Dagskrá 2016

meira-en-1000

 

Lestrarhátíðar í ár kannar samspil ORÐA OG MYNDA undir heitinu MEIRA EN 1000 ORÐ. Hvernig hjálpar myndlestur okkur að skilja og túlka heiminn og hvernig vinnur hann með orðlistinni? Að sama skapi er sjónum beint að því hvernig orðlistin fær vængi með litríku og lifandi myndmáli.

Myndir geta falið í sér mörg orð og orð geta einnig verið myndir. Við erum vön að líta á þessi tjáningarform sem aðskilin, en þau eru það síður en svo og verður áhersla lögð á þennan þátt á hátíðinni í ár. Litið verður til samspils orða og mynda, myndasagna, ljóðmynda, myndljóða, myndskreyttra bóka, frásagnarmálverka, myndanna í orðunum og orðanna í myndunum. Dagskráin er ætluð öllum aldurshópum.

Lestrarhátíð er þátttökuhátíð og því geta allir þeir sem standa fyrir viðburðum í október sem falla að þemanu komið þeim á dagskrána.

Sendið okkur línu á bokmenntaborgin@reykjavik.is ef þið teljið ykkar viðburð eiga erindi á dagskrána.

Um orð og myndir frá fyrsta formanni stjórnar Bókmenntaborgarinnar:

1000 sinnum þúsund X

Einhverntíma sagði einhver að ljóðlist væri myndlist. Einhverntíma sýndi einhver fram á að myndlist væri í rauninni ljóðlist. Myndlistin bregður upp ljóðrænum tengslum sem jafnvel orðfærustu ljóðskáld ná ekki að fanga. Ekki einu sinni í smæstu ljóðformum. Ljóðlistin bregður upp myndrænum tengslum sem jafnvel best sjáandi myndlistarmenn ná ekki að fanga. Ekki einu sinni á blaðsíðu í smæstu skissubókinni.
Við hugsum í myndum. Við orðum hugsanir.

Í einni ljóðlínu geta allir englar himnaríkis fallið í fang allra djöfla helvítis þar sem þeir rísa upp af myndfleti hvort sem hann er að finna á vegg, striga, í teiknimyndasögu eða skjá — og hvort sem línunni er varpað fram munnlega, skriflega eða í söng.

Epli eru jafn bragðgóð hvort sem þau eru orðuð eða mynduð.

Hús. Ský. Stóll. Fingur.

Sjón, 2016

Meira en 1000 orð – Orðið á götunni
Bókmenntaborgin fagnar fimm ára afmæli nú í haust og af því tilefni hafa fjórtán listamenn unnið í pörum sjö listaverk eftir þema Lestrarhátíðar í ár: orð og mynd. Þessi verk Lestrarhátíðar eru víðsvegar um borgina og að þessu sinni er því brugðið út af þeim vana að gefa út bók í tilefni hátíðarinnar. Listamennirnir eru Alda Björk Valdimarsdóttir og Sveinbjörn Pálsson, Atli Sigþórsson (Kött Grá Pje) og Ásta Fanney Sigurðardóttir, Eva Rún Snorradóttir og Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt), Elías Knörr og Elín Edda, Ewa Marcinek og Wiola Ujadowska, Jónas Reynir Gunnarsson og Lára Garðarsdóttir og loks Kári Tulinius og Ragnhildur Jóhanns. Verkin verða á veggjum á Laugavegi, við Kaffi Vest, í Arnarbakka í Breiðholti, Stakkahlíð, á Laugardalslaug, á Hotel Marina og eitt er vídeóverk sem verður sýnt á skjám í Grafarvogi og á vef Bókmenntaborgarinnar.

Lesið um verkin, listamennina og staðsetningar hér

…………

Sjá dagskrá fyrir grunnskóla hér

Sjá Sleipnisstundir fyrir leikskóla hér

Dagskrá Lestrarhátíðar 2016

Birt með fyrirvara um breytingar.

Neðst á síðunni eru upplýsingar um sýningar sem eru á dagskrá hátíðarinnar.

Laugardagur 1. október kl. 11:00-12:00
Við Laugaveg 21
Morgunsárið er furðufugl – Setning Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg
Skáldið Elías Knörr og myndlistarkonan Elín Edda afhjúpa verk sitt á Kaffibrennslunni. Það er hluti af af verkefninu Orðið á götunni sem samanstendur af sjö orð- og myndlistarverkum eftir 14 höfunda sem finna má víðsvegar um Reykjavík í október. Einnig verða Ásta Fanney Sigurðardóttir og Atli Sigþórsson (Kött Grá Pje) með gjörning, en þau eiga annað verkanna og Söngfuglar Margrétar Pálma syngja nokkur íslensk lög. Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, setur hátíðina.
Allir eru velkomnir.

Sunnudagur 2. október kl. 20:00-23:00
Gaukurinn, Tryggvagötu 22
Ljóðapartí
Starafugl og Samstök ungra skálda (SUS) halda ljóðapartí þar sem m.a. koma fram tveir listamenn sem eiga verk Lestrarhátíðar í ár, þau Atli Sigþórsson (Kött Grá Pje) og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Önnur skáld kvöldsins eru Athena Farrokhzad, Björk Þorgrímsdóttir, Eiríkur Örn Norðhdahl, Hallgrímur Helgason, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Svava, Lommi og Soffía Lára. Athena er heiðursgestur kvöldsins, en hún er sænskt ljóðskáld af írönskum uppruna. Ljóðabók hennar Hvítsvíta, sem er væntanleg á íslensku, vakti gríðarmikla athygli í heimalandi hennar, var tilnefnd til Augustpriset og fleiri verðlauna og hefur komið út víða um heim. Eiríkur Örn Norðdahl þýddi.

Þriðjudagur 4. október kl. 17:00
Borgarbókasafnið Grófinni
Hungur hrollvekjunnar
Sýningin Hungur hrollvekjunnar opnar á Reykjavíkurtorgi. Hún er hluti af POP UP Comics verkefninu frá Myndasögumiðstöðinni í Oulu í Finnlandi sem vinnur að því að auka meðvitund um norrænar myndasögur. Á sýningunni verða vinningssögur myndasögusamkeppni miðstöðvarinnar árið 2015.

