ÞÆÖ

Reykjavíkurljóð – ÞÆÖ

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Morgunn

Einn stálbjartan morgun
gengur guð um strætin
og heyrir einungis tölvunnar tif
í turnum hljóðum.

Vistleg er borgin;
vélmenni hafa sópað
leifum fólksins
í luktar þrær.

Samt er guð ekki glaður.
Hann gengur um staðinn
líkt og hann óski
að geta þó sagt um síðir:

Enn er hjarta hér og slær.

Þorsteinn frá Hamri
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013.
 

Dagtröll

Tröll eru fámenn
og stórvaxin stétt
taka sjaldan til máls

Við nemum ekki tíðnina
þegar tröll kallast á

Ég hélt mig eitt sinn heyra Esjuna
bjóða öðru fjalli góðan dag
eftir andvökunótt í björtu

Þá opnaði ég rásina
svo ég yrði aftur
eins og við hin

Þóra Jónsdóttir
Á hvítri verönd. Brún, 1988.
 

Hugsað

Er skuggar húsaraðanna
hafa fylgt þér langt

þú horft nægju þína
í sýningargluggana

æðasláttur götunnar
leikið þér öll sín stef

þá minnstu þess
hve landið á margan mjúkan skorning
milli þúfna.

Þóra Jónsdóttir
Horft í birtuna. Fjölvi, 1978
 

Hagmælisgrey um ljóðið

Víst er það löngu ljóst og bert
að ljóðið ratar til sinna.
Samt finnst mér ekki einskinsvert
að ýta því líka til hinna.

Þórarinn Eldjárn
Hættir og mörk. Vaka-Helgafell, 2005.

Vormorgunn í borginni

Blundar borg undir
bútateppi þaka.

Mætast
nátthrafnar og morgunhanar
á miðri leið.

Vaktaskipti
nei fangaskipti
á brú í köldu stríði.

Galast á
krunka saman.

Koma fornar strætóleiðir í hug.
Spretta óboðnar
upp úr bílvistarlögum
malbiks.

Þórarinn Eldjárn
Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík. Meðgönguljóð, 2013
 

Geðveikisbakteríur

Þegar hversdagslíf verður of yfirþyrmandi má gerast önnur
kona í svona klukkutíma.

Ég ek upp í Grafarvog og þykist vera á leið heim í einbýlishús
í botnlanga í Hamrahverfinu. Á meðan hugsa ég um líf mitt
sem Guðrún Ásdís Sigurðardóttir gift Birgi Gylfa Ásgeirssyni,
sem er kallaður Biggi, og við eigum unglingsdæturnar
Emmu Björt og Agnesi Heiðu. Ég ákveð að ég sé með tvílitar
Gjaldkerastrípur í millisíðu hári og skreppi stundum
í World Class í Spönginni á smábílnum
sem maðurinn minn kallar innkaupakerruna.

Biggi er hress og glaðbeittur náungi,
aðeins í þyngri kantinum, verkfræðingur á Land Cruiser.
Hann gengur í Dressmann-fötum í vinnunni en heima er hann
kannski í pólóbol með krókódíl
eins og íslenskur verkalýðsleiðtogi.
Í kvöld fer hann á pöbb með strákunum og ég kem við á
vídeóleigunni og næ í Legally Blonde til að horfa á með
dætrunum og kannski fæ ég mér einn hitaeiningaskertan bjór.

Ég fann viðeigandi hús með jeppa og rauðum smábíl fyrir
framan tvöfalda bílskúrinn og var næstum búin að leggja
bílnum við gangstéttarbrún þegar ég áttaði mig.
Þá umturnaðist ég snarlega í sjálfa mig og fór að hugsa
um hvað ég hataði botnlanga og yrði vond við Birgi Gylfa
og pirruð á helvítis gasgrillinu hans og béarnaissósunum,
Celine Dion-diskunum og golfsettinu og yfir því hvað hann
væri alltaf óþolandi hamingjusamur og ég myndi fara
svívirðilega illa með hann, skilja og flytja til útlanda
eða vestur á Ljósvallagötu og gerast bóhem en vera samt
með svæsið samviskubit það sem eftir væri ævinnar
yfir eigin illmennsku og vanþakklæti.

Þórdís Gísladóttir
Leyndarmál annarra. Bjartur, 2010