Reykjavíkurljóð – NOP

REYKJAVÍKURLJÓÐ – NOP

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Sunnudagsmorgunn

Í húsinu er allt með kyrrum kjörum
og kaffi sem ilmar svo vel.
Enginn að koma og enginn á förum
Ég set óhreint í þvottavél.

Kötturinn mættur að kíkja á gluggann.
Kauði að tékka á læðunni.
Svo skríður hann aftur beint inn í skuggann
og ég sleppi skammarræðunni.

Það er sunnudagsmorgunn
og sólin hún situr við borðið.
Sunnudagsmorgunn
og allir sem sofa nema þú og ég

Sunnudagsmorgunn
og sólin hún situr við borðið, svo yndisleg.

Bréfarifan upp gin sitt glennir
já, gott er að fá sitt morgunblað
þá les ég um fræga konu sem kennir
að kosmískur tími standi í stað.
Víst eru svarthol og svartir sauðir
og svört er einatt vetrarnótt.
Og ýmsir þeir eru í andanum snauðir
og enn aðrir geta ei sofið rótt.

Ólafur Haukur Símonarson
Á disknum Jón Ólafsson. Reykjavík. Eyrað, 2004
 

Nætur sem daga

Allir vegir geyma ferðalög
allar hafnir brottför og komu
allir stígar leyndar þrár -
nætur sem daga leggja
óræðir draumar af stað
með slitna kápu á öxlum
og hött úr þruski vindsins.

Óskar Árni Óskarsson 
Loftskip. Reykjavík. Bjartur, 2006.

Bergstaðastræti
- úr glötuðu handriti bernskunnar

1957
Ég horfi á hann detta ofan úr stiganum og lenda á
öskutunnunum langt fyrir neðan. Í dauðans ofboði hljóp
ég heim og grúfði mig ofaní myndabók og þorði ekki að
segja neinum að hann væri dáinn pabbi hennar Ingu.
Daginn eftir málaði hann strompinn rauðan, stakk að mér
brjóstsykri og kallaði mig litla verndarengilinn
sinn.

1958
Mamma lét renna vatn í stóra trébalann útí vaskahúsi. það
var vetur og ískalt gólfið stakk í fæturna svo maður þurfti
að vera fljótur að klæða sig úr og stinga sér ofaní heitt
vatnið. Og á meðan hugurinn maraði í hálfu kafi fylltist
vaskahúsið af gufu svo rétt grillti í mömmu þar sem hún
bograði yfir þvottinum og hvarf að lokum á bak við
sængurfötin sem sveimuðu allt í kring eins og vofur. Í svarta
myrkri skutumst við útí portið og upp tröppurnar með
fangið fullt af hvítu taui.

Óskar Árni Óskarsson
Handklæði í gluggakistunni. Blekbyttan, 1986.
 

Endastöðin

Myrkrið byrjað að safnast kringum ljósastaurana. Þegar komið er að Grandakaffi sést í hornið á tvistinum. Brátt koma skýlið og mannlaus strætisvagninn í ljós. Dyrnar á afdrepi vagnstjóranna opnar, bílstjórinn að leggja kapal, hann er með kveikt á litlu ferðaútvarpi og út um gættina berst rödd Billie Holiday. Þetta er endastöð og á kvöldin koma hér fáir inn í vagninn. Þögulir mávar ofan á lýsistönkunum og eftir götunni gengur maður í hvítum frakka með svartan hund. Þeir eiga leið hér um á hverju kvöldi.

 Og nú er tunglið komið framundan skýjunum, bjart eins og trompetið í laginu hennar Billie.Úti á ytri höfninni stígur dökkur reykur upp af ryðguðum togara. Ljósin loga í gluggum Hampiðjunnar. Þar er unnið á vöktum alla nóttina.

Óskar Árni Óskarsson
Myrkrið kringum ljósastaurana. Bjartur, 1999.

eitt

af jarðarinnar hálfu
byrja allir dagar fallega
þolinmóð snýst hún og snýst
með trén og höfin og vötnin
eyðimerkurnar og eldfjöllin
okkur tvö og ykkur hin
og öll dýrin

Pétur Gunnarsson
Splunkunýr dagur. Heimskringla, 1973

sex

2.

eitt af öðru uppljúkast húsin
útúr þeim stígur fólk
útí nýjan dag
sem hefur aldrei verið áður
sem kemur aldrei aftur
það ætlar að gangsetja daginn
kveikir sér í sígarettu
gengur hratt upp og niður strætin
sorpmennirnir rífa ruslið af köttunum
flugvél sett á loft
lest af stað
úr öllum áttum streyma vörubílar
með varning fyrir borgarann
í höfninni blunduðu skipin
nú er ristur upp á þeim kviðurinn
tættur úr þeim varningurinn
skerið tíuþúsund nautgripi einsog skot
rotið og plokkið hundraþúsund hænur

Pétur Gunnarsson
Splunkunýr dagur. Höfundur, Reykjavík, 1979.