Skólatilboð á Lestrarhátíð 2016

Meira en 1000 orð

Þema Lestrarhátíðar í ár er ORÐ OG MYNDIR og verður samspil þessara þátta í bókmenntun og myndlist í brennidepli. Hvernig hjálpar myndlestur okkur að skilja og túlka heiminn og hvernig vinnur hann með orðlistinni? Að sama skapi er sjónum beint að því hvernig orðlistin fær vængi með litríku og lifandi myndmáli.

Myndir geta falið í sér mörg orð og orð geta geymt margar myndir. Við erum vön að líta á þessi tjáningarform sem aðskilin, en þau eru það síður en svo og verður áhersla lögð á samspil þeirra og mikilvægi þess að geta lesið orð og myndir á hátíðinni í ár.

Líkt og fyrri ár er hugmyndabanki á vef Bókmenntaborgarinnar, þar eru kveikjur að margvíslegum verkefnum fyrir kennara og frístundaleiðbeinendur. Verkefnin eru opin og auðvelt að heimfæra þau á ólíkan aldur.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um tilboð til grunnskóla í Reykjavík á Lestrarhátíð 2016. Við vekjum athygli á því að framboð er takmarkað og því er um að gera að skrá þátttöku sem fyrst.

Á Lestrarhátíð í október hefjast skipulagðar Sleipnisstundir fyrir leikskólabörn.

SKÁLD Í SKÓLUM, smiðjur í boði Bókmenntaborgarinnar í október

Yngsta stig

Má allt í ævintýraheimi?

Barnabókahöfundarnir Jóna Valborg og Bergrún Íris fjalla um hinn gríðarstóra heim barnabóka, myndskreytingar, kveikjur og hugmyndir.

Hvernig kviknar hugmynd að bók? Hvað má og hvað má ekki í bókum – er kannski allt leyfilegt, engar reglur og allt hægt? Jóna Valborg og Bergrún Íris segja frá hugmyndum sínum, rýna í myndirnar og skoða hvernig myndir og texti
vinna saman að því að koma hugmynd á framfæri. Ýmis ævintýri koma við sögu og nemendur fá að setja sig í spor annarra. Barnabókahöfundarnir Jóna Valborg Árnadóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir fjalla um myndskreytingar,
kveikjur og hugmyndir. Dagskráin hentar best 1. – 4. bekk

Sjá nánar á vef Rithöfundasambandsins. Í boði Bókmenntaborgarinnar eru 10 smiðjur og fá því fyrstu 10 skólarnir sem bóka smiðjurnar þær frítt. Eftir það gildir gjaldskrá Rithöfundasambandsins.

Smiðjur eru bókaðar með því að senda póst á netfangið tinna@rsi.is

Unglingastig

Gamandrama fyrir leiksvið og bíó

Óskar Jónasson og Kristján Þórður Hrafnsson fjalla um leikritið og kvikmyndina Fyrir framan annað fólk.

Hver er munurinn á leikriti og kvikmynd? Hvernig aðlagar maður sögu að hvíta tjaldinu og hvað virkar í bíó? Kvikmyndin Fyrir framan annað fólk var upprunalega leikrit með tveimur leikurum sem leikstjórinn Óskar Jónasson
og leikskáldið Kristján Þórður Hrafnsson umbreyttu í rómantíska gamanmynd. Ferlið var alls ekki einfalt, það tók fjögur ár og kostaði ótal vangaveltur og heilabrot. Óskar og Kristján Þórður veita innsýn í vinnuna sem býr
að baki ritun kvikmyndahandrits og sýna brot úr myndinni. Dagskráin hentar best 8. – 10. bekk.

Sjá nánar á vef Rithöfundasambandsins. Í boði Bókmenntaborgar eru 10 smiðjur og fá því fyrstu 10 skólarnir sem bóka smiðjurnar þær frítt. Eftir það gildir gjaldskrá Rithöfundasambandsins.

Smiðjur eru bókaðar með því að senda póst á netfangið tinna@rsi.is

 Ævintýraleg náttúra 

Smiðja með Lindu Ólafsdóttur myndskreyti fyrir 4. bekkLinda Ólafsdóttir

Í barnabókum er allt mögulegt!  Við skoðum hvernig umhverfi söguhetjanna okkar lítur út í bókum, bæði það sem sést og ekki sést og notum ímyndunaraflið til að skapa okkar eigið ævintýralega landslag.  Í smiðjunni skoðum við nokkar vel valdar barnabækur og hvernig umhverfi er lýst og hvernig það er túlkað á ólíkan hátt.  Nemendur fá svo að spreyta sig á því að skapa sinn eigin myndheim.

Smiðjurnar verða í boði 17. – 26. október og geta 8 hópar nýtt sér tilboðið. Hver smiðja er 80 mínútur. Linda kemur í viðkomandi skóla.

Smiðjurnar eru bókaðar með því að senda póst á netfangið bokmenntaborgin@reykjavik.is

Annað

Lestrarhopur

Kæj! Myndasögur í aldarfjórðung

Föstudaginn 7. október kl. 16 opnar Þorri Hringsson myndasögusýningu í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni, Tryggvagötu 15. Úrval verka af yfir aldarfjórðungs löngum ferli Þorra í myndasögugerð verður til sýningar.

Samhliða ferli sínum sem myndlistarmaður hefur Þorri fengist við að gera myndasögur í rúman aldarfjórðung. Á meðal verka Þorra er bókin 1937 – Ævintýri Tinnu og Hreins Borgfjörð sem hann gaf út í samvinnu við Sjón árið 1989; myndasögur í öllum tölublöðum GISP! frá því að tímaritið hóf göngu sína árið 1990; auk annarrar útgáfu á Íslandi og í Skandinavíu. Á meðal áhrifavalda hans eru Hergé og Milton Caniff, auk neðanjarðarhöfundanna Crumbs og Burns.

Skólahópum býðst að skoða sýninguna í október. Bóka þarf heimsókn með því að senda póst á netfangið thorbjorg.karlsdottir@reykjavik.is.

Verk Þorra má kynna sér á heimasíðunni thorrihringsson.is.

Borgarbókasafnið verður með fleira á lifandi dagskrá sinni fyrir börn og unglinga í október og hvetjum við kennara til að kynna sér hana á vef safnsins.

Listasafn Reykjavíkur

Listasafnið býður nemendahópa velkomna í safnið og hvetjum við kennara til að nýta sér tilboð safnsins. Við bendum sérstaklega á nýja sýningu á verkum Errós sem verður opnuð í Hafnarhúsi í byrjun október. Sýningin ber heitið Stríð og friður

Við hvetjum kennara til að nýta sér hugmyndabankann og þær smiðjur sem í boði eru fyrir sig og nemendur sína. Það er skemmtilegt uppbrot á hefðbundinni kennslu að fá til sín gestakennara og geta slíkar heimsóknir verið frjór og skapandi grunnur fyrir kennara og nemendur í ólíkum viðfangsefnum þeirra í kennslustofunni.

Sjá einnig hugmyndabanka fyrir leikskóla- og grunnskóla og frístundaheimil tengt þema hátíðarinnar í ár.