Beint í efni

Ljóðin taka af stað frá Hlemmi

Setning Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg

Í október verður haldin önnur Lestrarhátíðin í Reykjavík, Bókmenntaborg UNESCO. Hátíðin í ár nefnist Ljóð í leiðinni og er tileinkuð borgarljóðum. Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, setur hátíðina á Hlemmi þriðjudaginn 1. október kl. 11. Í tilefni hátíðarinar opnar borgarstjóri Ljóðakort Reykjavíkur sem er verkefni á vegum Borgarbókasafnsins. Nemendur í 6. bekk Langholtsskóla frumflytja nýtt Reykjavíkurlag sem þeir sömdu fyrir hátíðina og ljóðabókin, Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík, kemur formlega út. Bókaforlagið Meðgönguljóð stendur að útgáfu bókarinnar en hún hefur að geyma 27 borgarljóð eftir jafn mörg skáld, flest ort í tilefni Lestrarhátíðar. Ljóðin munu bókstaflega flæða um borgina allan mánuðinn því ljóð og ljóðlínur verða birt utan á strætó, inni í strætisvögnum, á biðskýlum og á veggspjöldum hér og þar um borgina. Það má líka vera með ljóðin í vasanum á leið um borgina, því þau munu birtast á farsímavef Bókmenntaborgarinnar, m.bokmenntir.is. Lestrarhátíð er mánaðarlöng hátíð og er henni ætlað að verða árlegur viðburður í Bókmenntaborginni. Þetta er grasrótarhátíð og því geta allir þeir sem vilja bjóða upp á viðburði og dagskrá sem tengist þemanu hverju sinni tekið þátt. Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðinni með beinum hætti með því að nota myllumerkið (hashtag) #lestrarhatid og setja inn ljóð, ljóðlínur eða ljóðrænar myndir á samfélagsvefina Facebook, Twitter og Instagram. Úrval þess efnis verður síðan birt á vef Bókmenntaborgarinnar, bokmenntir.is.

Nánar um Ljóð í leiðinni - ljóðakort, ljóð á vef, ljóð í loftinu.

Hátíðin í ár er tileinkuð borgarljóðum og nefnist Ljóð í leiðinni. Lögð verður áhersla á borgina í ljóðum og ljóð í borginni og verða hverfi borgarinnar, nánasta umhverfi okkar og ferðalagið um borgina í brennidepli. Sérstök áhersla er lögð á að allir geti notið ljóðlistar, enda er hún óendanlega fjölbreytt og öll getum við upplifað umhverfi okkar á skapandi, ferskan og óvæntan hátt. Margt verður gert til að koma ljóðum til borgarbúa á sem aðgengilegastan og einfaldastan hátt. Dæmi um slíkt verkefni er Ljóðakort Reykjavíkur sem borgarstjóri opnar um leið og hann setur hátíðina. Ljóðakortið er sprotaverkefni á vegum Borgarbókasafns og hefur starfsfólk þess unnið ötullega að því að kortleggja ljóðin í borginni. Kortið geymir staði í Reykjavík sem skáld hafa ort um,hvort sem er götur, hverfi eða hús. Þegar kortið er skoðað er hægt að smella á tiltekinn stað og fá upplýsingar um ljóðið og jafnvel lesa það, því verið er að skanna ljóðin inn. Verkefni eins og þetta er viðamikið, en kortið mun halda áfram að vaxa og dafna. Ljóðskáldið Dagur Hjartarson opnar veggspjaldasýningu í mánuðinum sem verður sett upp víðs vegar um borgina undir heitinu Ljóðið ratar til hinna. Þá býður Borgarbókasafnið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa í tengslum við hátíðina. Skólar og leikskólar í Reykjavík munu einnig vinna með þema hátíðarinnar í sínu starfi í október, en þess má geta að Rithöfundasamband Íslands hefur sett saman dagskrá fyrir hátíðina í tengslum við verkefnið Skáld í skólum.  Þjónustuver Reykjavíkurborgar verður með ljóðaupplestur sem biðtón í október og eins verða ljóðatengdar uppákomur í þjónustuverinu. Bókmenntaborgin og Félag tónskálda og textahöfunda blása til tónleika í Hörpu 27. október í tilefni Lestrarhátíðar og 30 ára afmælis félagsins þar sem orðlistin verður í öndvegi. Einnig halda sömu aðilar málþing laugardaginn 26. október þar sem orðlistin verður í forgrunni. Bókakaffi í Gerðubergi verður tileinkað borgarljóðum í október og fleiri uppákomur verða víðsvegar um borgina. Að auki verður boðið upp á ljóðarútu sem fer um borgina. Dagskrána í heild sinni má nálgast á vef Bókmenntaborgarinnar: bokmenntir.is.

Ný ljóð um borgina

Forlagið Meðgönguljóð gefur út nýja ljóðabók í samvinnu við Bókmenntaborgina í tilefni hátíðarinnar. Þar skrifar á þriðja tug skálda um borgina en flest ljóðin eru ný. Mörg okkar þekktustu skálda eiga ljóð í bókinni en einnig eru þar ljóð eftir yngri skáld. Gaman er að geta þess að þrjú skáld af erlendum uppruna sem búa í Reykjavík eiga ljóð í bókinni.

Fjölbreytt samstarf um Ljóð í leiðinni

Fjölmargir aðilar hafa gengið til liðs við Bókmenntaborgina til að gera Lestrarhátíð skemmtilega og aðgengilega fyrir borgarbúa. Strætó bs tekur þátt í hátíðinni og flytur ljóð um borgina á vögnum sínum og farþegar strætó geta lesið ljóð inni í vögnunum. Ríkisútvarpið tekur þátt í Lestrarhátíð í ár með fjölbreyttum dagskrárliðum. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar með öllum grunn- og leikskólum í borginni er dyggur þátttakandi í hátíðinni ásamt Arion banka, sem er  aðalstyrktaraðili hátíðarinnar í ár. Í tilefni hátíðarinnar hafa nemendur í 6. bekk Langholtsskóla samið Reykjavíkurlag og ljóð undir handleiðslu tónmenntakennara síns, Skúla Gestssonar, með liðstyrk frá Arnljóti Sigurðssyni tónlistamanni. Tónsmíðin verður frumflutt við setningu hátíðarinnar af hópnum og hægt verður að sjá myndband við tón og ljóðverkið á vef Bókmenntaborgarinnar. Í mánuðinum verða allir þeir fjölmörgu aðilar sem gera Reykjavík að bókmenntaborg virkjaðir, svo sem skólar, bókasöfn, bókaútgefendur, rithöfundar og lesendur. Borgarbúar á öllum aldri geta vonandi sameinast um að njóta þess að lesa ljóð, ræða, uppgötva, skrifa og vinna með ljóð útfrá öllum mögulegum sjónarhornum. Markmið Lestrarhátíðar er að hvetja til lesturs, auka umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi. Lestrarhátíð verður árviss viðburður og októbermánuður því þekktur sem mánuður orðlistar og lesturs í Reykjavík.