Miðvikudagur 5. október kl. 10:00 – 22:00
Borgarbókasafnið Grófinni
POP UP Comics – Tólf tíma myndasögumaraþon
Búðu til þína eigin tólf síðna myndasögubók frá grunni á tólf klukkustundum. Myndasögumaraþonið er öllum opið, komdu og spreyttu þig!

Miðvikudagur 5. október kl. 15:30
Borgarbókasafnið Grófinni
POP UP Comics – Kynning
Opið erindi um myndasögusetrið í Oulu í Finnlandi og starfsemi þess. Á ensku.

Miðvikudagur 5. október kl. 16:00
Borgarbókasafnið Grófinni
Mari Ahokoivu: Nordic Comics
Finnski myndasöguhöfundurinn Mari Ahokoivu spjallar um það sem skilur að og er líkt með norrænum myndasögum í samtímanum og fjallar um áhugaverðar myndasögur frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Hún hefur rannsakað finnskar, franskar og sænskar og myndasögur hennar hafa verið gefnar út í Finnlandi og víðar. Hún kennir einnig myndasögugerð og hefur tekið þátt í mörgum samnorrænum myndasöguverkefnum.
Erindið er á ensku.

Miðvikudagur 5. október kl. 17:00
Borgarbókasafnið Grófinni
Harri Filppa – Hreyfing milli ramma í raðbundinni, myndrænni framsetningu
Hvernig virkar hreyfing á milli ramma í raðbundinni frásögn á borð við myndasögu? Rennsli augans yfir síðuna, það sem kalla mætti flæði, ræðst af tungumáli lesandans og ýmsum menningarlegum þáttum. Flæðið leiðir lesandann á milli ramma og að endalokum frásagnarinnar. Breytingar á eyðum milli ramma gefa lesandanum tóm til umhugsunar. Hvað gerist inni í þessu flæði og hvernig er hægt að flokka hreyfingar á milli ramma?
Erindið er á ensku.

Miðvikudagur 5. október kl. 12:00
Þjóðarbókhlaðan
Fagurfræði óvissunnar
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor við Háskóla Íslands flytur erindi sem hann nefnir „Fagurfræði óvissunnar. Snorri Hjartason og John Keats.“
Nú stendur yfir í Þjóðarbókhlöðunni sýning sem er tileinkuð Snorra þar sem haldið er á loft ljóðaperlum hans. Kvæðin mæta gestum Þjóðarbókhlöðu á göngum safnsins og þeir geta einnig látið fara vel um sig með spjaldtölvu á sýningarsvæðinu og hlýtt á ljóðin í upplestri Gunnars Þorsteinssonar, þýðanda og þular.

Fimmtudagur 6. október kl. 17:00-19:oo
Bókasafn Kópavogs, Hamraborg
Sagnamenn og sögusmettur
Sex vikna ritlistarnámskeið hefst í Bókasafni Kópavogs. Það fer fram vikulega á fimmtudagskvöldum. Farið verður í helstu grunnatriði skáldskaparlistarinnar, svo sem persónusköpun, byggingu, samtöl og endurskrif. Þátttakendur vinna að æfingum, skiptast á textum og ná þannig upp þjálfun í samstarfi hver við annan.
Ekkert kostar að vera með en skrá þarf þátttöku með því að senda póst á arndisth@kopavogur.is

Fimmtudagur 6. október kl. 12:00-18:00
Borgarbókasafnið Grófinni
POP-UP myndasögukjarni, smiðja og verslun
Kjarninn og myndasöguverslunin verða öllum opin og um leið verður opin myndasögusmiðja fyrir börn og fullorðna, þar sem þátttakendur geta stokkið inn og út að vild. Semdu þína eigin myndasögu.
Engin skráning.

Fimmtudagur 6. október kl. 16:00
Borgarbókasafnið Grófinni
Höfundaspjall: Søren Mosdal (Danmörku)
Søren Mosdal er danskur myndasöguhöfundur sem býr í Helsinki. Myndasögur hans hafa verið gefnar út af Casterman, Amok og Hoochie Coochie í Frakklandi, auk Edition Moderne, Aben Maler og Fahrenheit í Sviss og Danmörku. Nýjasta bók hans er ensk útgáfa Erik the Red – King of Winter (útgefandi Centrala). Hann hefur lagt til fjölda safnrita og tímarita víða um Evrópu.
Søren vann nýlega til dönsku Ping verðlaunanna fyrir víkingaráðgátuna Náströnd (Nastrand – Beach of the Dead), sem var valin besta vefmyndasagan árið 2016.
Erindið er á ensku.

Fimmtudagur 6. október kl. 17:00
Borgarbókasafnið Grófinni

Höfundaspjall: Harri Filppa (Finnlandi)
Filppa er myndasöguhöfundur, fræðimaður og framkvæmdastjóri Oulu myndasögumiðstöðvarinnar. Hann útskrifaðist frá lista- og hönnunardeild Lapplandsháskóla árið 2007. Meistaraprófsritgerð Filppa, Tiedettä ja sarjakuvaa – Ruutujen kaupalla (Vísindi og myndasögur) var gefin út af Kustannus HD árið 2011, en ritgerðin er í formi myndasögu. Hann vinnur nú að doktorsverkefni sínu, sem snýr að sjónrænu tungumáli myndasagna, og býr til myndasögur. Næsta myndasaga hans ber titilinn Vastarannan Siili og verður gefin út þann 1. nóvember næstkomandi.
Erindið er á ensku.

Fimmtudagur 6. október kl. 16:00-16:30
Norræna húsið, anddyri
Út í veður og vind
Kristín Ragna Gunnarsdóttir myndhöfundur leiðir gesti um sýninguna Into the Wind, sem er sýning á myndskreytingum sextán norrænna myndhöfunda. Sýningin opnaði í Berlín í maí og mun ferðast um þýskumælandi svæði og Norðurlöndin til ársins 2018. Sýningin er opin alla daga í anddyri Norræna hússins.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.
Tungumál: Íslenska.
Öllum opið og ókeypis.

Fimmtudagur 6. október
Höfði – Lokaður viðburður
Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar skálds fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Fimmtudaginn 6. október verður tilkynnt hver hlýtur verðlaunin í ár.

