Reykjavíkurljóð – KLM

REYKJAVÍKURLJÓÐ – KLM

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Horft til Snæfellsjökuls úr kyrrstæðum strætó

Rakt pappírsrifrildi loðir við himininn
ég fletti Snæfellsjökli af rúðunni
og punkta hjá mér það sem ég
hefði átt að segja við þig:

1) undir gljáspegilsléttu yfirborði
er grjót sem er grjót
2) snjór bráðnar;
verð fell sem er fell

Snæfellsjökli verður fleygt í ruslatunnu
mun brotna niður innan um bananahýði
pappamál, gosdósir, nammiumbúðir
úrgang sem er úrgangur

3) ljóð skjalfesta landslag;
tilfinningar rotna

Kári Tulinius
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013

Stundum munum við samtímis eftir dauðanum og grípum fyrir munninn

Lofttæming umbúða á sér stöðugt stað,
heggur heiminn minn sundur,
hvílíkt undur.

Sæði eða mold
annað hvort
sæði eða mold,
kista eða bál,
hirsla eða sál,
upplausn eða ofn.

Við erum alltaf rétt ódáin,
alltaf heppin,
svona furður,
svona hylki,
svona gasólín blettuð
og full af reyk.

Kristín Eiríksdóttir
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013
 

Blómin á pilsum kvenna

Úr þokulúðrum skipanna fljúga blóm og lenda á pilsum kvennanna og festast. Ef kona er skapstór fljúga til hennar skærlita blóm. Ef róleg mild jarðleit. Ef hún er skemmtileg risastór og opin blóm. Ef hljóð og fer ekki útúr húsi laumast gleymméreiarnar að henni meðan hún sefur. Og hún vaknar í náttkjól með bláum blómum. Glatíjólur þegar kona er brjáluð. Peningablóm ef hún er nísk og gáfuð. Allar konur fá sinn rósartíma ef þær bíða. Og flugublóm ef þær skoða vel sig og sína. Ásttrylltar fá þær eldliljur um sig allar en ef kona er stelpa sem er kona sem er stelpa sem er alltaf að hugsa um kynlíf í fyrsta sinn setjast baldursbrár á pilsið hennar, hugg’ana/hræð’ana, hugg’ana/hræð’ana, hugg’ana/hræð’ana. Flamingóblóm koma þegar kona er að verða gömul.

Úr þokulúðrum skipanna fljúga blóm.

Kristín Ómarsdóttir
Einu sinni sögur. Mál og menning, 1991
 

Sérstakur dagur

Vindurinn er hamingjusamur í dag.
Í hvert sinn sem ég vík mér undan mætir hann og faðmar mig að sér.
Það vildi ég að fleiri dagar væru sem þessi.

Kristín Ómarsdóttir
Lokaðu augunum og hugsaðu um mig. Mál og menning, 1998.

Atburðir í Reykjavík — brot

Prentarafélagið sækir um styrk til að senda mann á prentlistarsýningu í Leipzig
barn verður fyrir bíl
ber fátækrasjóði Reykjavíkur að taka nokkurn þátt í kostnaði við gæslu vitskerts manns?
landmælingamenn herforingjaráðsins ákveða legu borgarinnar á hnettinum
ljós er kveikt í glugga
áður en gengið er til borðhalds á Hótel Reykjavík
gerir læknir experiment með röntgengeisla á nítjánda fundi verkfræðingafélagsins
kona stelur átján krónum, eyðir í eigin þarfir
franski konsúllinn kærir útsvar hjúkrunarkonu við franska spítalann í Reykjavík
kvöldmaturinn er tilbúinn, það er kallað
mormóni er sýknaður af óleyfilegri lausamennsku þrátt fyrir að hafa predikað í trássi við bann lögreglustjórans
Jón Borgfirðingur gefur þjóðminjasafninu ljósmynd af Katanessdýrinu
Margrét var blind frá bernsku, fær sýn
á vakningasamkomu
endurnar hefja sig kvakandi á loft yfir mýrinni
strætó seinkar

Kristín Svava Tómasdóttir
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013.
 

Engey í þröngum glugga

Hvítur gluggakarmur til vinstri
sker eyna í tvennt aftan við ugga
og sporður hennar mjókkar ört

handan eyjar velta bátar
á leið út tveir bláir einn grænn
undan börðum hennar

hér liggur eyjarsporðurinn grár hákarl þvert
yfir miðjan glugga blaðka hans
grænkar af snerting við bláan sjóinn

vorlitur
grænn órói sem öðru hverju kippist við
um leið og eyjan hagræðir sér

eftir ljósi dagsins, einn
rauður mávur hefði farið vel
í þessum glugga.

