RST

REYKJAVÍKURLJÓÐ – RST

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Borgir og strendur

XXI

Augnaráð borgarinnar voru svo margræð að mig
svimaði við að mæta þeim: – hin undirförulu augnaráð
og hin ísmeygilegu, og hin yfirgefnu og hin ofurseldu,
og þau augnaráð sem loguðu í furðulega næringarfrekum
eldi og önnur sem voru að því komin að slokkna, og hin
blindu augnaráð, og þau augnaráð sem allt skynja; og
hefði mig aðeins langað til gat ég án efa greint hin eitr-
uðu augnaráð sem fræðimenn minnast stundum á. En
mest varð mér um að mæta hinum frökku augnaráðum
og hinum bljúgu, ég sá hvað þau eru umkomalaus og
hve eðli þeirra er skylt, þau minntu mig á svo margt og
svo margt, þau minntu mig á hin tæru augnaráð sem ég
leitaði lengi nætur en fann ekki.

Sigfús Daðason:
Hendur og orð. Heimskringla, 1959

ÁRSTÍÐASÓLIR

III

Í hörku morgunvindsins
í þessari borg við Syðri Tjörnina
geng ég um í iðandi bylgjuhreyfingu vitundar
í þessu ormlausa umhverfi
þar sem hvergi er vottur blossandi bylgjuforms
hvergi nautnalega svarta netsokka að sjá

Í hörku morgunvindsins:
allt virðist híma
stráin fólkið mölin
vatnið jafnvel gott vatnið er dautt og gutlar falskt
upp að samanbitnum ormlausum grasflötum

Í hörku morgunvindsins

og fólk vopnað lyklakippum
rasssíðar frænkur og undirokaðir frændur
paufast um á köldum eyðisöndum lífs síns
þar sem hús þess standa vörð um líf þess
(timbruð í byrjun vikunnar
eins og nýbaðaðir kettir)
bolast þau áfram í söknuði eftir framtíðinni
hlakkandi til fortíðarinnar
flýta sér undan nútíðinni

Ég geng um flatlendið angistargöngu
læt iðandi bylgjuhreyfingu fara eldi um hug minn
Brostin augu stráanna ryðjast inn í vitund mína
eins og hráviði
og spanskgræn styttan af Jónasi
stingur í stúf við bunulæki
og bakkafagrar ár hugans

Ó mig minnti að þessi borg væri brosandi kona
sem austanvindurinn svæfi hjá
niður eftir Laugaveginum og Austurstrætinu
og lognaðist útaf á Hallærisplaninu framan við Moggann

En ég geng með iðandi bylgjuloga í höfðinu
sé fólk í óðaönn að tína saman brot
úr lygi raunveruleikans
Málmar og viðir og gler
þvælast sífellt fyrir því
Draumheimar þess týndir
í bylgjulausri vitund
og guðsgræn náttúran
leggur á flótta undan því

Í hörku morgunvindsins
held ég höfðinu milli handa mér

Ó ef kæmi loksins regn
og færi kitlandi samhengislausum höndum
um höfuðið

Opnaði höfuð mitt
svo heilinn yrði sólbrúnn og hraustlegur

Opnaði höfuð mitt öllum heiminum
eins og páskaegg fullt af málsháttum

Sigurður Pálsson
Ljóð vega salt. Reykjavík. Heimskringla, 1975.
 

Miðbærinn í Reykjavíkurborg

XXI

Börn og hrafnar!
Já leikiði ykkur bara
Í Alþingisgarðinum!
Við Edgar Allan og Jónas
bíðum eftir ykkur á meðan
á Borginni

Sigurður Pálsson
Ljóð námu land. Forlagið, 1985.
 

Miðbærinn í Reykjavíkurborg

XXVVII

Ljóðskáld
er krabbameinslæknir
tungumálsins

Sigurður Pálsson
Ljóð námu land. Forlagið, 1985.

Vorkvöld í Reykjavík

Blaðasalinn æpir fyrirsagnir

Skip blæs til brottfarar

Læðist um garðana köttur
Innan í honum aðrir kettir
Innan í honum níu kettir
Hver og einn hefur níu líf
Það gerir níu sinnum níu
Plús níu líf móðurinnar

Læðast um garðana níutíu líf

Fyrirsagnir fölna

Skipið fjarlægist

Sigurður Pálsson
Ljóð námu land. Forlagið, 1985.