Föstudagur 7. október kl. 9:00-15:50
Norræna húsið, fyrirlestrasalur
Sjálfsmynd – Heimsmynd
Málþing með fyrirlestrum og umræðum um margbreytilegar sjálfsmyndir og heimsmyndir í barnabókum. Meðal annars verður fjallað um notkum korta í skapandi kennslu, gagnvirkar barnabókmenntir, ímyndaða staði, app-skáldsögu sem býr til norrænan myndheim, fantasíur, framtíðarheima og fleira. Þingið fer fram á ensku.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík
Þátttökugjald er 3.500 kr. og þarf að skrá þátttöku fyrir 3. október.
Sjá dagskrá þingsins

Föstudagur 7. október kl. 12:00-18:00
Borgarbókasafnið Grófinni
POP-UP myndasögukjarni, smiðja og verslun
Kjarninn og myndasöguverslunin verða öllum opin og um leið verður opin myndasögusmiðja fyrir börn og fullorðna, þar sem þátttakendur geta stokkið inn og út að vild. Semdu þína eigin myndasögu.
Engin skráning.

Föstudagur 7. október kl. 15:00
Borgarbókasafnið Grófinni
Höfundaspjall: Jens K. Styve (Noregur)
Jens býr í Tromsø í Noregi, hann er skáld, myndasöguhöfundur og teiknari. Hann vann verk sín á tölvu til margra ára en hefur nú fundið sig aftur í gamla mátanum, fjarri skjá og neti. Hann hefur upp á síðkastið einbeitt sér að teikningu með blýi, bleki og pensli, verkfærum sem eru svo til söm nú og fyrir hundrað árum. Undanfarið ár hefur Jens unnið að myndasögum og notið þess að vinna verk sín alfarið sjálfur, frá hugmynd til útgáfu.
Erindið fer fram á ensku.

Föstudagur 7. október kl. 16:00
Borgarbókasafnið Grófinni 
Kæj! Myndasögur í aldarfjórðung – sýningaropnun
Þorri Hringsson opnar sýningu í myndasögudeild Borgarbókasafns. Úrval verka frá yfir aldarfjórðungs löngum ferli Þorra í myndasögugerð verður til sýnis og beinir hann sjónum að því hvernig myndasagan verður til. Samhliða ferli sínum sem myndlistarmaður hefur Þorri fengist við að gera myndasögur í rúman aldarfjórðung. Á meðal verka Þorra er bókin 1937 – Ævintýri Tinnu og Hreins Borgfjörð sem hann gaf út í samvinnu við Sjón árið 1989; myndasögur í öllum tölublöðum GISP! frá því að tímaritið hóf göngu sína árið 1990; auk annarrar útgáfu á Íslandi og í Skandinavíu. Á meðal áhrifavalda hans eru Hergé og Milton Caniff, auk neðanjarðarhöfundanna Crumbs og Burns.

Föstudagur 7. október kl. 17:00
Borgarbókasafnið Grófinni
Höfundaspjall: Mari Ahokoivu (Finnlandi)
Mari er finnskur teiknari og myndasöguhöfundur, hún hefur teiknað myndasögur fyrir börn og fullorðna sem hafa verið gefnar út í Finnlandi og víðar. Hún hefur líka kennt myndasagnagerð og unnið að fjölda verkefna í samstarfi við myndasagnasamtök í Finnlandi. Mari vinnur þessar stundir að myndasögum fyrir börn og hefur auk þess fengið styrk frá North Ostrobothnia Regional Fund of Finnish Cultural Foundation til útgáfu á myndasögu fyrir fullorðna.
Erindið fer fram á ensku.

Föstudagur 7. október kl. 20:00
Teigað og teiknað (öldurhús, staðsetning auglýst síðar)
Verið velkomin að hitta norrænu myndasöguhöfundana sem taka þátt í POP-UP Comics á Borgarbókasafni til að skrafa og teikna með þeim.

Föstudagur 7. október
Listasafn Reykjavíkur Hafnarhús  
Erró: Stríð og friður – sýningaropnun
Það er ekki til neinn draumastaður í list Errós þar sem lífið er ljúft og rólegt, laust við hávaða og átök stríðsins. Eitt af fyrstu verkum hans nefnist Stríðið. Það er frá árinu 1950, unnið með blandaðri tækni, bleki og vatnslitum og strax þá er hann að vinna með efnivið eins og ofbeldi, eyðileggingu og dauða. Fæðingarland listamannsins, Ísland, er í miðju verkinu og fyrir ofan lítið hringlaga heimskort í miðju verkinu og aftan við það sjást útlínur atómsprengju, mitt á milli austurs og vesturs. Þessi gríðarstóra hnattsprengja sendir frá sér banvæna geisla, alsetta beinagrindum.
Sýningarstjóri: Daniella Kvaran.

Laugardagur 8. október kl. 13:00-17:00
Borgarbókasafnið Grófinni
POP-UP Comics
Myndasögukjarninn og verslunin verða opin.

Laugardagur 8. október kl. 11:00-12:00
Norræna húsið, fyrirlestrasalur
Í allar kvikynda líki
Málstofa um myndabækur fyrir yngstu börnin. Myndskreytingar í bókum ætlaðar þeim yngstu eru oft fullar af dýrum og skrýtnum skepnum. Hvernig spegla ung börn sig í þessum myndskreytingum? Hver er farsælasta leiðin til að höfða til yngri lesendahóps í myndum? Myndskreytarnir Anthony Browne frá Bretlandi, Hanne Bartholin frá Danmörku, Lawrence Schimel frá Bandaríkjunum og Linda Ólafsdóttir halda stutt erindi og taka þátt í umræðum.
Tungumál: Enska.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.
Stjórnandi: Ragnheiður Gestsdóttir

Laugardagur 8. október kl. 11:00-12:00
Norræna húsið, Barnabókasafn
Komdu að segja sögu!
Hér býður Gerður Kristný upp á ritsmiðju fyrir börn þar sem hugmyndafluginu er hleypt á stökk. Farið verður yfir hvernig við segjum sögur og hvaða brögðum höfundar beita til að ná lesandanum á sitt vald. Síðan semjum við okkar eigin sögur og lesum þær upp.
Tungumál: Íslenska.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.
Ekkert þátttökugjald en skrá þarf þátttöku fyrir 3. október
Aldur 9–11 ára.

