Lestrarhátíð í Bókmenntaborg var sett 1. október

Lestrarhátíð í Bókmenntaborg var sett við hátíðlega athöfn sl. laugardag. Hátíðin í ár nefnist Meira en 1000 orð og er sjónum beint að samspili orða og mynda.
Lífleg dagskrá er allan mánuðinn og er hægt að skoða dagskránna hér á vefnum. Í ár er Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fimm ára og verður því einnig fagnað í október.

Hátíðin var sett við Laugaveg 21, Kaffibrennsluna, þar sem skáldið Elías Knörr og myndlistarkonan Elín Edda afhjúpa verk sitt, „Morgunsárið er furðufugl“.

Elías Knörr og Elín Edda

Verkið er hluti af verkefninu Orðið á götunni sem samanstendur af sjö orð- og myndlistaverkum eftir 14 höfunda sem finna má víðsvegar um Reykjavík í október.

Annað listamannapar Lestrarhátíðar, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Kött Grá Pje flytja textamiðaðan gjörning ásamt tilheyrandi hljóðum en þau eru bæði ljóðskáld sem vinna einnig með mismunandi útfærslur á textum, hvort sem það er í rappi, myndlist eða öðru.

Ásta Fanney og Kött grá pje

 

Líf Magneudóttir forseti Borgarstjórnar

Líf Magneudóttir, nýskipaður forseti borgarstjórnar setti hátíðina á þessum orðum:

„Kæru borgarbúar – lestrarunnendur, listamenn og skipuleggjendur.

Í dag setjum við lestrarhátíð bókmenntaborgarinnar í fimmta sinn. Hátíðin verður út um alla borg og fyrir unga sem aldna. Í ár ætlum við að velta fyrir okkur samspili orða og mynda – myndir í orðum og orðum í myndum. Og allt þar á milli. Oft er sagt að ein mynd geti sagt meira en þúsund orð. Samspil mynda og orða er samt ekki svo einfalt. Barnabókin „Selur kemur í heimsókn“ er t.d. lúmsk lexía í myndmáli og merkingu orða. Fyrir ykkur sem ekki þekkið til þá fara myndirnar og textinn ekki saman – a.m.k. ekki þannig sem okkur hefur verið kennt. Myndir miðla þannig ekki alltaf beint og áreynslulaust merkingu eða skilaboðum.
En orð og myndir haldast vissulega í hendur. Við notum orð til að lýsa myndum sem við höfum séð, hvort sem þær eru eitthvað í ytri veruleika okkar eða í hugarheiminum. Að sama skapi notum við orð til þess að skilja myndir. Sem vekur upp þá spurningu hvort við getum skilið hluti sem ekki eiga sér nafn og merkingu?

Í leikritinu Rómeó og Júlía spyr Júlía: „Hvað felst í nafni? Myndi það sem við köllum rós, ekki ilma jafn dásamlega hvaða nafni sem hún nefnist?“ Og svo sannarlega breytum við ekki lyktinni. En hvernig er með Þórðargleðina. Myndi hún vera jafn innileg ef hún ætti sér ekki nafn? Fyllast aðrir en Íslendingar og þeir sem þekkja alþjóðlega orðið schadenfraude einhvern tímann gleði yfir óförum annarra? Getur sú gleði orðið sönn án þess að eiga sér nafn og þar með tilveru? Og það sem er jafnvel enn betri spurning – er Þórðargleði eins og schadenfraude?

Hugtökin ráða þó ekki öllu. Stundum stöndum við frammi fyrir aðstæðum sem við eigum erfitt með að færa í orð. Við horfum á málverk sem vekur tilfinningu sem verður ekki útskýrð. Við borðum mat sem hefur bragð sem við getum ekki lýst.

Ég ætla svo sem ekki að verða of heimspekileg hér en þar sem hátíðinni er ætlað að vekja athygli á tengslum mynda og orða langar mig að skilja ykkur eftir með hugsunina hvort nokkuð geti verið raunverulegt sem ekki á sér nafn.

Í mínum huga skipta orð máli. Sögurnar sem við lesum, heyrum og segjum skipta líka máli. Orðin dýpka skilning okkar á okkur sjálfum og heiminum í kringum okkur. Og út á það gengur lífið … og þessi lestrarhátið. Að finna okkur og njóta þess sem listin, lesturinn og myndmálið gefur okkur.

Og nú ætla ég ekki að láta ykkur bíða lengur og því set ég formlega lestrarhátíðina í Bókmenntaborginni. Ég færi listmönnunum og öllum því fólki sem tók þátt í að koma hátíðinni upp bestu þakkir fyrir þeirra verk og einnig þeim húseigendum sem lánuðu húsgaflana sína. Og síðast en ekki síst þá vil ég þakka ykkur öllum – borgarbúum – fyrir að vera með.

Til hamingju með lestrarhátíðina.“

Við Laugarveg 21

 

Ljósmyndir: Roman Gerasymenko