Hringbraut

Stystu ferðirnar
eru erfiðastar
að heiman út í banka
af læknastofu út á
stétt
snúið
getur einnig reynst
að komast yfir götu
við gönguljós
ökumenn allir á
gægjum
bak við rúðurnar
hrímaðar til hálfs
aldrei víst
hvað
er
íshröngl
og
hvað
augu.

Sigurbjörg Þrastardóttir
Hnattflug. JPV forlag, 2000.

 


Reykjavík I

Fyrst var ég feimin við þessa borg: háreysti á stórum bílastæðum
ljóðskáld í kjöllurum önugir vagnstjórar og öll þessi banvænu
gatnamót nafnlausar afgreiðslukonur í bókabúðum hallir nefndar
eftir bændum og templurum og stórvirk snjóruðningstæki um
nætur fyndin götuheiti ísbúðir svanir og styttur af kölkuðum
stórmennum en svo fór ég að rekast á villiketti og fjöll eins og
heima.

Sigurbjörg Þrastardóttir
Hnattflug. JPV forlag, 2000.
 

Sörlaskjól

Einhver hefur ætlað
að mála sólsetur
en
misst pensilinn.

Sigurbjörg Þrastardóttir
Hnattflug. JPV forlag, 2000.

Höfðatún í norðaustur

N64°08’63” / V21°54’46”

Ávallt skal aka á minnsta mögulega hraða niður boulevard brostinna drauma. Sjá ofsjónum yfir hvíta húsinu sem franski maðurinn og sjóskáldið hýstu. Og þurrka 1968 úr undirmeðvitundinni. Skoldra frekar augunum til hægri í hægum gír og sjá grilla í eyjuna sem munkarnir yfirgáfu forðum. Eða horfa beint framan í fjallið sem þú munt aldrei klífa.
Viljirðu dvelja í útsýninu er ódýr bílaþvottastöð á svörtu, rétt handan við hornið hjá Skattrannsóknarstjóra. Þá geturðu sleppt takinu af stýrinu, lallað niður Steintún og gírað þig niður. Og til að tefja tímann skroppið inn í raftækjaverslunina eða tekið spássetúr meðfram sjónum, eins og mávur. Í humátt á eftir útsýni að narta í og fjalli til að sigra, í huganum.
Þá er ekki úr vegi að leggja lykkju á leið sína, taka stefnuna austur Borgartúnið og klífa stiga glerhýsisins. Á efstu hæð þykist þú vera staðfastur ríkisstarfsmaður, sest niður við útsýnið og gæðir þér á ódýrum hádegismat. Ofan úr háhýsinu sýnist sjórinn grænn, eins og hvert annað tún og bátarnir jórtrandi beljur sem liggja á meltunni. Engey er kúadella á miðju túni. Síðan kveðurðu starfsfólk mötuneytisisins, eins og það geti búsist við þér á hverjum degi héðan í frá, og gengur til baka að Höfðatúni. Leggjst á meltuna í grasinu við hvíta húsið, kremur sóleyjar undir olnboga en stendur upp til að taka annan spássetúr meðfram sjónum. Því þér líður eins og belju eða báti, þú veist bara ekki hvort. Þú veist aðeins að niður breiðstræti vonlausra daga skal ávallt gengið á minnsta mögulega hraða.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Fjallvegir í Reykjavík. Nykur, 2007.
 

Fjöllin tukta þig til

Aðvörun til borgarkrimma

Fjöllin, þessar forvitnu þústir, hafa vökulli augu en nokkur öryggismyndavél. Sterkara minni en nokkur samviska í sálarkimum. Þú ert fjórtán ára og uppsöfnuð reiði sem ólgar um æðar. Og þótt þú rænir bíl, akir yfir hámarkshraða og klessir að lokum á ljósastaur þá þýðir ekkert fyrir þig að hlaupast á brott, laumast inn í næstu sjoppu eins og ekkert hafi í skorist og kaupa kók og prins. Því nætur þínar verða svefnlausar og samviskubitið nagandi og tærandi.
Fjöllin. Þessar ábúðarfullu þústir minna þig öllum stundum á brot þín – þegar þú gengur um göturnar, slæpist um stíga eða húkir í strætó.
Keilir bendir íbygginn til himna og minnir þig á þann herskara himneskra engla sem fylgist með afbrotaferli þínum. Esjan fylgir þér eftir, læðist aftan að þér, frá hliðinni eða flaðrar beint í flasið. Úlfarsfellið hvæsir og Akrafjallið öskrar. Skarðsheiðin sendir til þín umvöndunarorð með vindinum. Orð sem segja að allt fari á versta veg og að heimsendir bíði þín handan við hornið.
Fjöllin. Þessar freku þústir tukta þig til svo þú átt ekki stundlegan frið. Þú ert hvergi óhultur og engu breytir þótt þú forðist fjallvegi í Reykjavík, veljir troðninga milli húsaþyrpinga eða djúpar og dimmar kjallaraholur. Fjöllin leita þig alltaf uppi, fjöllin rata líka í kjallara og þau linna ekki látum fyrr en þú gengur inn á stöðina með játningu upp á vasann.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Fjallvegir í Reykjavík. Nykur, 2007.

