Reykjavíkurljóð – HIJ

REYKJAVÍKURLJÓÐ – HIJ

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Kvöldin í hverfinu

Ljóðfögur eru kvöldin djúpt í hverfi
með kyrratrjám og svörtu sumarlaufi
sem ber við himin húbertsnóabláan
með háu roðaofnu skýi yfir.
Í myrkviðinu ljóma gulir gluggar
nágrannahúsa hitaveitubjartir.
Þú situr einn í garðinum við glas.

Og mótorhjól á önum utan hverfis
umkringja höfuð þitt með flugnasuði
sem brotið er upp af ágústljóði þrastar
og einum lúnum útihurðarskelli.
Húsið er fullt af svefni sælla barna,
og símtölum eiginkvenna í heitu baði.
Allt er það líkt og ort af sjálfum þér.

Og allt er þetta þínu lífi gefið,
af þínu verki reist og látið standa.
Þú hefur þig inn, í húsinu á móti
er óútgefinn rithöfundur á ráfi
um rjómagula stofu í leit að titli.
Áður fyrr varstu hann en nú er honum
hugleikinn feitur þú með tæmt þitt glas.

Hallgrímur Helgason 
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013.
 

Kristjánsbakarí

Himinn og haf eru sama fyrirbærið, land samanlagður þéttleiki beggja,
borg er misskilningur sem byggður er á þessu þrennu.
Í norðurátt er Kristjánsbakarí
Þangað er langt og veitir ekki af fótum, höndum
og tungu til að sleikja glassúr af snúði.

Ég legg í hann. Heyrnarskynið mun ég skilja
út undan eins og Hvalfjörðinn.
Á þessu götuhorni er gjallarhorn
og lán að geta skellt við skollaeyrum
þegar hæst lætur í aðkomuhuganum.

Mér hefur verið útvegað snertiskyn til að hafa uppi á mjálmandi köttum,
sönnu andvarpi, gæsum sem ég get tekið upp ef ég beygi mig,
auðmýkt sem þarf að dæla með fyrirhöfn úr götuljósum.
Mánann má finna á borgarkorti á útleiðinni.

Handan hans er Kristjánsbakarí.

Hermann Stefánsson.
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013

Áhorfandinn.

Tuttugu og sjö athugasemdir

17.

Hér líða sumrin ekki; þeim er hrint, þau hrasa áfram.
Ó, já! Hið reykvíska sumar er líkast ölvaðri manneskju
sem dettur stöðugt um sjálfa sig á leið upp Laugaveginn. Og
ómögulegt að vita hvort hún muni brosa til þín eða kasta upp.
Það hellist yfir mann löngun til að forða sér hið snarasta. Að
grípa til einhvers konar ráða.

26.

Reykjavík er komin í úlpu. Maríuerlurnar flognar úr görðum,
flognar úr þessari sundurlausu borg sem minnir á árekstur;
okkur. Allt bakkar varlega inn í myrkrið og skilur eftir
þögn. Nema hundarnir, þeir horfa sárir út úr upplýstum
búðargluggunum. Á holtinu hámar haustið í sig núðlusúpu.

Huldar Breiðfjörð 
Litlir sopar. Bjartur, 2012
 

Eldberinn (brot)

Þú horfir í sjóndeildarhringinn,
hjarta þitt nötrar af þrá.
Og strax viltu losna við stinginn
sem stangar þig innanfrá.

Lyftu höfði og til stjarnanna starðu,
stattu smástund og slakaðu á.
Njóttu lífsins í frelsi og farðu
að fylgja þinni dýrustu þrá.

Hörður Torfason
Af plötunni Eldsaga. Ofar, 2003.

Á meðan borgin sefur

Á meðan borgin sefur
rís úr hafi land
með háa tinda

það hefst úr gráum vötnum
hvítt og blatt og grænt
að kyssa rauða sól

ég teygi hendur mínar
til þín mitt hvíta land

en þá er borgin vöknuð
og land mitt sekkur hægt
í vötnin grá

Ingibjörg Haraldsdóttir
Þangað vil ég fljúga. Heimskringla, 1974.

