjum degi
geng ég fram á
stakan vettling
á garðvegg

brauðmolar
týndra barna
í borgarskóginum

Gerður Kristný
Höggstaður. Mál og menning, 2007

Jarðsöguleg nútíð

Allur þessi stöðugi
straumur bíla sem
sígur í haustmyrkri
austur Miklubrautina

Ég stend við gatnamót
og sé langa röð afturljósa
-þessa rauðu hraunelfi –
renna þungt
niður að Elliðaánum

Gyrðir Elíasson
Upplitað myrkur. Mál og menning, 2005