NonfictioNOW í Reykjavík

Harpa

Alþjóðleg ráðstefna um óskálduð skrif

Alþjóðlega ráðstefnan NonfictioNOW verður haldin í Reykjavík dagana 2.–4. júní 2017 og verður þar fjallað um óskálduð skrif af ýmsu tagi. Búist er við 400–500 gestum víða að úr heiminum og að málstofur verði ekki færri en 60. Aðalfyrirlesarar koma úr ýmsum áttum og eiga það sameiginlegt að hafa verið mikið í umræðunni undanfarið.

NonfictioNOW

Aðalfyrilesarar

Gretel Ehrlich

Gretel

Gretel er bandarískur höfundur fimmtán bóka, þ.á m. verðlaunabókarinnar Solace of Open Spaces. Af öðrum bókum hennar má nefna This Cold Heaven, Seven Seasons in Greenland og hennar nýjustu bók, Facing the Wave, sem hlaut PEN USA verðlaunin fyrir óskáldað efni. Verk Ehrlich hafa verið birt í mörgum virtum tímaritum, s.s. Harpers, The New York Times Magazine, Time, Life og The National Geographic.

Wayne Koestenbaum

Koestenbaum

Wayne kemur einnig frá Bandaríkjunum. Hann er m.a. höfundur óskálduðu bókanna Humiliation, Cleavage: Essays on Sex, Stars, and Aesthetics og The Queen’s Throat: Opera, Homosexuality, and the Mystery of Desire sem var tilnefnd til National Book Critics Circle verðlaunanna. Hann hefur líka skrifað tvær skáldsögur og ort ljóð.

Karl Ove Knausgaard

knausgard

Karl Ove er Norðmaður sem hefur vakið verulega athygli fyrir sex binda ævisögulega skáldsögu, Min Kamp. Þar þurrkar hann út mörkin milli óskáldaðs og skáldaðs efnis og hafa sumir gagnrýnendur sagt að þessi verk hans séu meðal merkilegustu bókmenntaverka 21. aldar.

Maxine Beneba Clarke

Maxine Beneba Clarke
Maxine Beneba Clarke

Maxine kemur frá Melbourne í Ástralíu, sem er líkt og Reykjavík ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Hún þykir vera með áhugaverðustu höfundum sem fram hafa komið á undanförnum árum. Maxine er er þekkt fyrir að vera talandi skáld og er höfundur margverðlaunaðs smásagnasafns, Foreign Soil. Ein sagan úr þvi safni var meðal smásagna í Nestisboxi Bókmenntaborgarinnar á Lestrarhátíð 2014. Á þessu ári er svo von á ævisögu sem margir bíða spenntir eftir, The Hate Race.

Þessir höfundar munu allir tala í Hörpu og þeim sem ekki sækja ráðstefnuna alla gefst kostur á að kaupa miða á fyrirlestra þeirra. Málstofur ráðstefnunnar verða svo í Háskóla Íslands.

Áhugasamir geta fylgst með á Facebook síðunni Friends of NonfictioNOW og á heimasíðu ráðstefnunnar.