Laugardagur 8. október kl. 12:40-13:40
Norræna húsið, Fyrirlestrasalur
Staða íslenskra myndlýsinga
Hvernig er staðið að myndlýsingum í íslenskum barnabókum? Bera íslenskar bækur einhver sérkenni? Hver eru kjör teiknara og er framtíð myndhöfunda björt? Þarf myndir í bækur? Þarf að túlka íslenskan veruleika myndrænt í bókum? Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur, höfundur og sjálfstætt starfandi myndritstjóri, Huginn Þór Grétarsson höfundur og útgefandi hjá Óðinsauga, Anna Cynthia Leplar myndhöfundur og deildarstjóri Teiknideildar í Myndlistarskólanum í Reykjavík, Kristín Ragna Gunnarsdóttir myndhöfundur og Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, sem hefur átt setu í dómnefnd Dimmalimm verðlaunanna, halda stutt erindi og taka þátt í umræðum.
Tungumál: Íslenska.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.
Stjórnandi: Margrét Tryggvadóttir.

Laugardagur 8. október kl. 12:40-13:40
Norræna húsið
Myndasögusmiðja fyrir 8-12 ára
Smiðjan er hluti af dagskrá barnabókmenntahátíðarinnar Mýrarinnar og POP-UP Comics.
Fyrst búa þátttakendur til myndasögupersónu með aðstoð finnska höfundarins Mari Ahokoivu. Síðan teikna allir stutta myndasögu þar sem þessi nýja persóna verður í aðalhlutverki. Þátttakendur þurfa ekki að hafa neina reynslu af teikningu eða myndasagnagerð.
Smiðjan fer fram á ensku.
Ekkert þátttökugjald en skrá þarf þátttöku fyrir 3. október
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.

Laugadagur 8. október kl. 14:00-14:40
Norræna húsið, fyrirlestrasalur
Ofurhetja í heimi barnabóka
Kristín Ragna Gunnarsdóttir teiknari, rithöfundur og bókmenntafræðingur fjallar um hinn margverðlaunaða breska listamann Anthony Browne og rýnir í myndabókina hans Voices in the Park. Browne er þekktur fyrir að leika sér með tjáningarmöguleika myndabókarformsins. Hann nýtir sér samspil texta og mynda til að búa til marglaga verk og ævintýralegt myndmál hans gerir ráð fyrir virkri þátttöku lesenda.
Tungumál: Íslenska.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.

Laugardagur 8. október kl. 14:00-15:00
Norræna húsið, Barnabókasafn
Búum til myndasögu
Sænski myndabókahöfundurinn Pernilla Stalfelt sem gerir fjörlegar bækur sem taka á flóknum málum á borð við ofbeldi, dauðann og lífið sjálft býr til myndasögur með börnum.
Tungumál: enska og íslensk túlkun.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.
Ekkert þátttökugjald en skrá þarf þátttöku fyrir 3. október
Aldur 6-9 ára.

Laugardagur 8. október kl. 15:00-15:30
Norræna húsið, anddyri
Út í veður og vind
Sýningarleiðsögn: Myndhöfundurinn Rán Flygering leiðir gesti um sýninguna Into the Wind, sem er sýning á myndskreytingum sextán norrænna myndhöfunda. Sýningin opnaði í Berlín í maí og mun ferðast um þýskumælandi svæði og Norðurlöndin til ársins 2018.
Tungumál: Íslenska.
Mýrin – alþjóðleg barnabókahátíð í Reykjavík.
Öllum opið og ókeypis.

Laugardagur 8. október kl. 16:00-17:00
Kaffislippur, Hotel Marina
Ljóðmyndir íslenskra og kanadískra skálda
Skáldin Gyrðir Elíasson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Sigurbjörg Þrastardóttir lesa upp ásamt kanadísku skáldunum Chantal Neveu, Daniel Canty og François Turcot. Þau hafa unnið saman í þýðingasmiðjum og kynna hér afraksturinn og ljóðlist hvers annars. Kanadísku skáldin eru frönskumælandi og koma frá Qubéc fylki. Chantal Neveu er frá Montréal, rithöfundur og þverfaglegur listamaður, og hefur sent frá sér fjórar bækur, þá nýjustu La vie radieuse á þessu ári. Hún er ennfremur þekkt fyrir fjölbreytileg textaverk sín. Daniel Canty er búsettur í Montréal, rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri, og hefur sent frá sér bækur, stuttmyndir og leiktexta, ásamt því að leggja stund á hönnun og nýmiðlun. Einnig hefur hann ritstýrt ljóðatímariti og þýtt ljóð. François Turcot er ljóðskáld og kennari með rætur í Montréal. Hann hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, en nýlega kom bók hans, Mon dinosaure (Risaeðlan mín) frá 2014 út á ensku.

Sunnudagur 9. október kl. 14:00-15:00
Borgarbókasafn – Ársafn
Ljóðmyndir íslenskra og kanadískra skálda
Skáldin Gyrðir Elíasson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Sigurbjörg Þrastardóttir lesa upp ásamt kanadísku skáldunum Chantal Neveu, Daniel Canty og François Turcot. Þau hafa unnið saman í þýðingasmiðjum og kynna hér afraksturinn og ljóðlist hvers annars. Kanadísku skáldin eru frönskumælandi og koma frá Qubéc fylki. Chantal Neveu er frá Montréal, rithöfundur og þverfaglegur listamaður, og hefur sent frá sér fjórar bækur, þá nýjustu La vie radieuse á þessu ári. Hún er ennfremur þekkt fyrir fjölbreytileg textaverk sín. Daniel Canty er búsettur í Montréal, rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri, og hefur sent frá sér bækur, stuttmyndir og leiktexta, ásamt því að leggja stund á hönnun og nýmiðlun. Einnig hefur hann ritstýrt ljóðatímariti og þýtt ljóð. François Turcot er ljóðskáld og kennari með rætur í Montréal. Hann hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, en nýlega kom bók hans, Mon dinosaure (Risaeðlan mín) frá 2014 út á ensku.