Kristján Karlsson
Kvæði 90. Almenna bókafélagið, 1990

Haustlag

Ég man ekki margt
en ég ætla að muna morguninn
sem ég þóttist heyra að fuglasöngurinn
væri kröftugri á haustin en á vorin og sumrin

þú fórst í hvíta skyrtu
til að gegna bendingu úr draumi
og haustið var stillt og lygnt
eins og þér fannst það eiga að vera.

Linda Vilhjálmsdóttir
Klakabörnin. Mál og menning, 1992.

Hörpusláttur

I.
Ég syng um þig borg.
Og gamlar götur horfa í sál mina
og spegla hugsanir mínar og þrá
sem var eins saklaus og stjarna yfir Betlehem.

Þú talaðir við mig.
Og eggjandi nætur hlógu í fangi þínu
Og mislyndir dagar grétu í brjósti þínu
Og hvítar stjörnur spegluðust í svörtum augum
og gráum einmana götum,
þegar ég lék á hörpuna og orti sönginn um sjálfan mig.

Og ég horfði í andlit þitt
rjóður af heitri æsku
og ég horfði í götur þínar
ungar nýlagðar götur
með varir votar af tjöru
og þær þrýstu heitum barmi að köldum fótum.

2.
Og ég beið eftir svari:
hvítir mávar brýndu nef sín
á kollóttum steini við hafnarvitann
og hrúðukörlum
á Kolbeinshaus

ó borg:
og þeir þöndu vængi sína
og hann elskaði hana með gulu nefi
og glampa í heitu auga,

svo flaug hún af stað
lengra og lengra
og hann horfði á eftir henna,
þegar skuggi hennar hvarf
inn í hvíta sól.

3.
Ég syng um þig borg og hús foreldra minna
og götur þínar sem liggja inn í hjarta mitt
og binda okkur saman
eins og dauðinn líf og eilífð.
Í brjósti mínu berst hjarta þitt
og ljóð þitt fyllir eyru mín,
þegar þú leikur á hörpuna
við lækjargötur og torg.

Matthías Johannessen
Borgin hló. Helgafell, 1958
 

Milligrömm

Ökklar okkar allra bera innra með sér
nokkur auka milligrömm…
það er þyngd þeirra skrefa sem enn eru ekki gengin.

Mazen Maarouf
Ekkert nema strokleður. Reykjavík. Dimma, 2013.  Kári Tulinius þýddi ljóðið.

Borgarblús

Mig sárvantar vin já það er sama hver hann er
ég sit hér á því rassgati sem er undir sjálfum mér
og sýp hveljur – sýp hveljur og lep dauða úr skel
ég veit sosum ekki hvernig þetta endar en allavegana ekki vel

Það er lítið vit að sýta vonlausa ást
eða væla yfir því sem aldrei mun fast

Nei við þessu er ekkert að gera nei því verður ekki breytt
ég veit ekki til að neitt dugi yfirleitt

Það er tímasóun að gráta þessi týndu og gleymdu ár
það tekur því ekki nei ekki frekar en afklippt hár

Það er eitthvað voðalegt að mér en ég veit ekki hvað það er
það er væntanlega pestin það er þá eitthvað sem hæfir mér

Jæja ég hef búið hérna á barnum öll mín ár
nei ég býst ekki við að mér líði neins staðar annars staðar skár
og ég sit hér og sötra dauða úr krús
og ég söngla mig hásan þennan líka kræsilega borgarblús

Megas
Höfuðlausnir. Gramm, 1988.
 

Dagur hjólbarðasalans

Hjólbarðasalinn komst hálfur útum gluggann
þegar heildsölustórhýsið við Suðurlandsbrautina brann
sjálf konungsheimsóknin hvarf inní skuggann
því hver vildi ekki langtum fremur hlýða á hinn staðfasta mann
hálfan útum gluggann og hrærast mátti ei úr þeim stað
helbláan í framan og getur nokkur láð honum það?
fullyrða með tárum: ég er fastur hér sem glöggt má sjá
og fráleitt ofmælt þó ég segi að tækifæri bjóðast fá og smá

en drottinn blessi föðurland vort og forsetann

og þann sem fyrstur manna uppgötvaði hjólbarðann

Á Esjuna sló þessum ámátlega roða
og Akrafjallið skartaði fjólunnar fláa lit
Skarðsheiðin hafði ekki úr ýkja miklu að moða
en mistur huldi jökulinn eða var það geirfugladrit?
Viðey var á svipinn einsog Viðey er tamast
vindur blés ekki einsog ætíð þegar logn er framast
eldurinn var rauður og teygði út úr sér tunguna yfir bæinn
og talsvert bar á ölvun einkum þegar líða tók á daginn