Rigning í Reykjavík

Rigningin leggst yfir og húðar Reykjavík gleri
Götur og torg, blokkir og kirkjur glitra
Í brothættu skini endurminninga
Situr skáeygður malaria á garðstól undir
Úrhellinu alsæll og fagnar flóðinu að ofan
Sem skolar litnum af augum hans niður kinnar
Kryppan rennur af þessum skakka á heimleið
Og klumbufóturinn réttist í töfraregni
Glerið leggst á tösku blaðasalans og svæfir rödd hans
Þar til ekkert heyrist nema fótatak konu með glerperlur
Í hárinu og þær hrynja af öxlum hennar
Í brothættri birtu endurminninganna
Sem flæðir um húsið og það fyllist brátt
Vatni og nær mér í háls ósyndum

Sindri Freysson
harði kjarninn (njósnir um eigið líf). Forlagið, 1999
 

Næturljóð

xvii

þú fannst þetta egg
og þú hlúðir að því
í þeirri von
að út úr því brytist blóm.

Nú brotnar skurnin
við horfumst í augu …

Sjón
Maddonna. Ljóð. Höfundur, 1979

söngur steinasafnarans

ég man þorstann og myrkrið
ég man einstefnugötur
ég man lokuð sund
og þig

þú bentir á kjallaradyr
þar var áður knæpa
sem við sóttum
stíft

hér er það sagðir þú huggandi
steinasafnið þitt
það er ekki
týnt

í hillunum bak við barborðið
bíður silfurbergið
grjótið mitt
allt

brennisteinn – pýrit – ópall
og jaspis – kæru vinir!
engu ykkar hefi ég
gleymt

en hátt uppi undir lofti hanga
hrafntinnubelgirnir
þungir af
kvíða

*

s-t-e-i-n-s-m-u-g-a
þú ert ljóðið sem ég syng
á hækjum mér undir húsvegg
þegar veturinn neitar að hýsa mig

Sjón
söngur steinasafnarans. Bjartur, 2007
 

Hitt

Þetta hefur verið allra sæmilegasti dagur
og margt borið fyrir augu,
en nú er líklega mál að rölta heimleiðis.

Undir rökkur mætirðu sjálfum þér,
og þér hverfur öll feimni
þegar þú sérð að þú hefur verið
að enda við að mála grindverkið
í uppáhaldslitnum þínum.

Stefán Hörður Grímsson
 

Sólskin á Austurvelli um hádegisleytið

Til Elsu

Dökkhærða stúlkan sem starfar í banka
kemur sunnan veginn við völlinn að austan
heit af göngu með frjálsleik í fari
á leið til vinnu á ný eftir hádegishléið
Fólk sér hana fjarlægjast
með hvítt ljóð uppúr hvirflinum svarta

Stefán Hörður Grímsson
Tengsl. Mál og menning, 1987.
 

Miðvikudagur

Miðvikudagur. – Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stýfið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. – Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,
og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin bers múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr’á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. – Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn.

Steinn Steinarr
Rauður loginn brann. Höfundur, 1934.
 

Brotnar borgir

II

Borg næturfrostanna löngu

Hraglandaborg
skjálfandi elskenda með krókloppna fingur.

Borg innlyksa gamalmenna í vetrarhálkum.

Borg barnavagna sem börnin aka.
Borg óbærilegrar birtu, andvökuljós,
borg svefnsins langa í myrkri eftir myrkur.

Borg heitra timburhúsa með sjálflýsandi bárujárnsþök,
borg dularfullra steinhúsa frá millistríðsárum.
Umlukin grunsamlega stórum görðum.

Borg sovéskra fjölbýlishúsa,
einbýlishúsa í spænskum og kínverskum stíl,
höfuðborg bíslaga og skældra kvista,
borg hálfsneiddra húsa á langveg eða þverveg.
Þar er hús ekki hús heldur afstætt hugtak.

