Beint í efni

Reimleikar í Reykjavík

Reimleikar í Reykjavík
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Þjóðlífsþættir

Teikningar: Sunna Sigurðardóttir.

Ljósmyndir: Jóhann Páll Valdimarsson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur / Shutterstock.

Bókin kom út samtímis á íslensku og í enskri þýðingu: The Haunting of Reykjavík.

Um Reimleika í Reykjavík:

Veistu að á Alþingi er háaloft sem stendur autt fyrir utan eina möru sem sogar til sín hamingjuna? Vissirðu að í Tjörninni er útburður sem á síðkvöldum kjagar að leiði móður sinnar í kirkjugarðinum og líkist vængbrotnum hrafnsunga? Hefurðu gist í svörtu herbergjunum á Hótel Borg? Og veistu hvað er á bak við kirkjuna í Landakoti?

Þegar Íslendingar yfirgáfu sveitirnar tóku þeir draugana með sér, og líka þörfina fyrir að koma á þá böndum með sögum. Válynd veður, náttúruhamfarir, fátækt og einangrun hafa löngum verið frjór jarðvegur fyrir hvers kyns volæði, ótímabæran dauða – og týndar sálir.

Reimleikar í Reykjavík er byggð á ítarlegum viðtölum við lifandi og í sumum tilfellum dána Íslendinga. Hér birtast í fyrsta sinn nokkrar af alræmdustu draugasögum Reykjavíkur í seinni tíð, í bland við sögulegan fróðleik um borgina.

Úr Reimleikum í Reykjavík:

Í nokkrar vikur eftir þetta dreymdi hana ekkert og fátt bar til tíðinda þartil dag einn skömmu fyrir jól að þau Einar óku eftir Barónsstígnum í Reykjavík.

„Þarna er það!“ hrópaði Helga, benti út um gluggann á stóra, gráa byggingu og sagði hana vera húsið úr draumunum; það reyndist vera Austurbæjarskóli. Strax um nóttina komu draumarnir aftur og urðu svo íþyngjandi að Einar stakk upp á að þau heimsæktu skólann til að sjá hvort hún losnaði ekki þannig úr „álögunum“, einsog hann kallaði það.

Eitt síðdegið í miðri viku gerðu þau sér ferð í skólann. Einar laug því til að þau ættu barn sem væri að byrja í skóla næsta vetur og þau fengu leyfi hjá húsverði til að skoða sig um. Skólastofurnar voru að mestu tómar en á göngunum voru fáein börn að tygja sig heim. Helga þagði en var í háttum einsog hún vissi hvert hún ætlaði og kærastinn elti. Þau gengu upp stigann á aðra hæð og þaðan rakleitt upp á þriðju. Við enda gangsins var stofa sem Helga opnaði. Borðum og stólum hafði verið raðað meðfram veggjum og á þeim héngu vaxlitamyndir af fuglum sem börn höfðu teiknað.

„Það var hérna,“ sagði Helga og Einar gekk til hennar þar sem hún stóð í gættinni að litlu herbergi inn af stofunni. Herbergi ð var tómt fyrir utan myndvarpa, fáeinar möppur og ýmislegt smálegt sem safnast hafði þangað inn frá kennurunum. Einar spurði hvað hefði verið þarna en Helga svaraði ekki, gekk inn í mitt herbergið og stóð þar lengi hreyfingarlaus með augun lokuð, kvartaði undan því að henni væri kalt og byrjaði svo að gráta, hljóðlega en sárt. Þótt hún vildi hvergi fara hafði Einar fengið nóg, leiddi hana grátandi útúr byggingunni og sá eftir þessu öllu saman. Í bílnum á leiðinni heim róaðist Helga en hélt áfram að kvarta undan kulda, líka eftir að hún hafði verið dúðuð ofan í rúm. Um nóttina var hún með óráði og læknir sem kvaddur var til greindi hana með bráðalungnabólgu. Eftir nokkra daga á spítala var hún dáin.

Fleira eftir sama höfund

Hálendið

Lesa meira

Kobiety

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira
dáin heimsveldi

Dáin heimsveldi

Í þessari skáldsögu fer höfundur með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og komið sér fyrir í geimnum.
Lesa meira

Turninn

Lesa meira

Áhyggjudúkkur

Lesa meira

Ljóð í Ljóð ungra skálda

Lesa meira