Sunnudagur 9. október kl. 21:00-23:00
Loft hostel, Bankastræti 7
Ljóðakvöld Hispursmeyjanna
Ljóðakvöld Hispursmeyjanna verður haldið hátíðlega í sjöunda sinn. Nú er haustslenið búið að taka yfir Ísland og við sem búum hér undirbúum okkur fyrir veturinn. Sem betur fer eigum við Hispursmeyjarnar til þess að hrista af okkur slenið, gefa okkur innblástur og hreyfa við okkur. Hvert kvöld er sérstakt. Hispurslaus skáld kvöldsins eru Embla Orradóttir Dofradóttir, Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, Elísabet Jökulsdóttir, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Maríanna Eva Dúfa, Hulda Hvönn Kristinsdóttir, Aron Martin Ágústsson og Þorvaldur Sigurbjörn.

11. – 13. október kl. 13 :00-16 :00 alla dagana
Borgarbókasafnið Árbæ
Brókabækur, smiðja í bókagerð
Námskeið þar sem bundin verður inn bók sem gæti nýst sem dagbók, skissubók eða eitthvað annað. Hugmyndin er að endurnýta gallabuxur utan á bókina. Leiðbeinandi: Elísabet Skúladóttir, bókbindari.
Allt efni fæst á staðnum nema efnið utan á bókina, buxurnar þurfa þátttakendur að koma með sjálfir.
Skráning fyrir 1. október, takmarkaður fjöldi þátttakenda en ekkert þáttökugjald.
Áhugasamir hafi samband við afgreiðslu safnsins í síma 411 6250.

Miðvikudagur 12. október kl. 16 :00-17 :30
Borgarbókasafnið Árbæ
Finndu þína eigin rödd
Ritlistarnámskeið hefst undir handleiðslu Kristínar Arngrímsdóttur og Jónínu Óskarsdóttur sem báðar hafa lokið námi í ritlist. Áhersla verður lögð á að virkja leikgleði og ástundun við skriftirnar. Engin krafa er gerð um reynslu af skrifum. Námskeiðið verður annan miðvikudag í mánuði í október, nóvember og desember.
Skrá þarf þátttöku með því að senda póst á : jonina.oskarsdottir@reykjavik.is eða í síma 411 6250

Miðvikudagur 12. október kl. 17:00
Bíó Paradís, Hverfisgötu
Ættkvísl: Úlfabaun
Sýning á vídeóverki Lestrarhátíðar eftir þau Ástu Fanney Sigurðardóttur og Atla Sigþórsson (Kött Grá Pje). Verkið byggist á hinu talaða orði og hvernig eitthvað getur komist til skila þó að það sé sett í allt annað samhengi og umhverfi. Það tengir kvikmyndina við ljóð og orð og reynir að fanga svipaða en á sama tíma ólíka upplifun á hreyfimyndum. Í grunninn er þetta skoðun á Grafarvoginum og nærumhverfi, en rithöfundarnir tveir fabúlera um geimárás og yfirtöku lúpínunnar á lifnaðarhætti manna í sci-fi kvikmynd sem þau byggja upp í hugum áhorfandans. Vangaveltur um tilveru mannsins og togstreitu hans við form sem hann fær ekki breytt, deilur um stöðnun og hreyfingu. Verkið er á mörkum þess að geta talist ljóð, videoverk, handrit, heimildarmynd eða kvikmynd.
Allir eru velkomnir og ekkert kostar inn.

Fimmtudagur 13. október kl. 17:00-18:30
Borgarbókasafnið Kringlunni
Mamma og Malli II – sýningaropnun
Mæðginin Jóhanna Steinunn Hjálmtýsdóttir og Marlon Pollock sýna í Borgarbókasafninu Kringlunni í september og október. Þau sýna teikningar sem unnar hafa verið á undanförnum árum. Jóhanna Steinunn reið á vaðið og opnaði sýning hennar í september og hér opnar sýning Marlons, sem teiknar alls kyns verur og notar til þess allt frá tæknipennum yfir í þykka tússliti. Marlon er einnig tónlistarmaður og flytur tónlist við opnunina.

Fimmtudagur 13. október kl. 19:00-20:00
Borgarbókasafnið Sólheimum
Sögustund í náttfötum
Klæddu þig í uppáhaldsnáttfötin þín og taktu með þér eftirlætisbangsann í Sólheimasafn og hlustaðu á skemmtilega sögu fyrir svefninn í notalegri sögustund.
Skrá þarf þátttöku, nánari upplýsingar og skráning í síma 411 6160 eða hjá solheimasafn@borgarbokasafn.is

Laugardagur 15. október kl. 14:00-16:00
Kaffislippur, Icelandair Hotel Reykjavík Marina
Kona frá Póllandi
Ewa Marcinek og Wiola Ujadowska eru höfundar orð- og myndlistarverks sem prýðir framhlið Icelandair Hotel Reykjavík Marina á Lestrarhátíð. Þær eru báðar frá Póllandi en búsettar í Reykjavík. Verkið samanstendur af tveimur ljósmyndum Wiolu og textum Ewu og ber heitið Kona frá Póllandi. Í tilefni hátíðarinnar standa þær fyrir dagskrá við verkið þar sem þær bjóða öðrum listamönnum til sín og einnig gefst gestum og gangandi tækifæri til að leika sér með orð og liti. Gestir geta litið við hvenær sem er á þessum tíma eða verið allan tímann.

Sunnudagur 16. október kl. 16:00-18:00
Hannesarholt, Grundarstíg 10
Sandhya: Ljóðainnsetning – The Second Self. Sýningaropnun
Breski listamaðurinn Sandhya sýnir myndljóð (visual poetry) í Hannesarholti. Sandhya er tíður gestur á Íslandi en þetta er í fyrsta sinn sem hún sýnir verk sín hér. Sandhya vinnur bókverk og semur ljóð sem hún miðlar í ólíku formi, allt frá hefðbundnum textaverkum og vídeóverkum til ljóða sem varpað er á dansandi líkama. Hún leggur sérstaka áherslu á þátt lesandans eða áhorfandans í merkingarferlinu. List sína kallar hún visual poetry.
Sýningin The Second Self býður gestum að hugleiða leitina að umbreytingu í gegnum myndræna ljóðainnsetningu sem samanstendur af vídeóverki og prentverkum. Í vídeóverkinu verður líkaminn síða sem verður vettvangur íhugullar samræðu í gegnum hreyfingu, hljóð og ljóð. Leitin heldur síðan áfram í prentuðum og brotakenndum bókverkum og textum sem hafa umbreyst í sérstöku sköpunarferli og skilja eftir sig spor hins annars sjálfs.
Innsetningin er sett upp í samstarfi við Bókmenntaborgina.
Sýningin stendur til og með 30. október.