Umfram allt höfuðborg vindanna,
sviptivinda sem teygja gluggaplast nýbygginga,
vinda sem sveifla barnlausum rólum,
vinda sem fella spóaleggjaðar konur í heilsárskápum.

Vinda sem neyddu borgarbúa að lokum inn í kuldagalla.
Þeir eigra um götur sem bjarndýrahjarðir
endurskínandi borðalagðar.

… og enginn veit hvaðan vindurinn blæs í borginni,
ekki blæs hann af hafi eða fjalli,
hann sogast og snýst niður í spíral og upp
vindur úr jörð og vindur að ofan.

… höfuðborg heimsins vinda.

Kófdrykkjuborgin, glerbrotanáman,
borg öskurapanna
þar sem mannanöfn eru hrópuð fyrir horn
fram á rauða morgun: Siggi, Siggi, Siggi, Sigga, Sigga, Sigga,
Og vindarnir knýja bergmálið hring eftir hring …

í höfuðborg kaldra sólbaða
þar sem konur á nærbuxum leggjast undir hvaða glætu sem er.

Borg fyrirferðar:
fjallajeppa, árekstra, loftpressuborg.

Borg kirkjugarða þar sem hinn látni er SKÁLD
og enginn hefur heyrt hans getið.

Aðrir heita SKÓGRÆKTARMENN á legsteinum
og hvíla í margföldum friði.

Því eftir þeirra daga vaxa trén.

Þau sem taka á sig vinda endalaust án þess að brotna,
þau sem breiða út langan faðm
og skýla fjúkandi boltum vansvefta barna.

Steinunn Sigurðardóttir
Hugástir. Mál og menning, 1999.
 

Gróður himins og jarðar

6
Seint í nótt, undir morgun
leggurðu leiðina einn
í stjörnuverksmiðjuna.

Ég verð á vakt í grænum slopp
að mala þér stjörnur i stórri vél.

Við munum leggja okkur fram
taka þakið af húsinu
og sleppa þeim út í daginn.

Steinunn Sigurðardóttir
Verksummerki. Helgafell, 1979.
 

Haust í borginni (brot)

Ég sé það á öllu, að sumarið er á förum –
Ég sé það á fótataki og andlitum mannanna.
Það er eins og öllum sé kalt
og allir séu að flýja
eitthvað, sem er alltaf komið á undan þeim.
Og þeir hraða sér heim,
heim, gegnum myrkrið,
og segja við sjálfa sig þegar inn kemur:

Það var þó gott, að ég komst undan!

En bráðum fjölgar í bænum.
Gangstéttin fyllist fólki.
Það flæðir um strætin
í hattakaupum og húsnæðisleit.
Það eru ungar stúlkur utan af landi,
með óráðið göngulag
og undarlegar hugmyndir um ástina.
(Viðmót þeirra vitnar
um væntanlegar freistingar,
sem hjörtu þeirra hlakka til að standast).
Og það eru ungir menn að austan,
sem ætla sér að menntast,
og vinnumenn úr sveit,
með viðkvæm hjörtu,
sem kaupakonan brást. –

Sjá, þannig liggja leiðir allra í bæinn,
og þúsund augu hvarfla þangað á haustin,
því þúsund hjörtu eru þreytt
á rómantík dimmra dala,
þar sem dauðinn grúfir yfir sofandi sveit.
Og þúsund hjörtu eru þreytt
á skáldskap skuggalegra sæva,
við eyðilegar afskekktar strendur.
Og unga kynslóðin kveður
firði og heimahaga,
og heldur í bæinn. –
En lengi enn
ber fólkið framandi ásýnd
eyðileik dalsins
og úthafsins þunga svip.
Því húsin minna á bernskunnar hamraborgir,
og hjörtun grunar
hrannir þrjótandi brims
á bak við hávaða og hlátur strætanna.

En lífið nýja hastar á óróleik hjartans.
Það hvíslar nætur og daga í eyru gestsins:
Má ekki, vinur, bjóða yður í Bíó?
(Bláa dansmærin, sýning í 11 þáttum).
Var ekki lagleg stúlkan í Austurstræti,
sem stóð við gluggann og púðraði litla nefið?
Hvað virðist yður um eina flösku af víni?
Ættum við kannski að mætast á Hótel Borg?
Við gætum farið á dansleik í Iðnó á eftir!
Og eftir – ?

— Þannig er bærinn.
Því bærinn er þrátt fyrir allt
hin brosandi veröld
á bak við myrkur og regn!

Tómas Guðmundsson
Fagra veröld. Reykjavík, 1933.