en drottinn blessi föðurland vort og forsetann

og þann sem fyrstur allra manna uppgötvaði hjólbarðann

En allt gekk að vonum og vélabrögð flest komu að gagni
í viðureign biskups var alelda stórhýsið
og prestarnir sýndu sérstakt hugvit og lagni
já samtaka myndarskap öllum kom þetta við
kórdrengir minntu hver annan á sera Friðrik
sem aldrei vékst undan ef beðinn um greiða eða viðvik
hjálparsveitarlimir ásamt hláturmildum nunnum
úr Hafnarfirði veltu upp brekkuna bensíntunnum

en drottinn blessi föðurland vort og forseta

og þann sem fyrstur manna kveikti á hjólbarða

En það má með réttu ljótur leikur heita
og lögreglan fór enda engum silkihönskum um þá
sem æptu: hí á hjólbarðasalann feita
hann hefur um sig miðjan einn gluggakarm og kemst ekkert á stjá
og hann vantar flestöll vitamin frá a til e
og veit ekkert í sinn grautarhaus – né hvað er að ske
yfirheyrslur leiddu í ljós sem menn vissu fyrr
að lögbrjótum fallast hendur þá hallast dyr

en ættjörð vorri drottinn í náð sinni líkn leggi

og linnulaust með þraut því eyrun þau hafa veggi

Og að húsabaki voru fleiri sem virtu
að vettugi staðfestu hjólbarðasalans þann dag
um orðin sem mælti hann ekki baun þau hirtu
nei ekki fremur en hinn dýrðlega helgibrag
hverja spjör af kvenmannsnefnu dró
kroppi rýrum dólgur einn og háhælaða skó
njörvaði síðan niður gleiða við svörð
og nautnaði sér svo dunaði undir jörð

en ættjörð vorri drottinn í náð sinni líknir leggi

án linnu með þrautum því eyrun þau hafa veggi

Hjólbarðasalinn þagnaði er hálfsjö sló klukkan
á Hallgrímskirkjuturni en mælti fyrst og dæsti við:
valt er gengi krónunnar en valtari er þó lukkan
veröld fláa sýnir sig og sú mér engan gefur grið
rauðan í framan rígfastan og sveittan
höfðu rekkar á jörðu niðri heilan dag sjónum leitt hann
hjólbarðasalann fríða og furðu gegndi hvað
svo fárlega leikinn hann mælti þarft og djúphugsað:

drottinn blessi föðurland vort og forsetann

og þann sem fyrstur uppgötvaði hjólbarðann

Er kvölda tók tíndist hver og einn til sins heima
utan kvæðamenn þeir sem orð hins langfasta manns
reyrt höfðu í stuðlanna þrískiptu grein svo að geyma
sem gleggst mætti og lengst í þágu lýða og lands
gengu þeir nú sem gæsir í höllina inn
sem góðum Braga var helguð í þetta sinn
hóf þvínæst hver í horni að kveða sinn brag
af hagleik samsettan um atburð mann og dag

en drottinn blessi fósturjörð vora og forsetann

og þann sem fyrstur mennskra manna uppgötvaði hjólbarðann

En um náttmál var hver sála horfin til síns heima
menn hugðust nú sofa á orðum hins fastnaða manns
og samdóma urðu að aldregi mætti gleyma
þessum atburði svo varðaði hann farsæla framtíð vors lands
og enn í dag lærir hvert mannsbarn af móðurvörum það
sem af munni hans hraut og geymir sér í hjartastað:
ég er fastur sagði hann: en mig fýsir ekki að gerast pressari
og fáir eru kostirnir sem bjóðast í stöðu sem þessari

en drottinn blessi fósturjörð vora og forsetann

og þann sem fyrstur allra manna afhjúpaði hjólbarðann

 
Megas
Svart á hvítu, 2 (1), 1978.  Á plötunni Til hamingju með fallið, 1996
 

Sjáum hvað setur

Því er erfitt að trúa
að við sátum hér síðast í haust.
Núna hangir sólin á fótum
að því er virðist endalaust.

Sólþyrstir stúdentar,
kappklæddir túristar,
heilsast á vegi förnum.
Nýkeyptir íspinnar
svitna og örvænta
og etast af þybbnum börnum.

Og sama hvað amaði að
þarna þegar við kvöddumst
klæðir sólskinið þig sífellt betur.
Dokum hér við
meðan dagsbirtan endist
og sjáum hvað setur.

Því er erfitt að gleyma
sem gerðist hér síðasta haust.
Er það nema von
að ég tali svolítið samhengislaust?

Miðbæjarmömmurnar
dröslast með kerrurnar
daglangt og dreypa á mokka.
Prúðbúnir mormónar,
þræðandi göturnar,
bjóða af sér góðan þokka.

Moses Hightower
Önnur Mósebók. Record Records, 2012