Mánudagur 17. október kl. 17 :15-18 :00
Borgarbókasafnið Spönginni
Leshringur fullorðinna
Leshringur Borgarbókasafnsins í Spönginni kemur saman þriðja mánudag hvers mánaðar kl. 17:15. Mánudaginn 19. september verður tekið til óspilltra málanna eftir sumarfrí, tvær nýlegar íslenskar bækur verða þá teknar til skoðunar og greiningar: Vinkonur eftir Rögnu Sigurðardóttur og Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur. Allir eru velkomnir, eina skilyrðið er að skrá sig (og gott er að hafa lesið bækurnar).
Nánari upplýsingar og skráning: Herdís Þórisdóttir, deildarbókavörður, herdis.thorisdottir@reykjavik.is, sími: 411 6230

Þriðjudagur 18. október kl. 18:00
Icelandair Hotel Reykjavík Marina, Bíósalur
Slawomir Mrozek
Sýnd verður mynd um þennan þekkta pólska rithöfund og spjallað verður um verk hans. Veg og vanda að dagskránni hefur Ewa Marcinek, pólsk skáldkona sem býr í Reykjvík.
Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Þriðjudagur 18. október kl. 20:00
Loft hostel, Bankastræti 7
Drop the Mic – ljóðaslamm
Sex ljóðskáld sem vinna saman í alþjóðlega verkefninu Drop the Mic troða upp. Þetta eru þau Vigdís Ósk Howser Harðardóttir og Ólöf Rún Benediktsdóttir frá Reykjavík, Dennis Buchleitner og Sara Hauge frá Kaupmannahöfn og Jaan Malin og Sirel Heinloo frá Tartu í Eistlandi.
Drop the Mic er samstarfsverkefni Bókmenntaborganna Reykjavíkur, Tartu, Krakár og Heidelberg, auk Kaupmannahafnar. Skáld frá þessum borgum vinna saman í smiðjum, hafa samskipti á netinu og taka þátt í ljóðaviðburðum í viðkomandi borgum. Verkefnið hefst hér í Reykjavík nú á Lestrarhátíð oglýkur í Kaupmannahöfn haustið 2017. Það er stutt af Kulturkontakt Nord.

Miðvikudagur 19. október kl. 13:00-16:00
Ráðhús Reykjavíkur, Tjarnarsalur
Afmælisþing Bókmenntaborgarinnar
Reykjavík fagnar fimm ára afmæli sem Bókmenntaborg UNESCO nú í haust. Af því tilefni verður haldið opið málþing í Ráðhúsinu þar sem fjallað verður um orðlist frá ólíkum hliðum. Sjá dagskrá hér.

Fimmtudagur 20. október kl. 20 :00
Kaffislippur, Icelandair Hótel Marina við Mýrargötu
Ós pressan – fæðingu fagnað
Ós pressan, samfélag jaðarhöfunda, tilkynnir með stolti fæðingu nýs tímarits. Nafn: Ós The Journal. Lengd: um hundrað blaðsíður. Þyngd: tuttugu og þrír höfundar, sex tungumál. Komið og hittið nýjasta meðlim bókmenntanna á Kaffislipp þetta fimmtudagskvöld.

Laugardagur 22. október kl. 14:00-16:30
Borgarbókafnið Gerðubergi
Sjónhverfingar – Sjón á ritþingi
Stjórnandi þingsins er Gunnþórunn Guðmundsdóttir og spyrlar eru Jón Karl Helgason og Guðni Elísson. Tónlist flytur mezzosópransöngkonan Ásgerður Júníusdóttir við undirleik Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara. Þær flytja tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson, Ragnhildi Gísladóttur og Björk Guðmundsdóttur við ljóð Sjóns.
Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Sunnudagur 23. október kl. 14:00-15:00
Hannesarholt, Grundarstíg 10
Listamannaspjall
Breski listamaðurinn Sandhya sýnir ljóðverkið The Second Self í Hannesarholti. Sandhya er tíður gestur á Íslandi en þetta er í fyrsta sinn sem hún sýnir verk sín hér. Sunnudaginn 23. október verður Sandhya í Hannesarholti og spjallar um verk sín milli kl. 14 og 15. Auk ljóðverksins, sem er vídeóverk við tónlist eftir Jóhann Jóhannsson, sýnir Sandhya ljósmyndir af bókverkum sínum í kaffishúsi Hannesarholts.

Miðvikudagur 26. október kl. 20 :00-22 :00
Borgarbókasafnið Gerðubergi
Bókakaffi – Glæpakvendi í Gerðubergi
Glæpasagnahöfundarnir Jónína Leósdóttir, Lilja Sigurðardóttir, Sólveig Pálsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir koma saman á Bókakaffi í Gerðubergi til að spyrja hver aðra spjörunum úr. Þær munu lesa úr verkum sínum og spjalla um glæpakvendi og glæpasögur: eru glæpasögur um og eftir konur frábrugðnar glæpasögum eftir karla? Hvaða myndir draga þær upp og hvernig nálgast þær myrk og nöturleg viðfangsefni sín? Hvaða hugsa glæpakvendi áður en þær sofna á kvöldin? Þær Jónína, Lilja, Sólveig og Yrsa eru í hópi þeirra fimmtíu innlendu og erlendu höfunda sem taka þátt í glæpasagnahátíðinni Iceland Noir 2016, sem fram fer í Norræna húsinu dagana 17. – 20. nóvember.

Fimmtudagur 27. október kl. 13:30
Menningarhús Gerðubergi 
Friðarbrú
Sýningin Friðarbrú opnar í Horninu í Gerðubergi. Hún samanstendur af ljóðum eftir leikskólabörn í Vesturbænum og vatnslitamyndum eftir þátttakendur í félagsstarfi aldraðra í Gerðubergi. Sýningin er listræn brú milli leikskólabarna og aldaðra, Breiðholts og Vesturbæjar. Börn úr leikskólum í Vesturbæ Reykjavíkur sömdu friðarljóð í sögubílnum Æringja undir handleiðslu Ólafar Sverrisdóttur. Ljóðin kveiktu síðan hugmyndir hjá hópi af þátttakendum á námskeiði í félagstarfi eldri borgara Gerðubergi sem máluðu vatnslitsmyndir undir áhrifum ljóðanna.
Sýningin er sett upp í tilefni Lestrarhátíðar. Hún verður í Gerðubergi til áramóta.