Upphaf

Ég fæddist í gráu húsi
í bláhvítu landi við ysta haf
einn októberdag fyrir löngu

í landinu því var skógur
mikill og forn og dimmur
og draugar riðu þar hjá

á kvöldin kom fuglinn í fjörunni
og söng mér ódáinsljóð
meðan öldurnar brotnuðu á klettum

um húsið fór gustur af sögum
og lygasagan um heiminn og mig
hófst þar einn októberdag …

Ingibjörg Haraldsdóttir
Þangað vil ég fljúga. Heimskringla, 1974.

Breiðholt

Einhver önnur en ég
gæti átt þessa úthverfu daga:
svipgrátt sumarið
reykvískt regnið
og vonina þunga til flugs
meðan rólurnar ískra

Einhver önnur en ég
gengið hokin um stofur
hugað að blómum
leitað svara
í spegilbónaðri ásýnd hlutanna

Meðan ég lægi nakin
og innhverf
og umlukin hafi eða sandi
eða gegnsæjum
fjarlægðarbláma

Ingibjörg Haraldsdóttir
Nú eru aðrir tímar. Mál og menning, 1989.

Áleiðis

Hve langt viltu ganga?

Hársbreidd?
Heiminn á enda?

Allt er í áttina

Ísak Harðarson
Þriggja orða nafn. Almenna bókafélagið, 1982.
 

Linnulaus heimur

Fyrst eru það sólstafir í vestri
önnur línan vaggar þaðan rauð uppað Ægisíðu …
þar tek ég við
sé einhverju við þetta að bæta

kannski fólki
það vaggar í allskonar litum eftir stígnum –
og sumir með hund
sumir tvo

aðrir virðast ekki með neinn

ég hef með mér skrifblokk og penna
og marghöfða hugann, hvað eru
tveir þrír hundar í samanburði?

já gott fólk þessu mætiði
þetta þarf ég að bera

og veit aldrei hvort mér líður stórlega vel eða illa
allt einn heimur bara linnulaus heimur

en mér skilst að sjáist ekki af mér
nema tveir þrír metrar tæpir
(bara sýnishorn)

meira sést heldur ekki af ykkur

ég hef með mér blokk og penna ef Ægisíðu
langar til að tala

Ægisíða –
finnst ykkur það verði að nefna bátaskýlin niðurníddu
kysstuð þið þar bakvið fyrsta kossinn?

lögðuð úr vör …

og síðan –
hvernig hefur þetta verið síðan: kossarnir og allt?

Jónas Þorbjarnarson
Hliðargötur. JPV útgáfa, 2001
 

Ástæður

Morgunsárið

og það er ekki til neins
að sofa lengur –
fyrst ég er ekki dáinn

kisi auk þess vaknaður
og getur ekki án mín lifað
né heldur ljóðið
sem liggur þarna á borðinu
og er enn hvorki fugl né fiskur
né ljóð

ég kemst ekki upp með
neitt múður, ég kom
undir einhverja nóttina
og síðan morgunsár eitt
af öðru: lífið lífið –

fugl

fiskur

ljóð

 

Jónas Þorbjarnarson
Á bersvæði. Forlagið, 1994
 

101 Reykjavík, Kind of Blue

Innan dyra dreymir Ásthildi
um að dansa með ærslum í íslensku sirkustjaldi.
Hún stingur höfðinu út um gluggann, skynjar andblæinn eins og leysingavatn
og Snæfellsjökull glampar í sjónum.
Stundum kveikjum við bál á Austurvelli.
Þótt eittvað brenni ávallt undir fótum okkar…
Það finnum við.
Laugavegur lyktar eins og hass
þegar aspartrén hefja svallið á aðalgötunni.
Okkur líkar kaffið, gullgerðarlist ölsins,
þráðleysið og fjarvera lögreglunnar.
Við syndum í sjónum í janúar meðan vindar leika við börnin.
Við finnum til heilags ótta við náttúruna,
en heima er svo hlýtt að okkur hættir til að gleyma henni gjörsamlega.
Reykjavík! Í þér eru heimkynni göfugra villifugla.
Á vetrum—þegar þökin eru hvít og göturnar krapakenndar—
göngum við á svelli eins og Freddie Freeloader á vatni,
þegar Blue in Green verður All Blues,
það eru Flamenco Sketches í myrkrinu
So What?

Juan Camilo Román Estrada
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson þýddi ljóðið.