UVY

REYKJAVÍKURLJÓÐ – UVY

Ljóð eru í stafrófsröð eftir fyrsta nafni höfundar.

Smelltu á viðkomandi reit til að stökkva fram eða aftur í stafrófsröðinni:

ABD | EFG | HIJ | KLM | NOP | RST | UVY | ÞÆÖ

Aftur til aðalsíðu Reykjavíkurljóða


Reykjavíkurstemning

Árum saman hef ég gengið um göturnar hérna
og minnst fjallanna heima.
Þar tylla Fjósakonurnar sér á Flannann
og Máni karl réttir nefið upp fyrir Grýtuna.
Vetrarlangt liggja Strandartindur og Bjólfur
undir hvítabjarnarfeldum og telja á sér tærnar.
Það kemur fyrir að þeir aka sér ögn
og hrista af sér óværuna.

Ó, sú gleði, þegar þúsund táralækir
hrynja niður tröllslega vangana
og milljón bláklukkur hringja sumarið inn.
Nú er Esjan fjallið mitt,
því sumarlangt hef ég reikað um garðana
og sýnt sonum mínum túlípana og liljur,
þeir þekkja ekki Flannann eða Grýtuna,
og fjarlægðarblá Esjan er orðin fjallið mitt.

Vilborg Dagbjartsdóttir
Dvergliljur. Helgafell, 1968.
 

Á fjórðu hæð við umferðargötu

Bílarnir hnipra sig á stæðinu
eins og hræddar skjaldbökur
eða mýs.
Mig langar niður til þeirra
og strjúka þeim.

Vilborg Dagbjartsdóttir
Dvergliljur. Helgafell, 1968.

Sérstakur dagur

Sumir dagar eru einhvern veginn sérstakir
þú finnur það um leið og þú vaknar
jafnvel áður en þú opnar augun
eftirvæntingin hríslast um þig
og þú veist að einmitt í dag gerist það
þú hlustar eftir hverju orði
og fótataki
svo allt í einu
þar sem þú stendur á götunni
á leið í sendiferð
þá sérðu glampa í mölinni
og þarna liggur perla
þú tekur hana upp
andartaksstund heldur þú henni í lófanum
og finnur öryggi
og frið
streyma frá henni
þú segir engum frá þessu
vegna þess að í raun og veru gerðist ekkert
þetta var bara ómerkileg glerperla
samt flutti hún þér skilaboð
dularfull og náin
aðeins þér
alla ævi manstu daginn
daginn þegar þú fannst perluna

Vilborg Dagbjartsdóttir
Klukkan í turninum. Forlagið, 1992.