Föstudagur 28. október 
Klaustur, Kirkjutorgi 4
Heimur furðunnar – IceCon
Opið furðusagnakvöld í tilefni hátíðarinnar IceCon. Áhugafólki um furðusögur gefst tækifæri til að hitta innlenda og erlenda höfunda í óformlegu spjalli. Fólk getur líka tekið þátt í umræðum um hina vinsælu hryllingssöu The Girl With All the Gifts (Stúlkan með náðargjafirnar) eftir M.R. Carey. Magnea J. Matthíasdóttir sem þýddi söguna á íslensku leiðir umræðurnar, sem verða á ensku.
Allir eru velkomnir.

Laugardagur 29.október – sunnudags 30. október
Iðnó
IceCon furðusagnahátíð
Furðusagnahátíðin IceCon verður haldin í fyrsta sinn á Íslandi. Takmark hennar er að auka veg og virðingu furðumenningar og aðdáendasamfélaga á Íslandi og að gefa furðusagnaaðdáendum tækifæri til að hittast í þægilegu rými þar sem þeir geta spjallað um sameiginleg áhugamál sín.
Skrá þarf þátttöku, dagskrá, upplýsingar um skráningargjald og skráning á vef Icecon

Laugardagur 29. október kl. 13:00-16 :00
Borgarbókasafnið Grófinni
Orð verður mynd – myndasögusmiðja með Þorra Hringssyni
Hugmyndir kveikja orð. Orð kveikja myndir. Myndir verða sögur. Sögur verða hugmyndir.
Langar þig til að spreyta þig á myndasögugerð eina dagsstund undir handleiðslu myndasöguhöfundarins og myndlistarmannsins Þorra Hringssonar? Ef þú ert 13 ára eða eldri og hefur gaman af myndum og orðum er þetta rétta smiðjan fyrir þig. Engin reynsla eða þekking á myndasögum eða myndasögugerð er nauðsynleg en sakar samt ekki.
Ekkert þátttökugjald en takmarkað pláss.
Skráið ykkur með því að senda póst á netfangið bokmenntaborgin@reykjavik.is

Laugardagur 29. október kl. 14:00-17:00
Sjóminjasafnið, Grandagarði
Dimmudagur
Bóka- og tónlistarútgáfan Dimma fagnar útgáfu ársins með líflegri dagskrá í Sjóminjasafninu. Fram koma m.a. Gyrðir Elíasson, Kristjana Stefáns, Svavar Knútur, Hjörtur Pálsson, Bambaló, Magnús Sigurðsson, Agnar Már Magnússon, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Andrés Þór og Sigurður Pálsson. Tilvalið er að mæta fyrst á kjörstað og síðan í menningarveislu eða öfugt.
Gengið inn bæði frá bryggjunni og Grandagarði.

SÝNINGAR:

1. október – 31. október
Í Reykjavík
Meira en 1000 orð – Orðið á götunni
Fjórtán listamenn hafa unnið í pörum sjö listaverk eftir þema Lestrarhátíðar í ár: orð og mynd. Verkin eru víðsvegar um borgina. Listamennirnir eru Alda Björk Valdimarsdóttir og Sveinbjörn Pálsson, Atli Sigþórsson (Kött Grá Pje) og Ásta Fanney Sigurðardóttir, Eva Rún Snorradóttir og Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt), Elías Knörr og Elín Edda, Ewa Marcinek og Wiola Ujadowska, Jónas Reynir Gunnarsson og Lára Garðarsdóttir og Kári Tulinius og Ragnhildur Jóhanns.

1. október –21. október
Ráðhús Reykjavíkur, Tjarnarsalur
Svipmyndir frá Bókmenntaborgum UNESCO
Sýning á ljóðum og textabrotum frá Bókmenntaborgum UNESCO ásamt myndum frá borgunum. Bókmenntaborgir UNESCO eru núna tuttugu talsins og á sýningunni má fá örlitla innsýn í bókmenntaheim sautján þessara ólíku borga.
Ráðhúsið er opið frá kl. 8:20-16:15 virka daga en lokað um helgar.

Sjá nánar um sýninguna, borgirnar og skáldin

4. október – 31. október
Borgarbókasafnið Grófinni, Reykjavíkurtorg
Hungur hrollvekjunnar
Myndasögusýningin Hungur hrollvekjunnar er hluti af POP UP Comics verkefninu frá Myndasögumiðstöðinni í Oulu í Finnlandi sem vinnur að því að auka meðvitund um norrænar myndasögur. Á sýningunni verða vinningssögur myndasögusamkeppni miðstöðvarinnar árið 2015.

5. október – 8. október
Borgarbókasafnið Grófinni
POP-UP Comics
Myndasögumiðstöðin í Oulu, Finnlandi, reisir og rekur POP-UP myndasögukjarna á Borgarbókasafninu í Grófinni dagana 5.-8. október. Tilgangur þessara kjarna er að breiða út boðskap norrænna myndasagna og kveikja áhuga lesenda á nýjum norrænum myndasögum og myndasagnahöfundum.
Kjarninn verður í smíðum þessa fjóra daga og fjórir myndasagnahöfundar frá Norðurlöndunum taka þátt í verkefninu. Það eru Mari Ahokoivu (Finnlandi), Harri Filppa (Finnlandi), Søren Mosdal (Danmörku) og Jens K. Styve (Noregi). Í kjarnanum verða haldnar myndasögusmiðjur, þar verða fyrirlestrar og höfundaspjall og síðast en ekki síst myndasögusýningin Hungur hrollvekjunnar.

7. október – 31. október
Borgarbókasafnið Grófinni, myndasögudeild
Kæj! Myndasögur í aldarfjórðung
Þorri Hringsson opnar sýningu í myndasögudeild Borgarbókasafns. Úrval verka frá yfir aldarfjórðungs löngum ferli Þorra í myndasögugerð verður til sýnis. Samhliða ferli sínum sem myndlistarmaður hefur Þorri fengist við að gera myndasögur í rúman aldarfjórðung. Á meðal verka Þorra er bókin 1937 – Ævintýri Tinnu og Hreins Borgfjörð sem hann gaf út í samvinnu við Sjón árið 1989; myndasögur í öllum tölublöðum GISP! frá því að tímaritið hóf göngu sína árið 1990; auk annarrar útgáfu á Íslandi og í Skandinavíu. Á meðal áhrifavalda hans eru Hergé og Milton Caniff, auk neðanjarðarhöfundanna Crumbs og Burns.

7. október-31. október
Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús
Erró: Stríð og friður
Stríð, öll stríð, bæði heit og köld, á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni, allt frá síðari heimsstyrjöldinni til Persaflóastríðsins, þar á meðal Alsírstríðið, Kúbudeilan, Víetnamstríðið, borgarastríðið í Suður-Afríku, stríðið í Afganistan og Júgóslavíu, hafa verið viðfangsefni Errós allan hans feril. Allt frá árinu 1964 víkur listamaðurinn að þeim beint eða óbeint með myndum af neysluvenjum hversdagsins (auglýsingum, fréttamyndum, teiknimyndum, áróðursplakötum, teikningum úr dagblöðum) sem hann tekur með sér hvaðanæva úr heiminum og setur saman í klippimyndir og síðan í málverk og býr þannig til opnar, flóknar og hárfínar frásagnir. Erró er virkur áhorfandi og fjallar með gagnrýnum hætti um atburði líðandi stundar, en hann dregur þó ekki upp mynd af sögunni í eiginlegri merkingu: skáldskapurinn í verkum hans sækir efnivið í raunveruleikann, ýtir honum jafnvel stundum til hliðar og hefur frásögnina upp á hærra, fjarlægara og óhlutbundnara plan.
Sýningarstjóri: Daniella Kvaran.

16. október-30. október
Hannesarholt, Grundarstíg 10
Sandhya: Ljóðainnsetning – The Second Self. 
Breski listamaðurinn Sandhya sýnir myndljóð (visual poetry) í Hannesarholti. Sandhya er tíður gestur á Íslandi en þetta er í fyrsta sinn sem hún sýnir verk sín hér. Sandhya vinnur bókverk og semur ljóð sem hún miðlar í ólíku formi, allt frá hefðbundnum textaverkum og vídeóverkum til ljóða sem varpað er á dansandi líkama. Hún leggur sérstaka áherslu á þátt lesandans eða áhorfandans í merkingarferlinu. List sína kallar hún visual poetry.
Sýningin The Second Self býður gestum að hugleiða leitina að umbreytingu í gegnum myndræna ljóðainnsetningu sem samanstendur af vídeóverki og prentverkum. Í vídeóverkinu verður líkaminn síða sem verður vettvangur íhugullar samræðu í gegnum hreyfingu, hljóð og ljóð. Leitin heldur síðan áfram í prentuðum og brotakenndum bókverkum og textum sem hafa umbreyst í sérstöku sköpunarferli og skilja eftir sig spor hins annars sjálfs.
Innsetningin er sett upp í samstarfi við Bókmenntaborgina.
Hannesarholt er opið frá kl. 8-17 virka daga og frá kl. 11-17 um helgar.

Allur mánuðurinn
Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegi 7
TEXTI – Valin textaverk úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur
Á sýningunni T E X T I eru sýnd textaverk um fimmtíu íslenskra og alþjóðlegra myndlistarmanna. Verkin á sýningunni eru valin úr um 1000 verka safneign listsafnaranna Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur en þau hafa safnað íslenskri og erlendri samtímamyndlist frá því á 7. áratugnum. Stór hluti sýnenda á sýningunni telst til helstu myndlistarmanna samtímans og hafa margir þeirra tengst Pétri og Rögnu sterkum vináttuböndum. Þau tengsl hafa jafnframt leitt til frekari kynna íslenskra myndlistarmanna við erlenda kollega og hafa átt stóran þátt í að skapa grundvöll fyrir öflugu sýningahaldi á verkum erlendra myndlistarmanna á Íslandi.
Listamenn: Birgir Andrésson, Robert Barry, Joseph Beuys, Thomas A. Clark, Hanne Darboven, Tacita Dean, Steingrímur Eyfjörð, Robert Filliou, Ian Hamilton Finlay, Hreinn Friðfinnsson, Hamish Fulton, Douglas Gordon, Franz Graf, Kristján Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, Jón Laxdal Halldórsson, Jenny Holzer, Roni Horn, Donald Judd, On Kawara, Joseph Kosuth, Mark Lombardi, Richard Long, Max Neuhaus, Yoko Ono, Roman Opalka, Richard Prince, Karin Sander, Ben Vautier, Ryszard Wasco, Lawrence Weiner, Bjarni H. Þórarinsson.
Sýningarstjóri: Birta Guðjónsdóttir

Allur mánuðurinn
Þjóðarbókhlaðan
Inn á græna skóga
Í apríl var opnuð í safninu sýning á ljóðum Snorra Hjartarsonar þar sem haldið er á loft ljóðaperlum Snorra. Kvæðin mæta gestum Þjóðarbókhlöðu á göngum safnsins og þeir geta einnig látið fara vel um sig með spjaldtölvu á sýningarsvæðinu og hlýtt á ljóðin í upplestri Gunnars Þorsteinssonar, þýðanda og þular. Ljóðabækur Snorra urðu fjórar talsins: Kvæði (1944), Á Gnitaheiði (1952), Lauf og stjörnur (1966) og Hauströkkrið yfir mér (1979). Fyrir þá síðastnefndu hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1981. Árið 1986 sæmdi Heim­spekideild Háskóla Íslands hann heiðursdoktorsnafnbót og er hann einn örfárra skálda sem hana hafa fengið. Ljóðvegir standa að sýningunni í samstarfi við safnið. Forlagið, Olís, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Rit­höfundasamband Íslands, RÚV, Samfélagssjóð Landsbankans, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Mennta- og menningarmálaráðuneytið veittu verkefninu stuðning.
Sýningin stendur til 30. október.