Beint í efni

Norrænar bækur verðlaunaðar

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 voru veitt við hátíðlega athöfn í Osló í dag, 30. október, bæði í flokki barna- og fullorðinsbóka.

Karikko

Hin nýstofnuðu Barnabókaverðlaun Norðurlandaráðs fóru til Finnlands, en þau hlaut bókin Karikko (Blindsker) eftir þau Seita Vuorela (texti) og Jani Ikonen (myndir). Í kynningu forlagsins WSOY sem gefur bókina út segir að hún sé jafnt fyrir börn og fullorðna. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Frásögnin teygir sig víða og er byggð upp eins og mósaík. Sögð er saga af bræðrum sem snertir lesandann og tekur á alveg fram að síðustu setningu. Stíllinn er sérstakur og vefur saman þjóðtrú, goðsögn og frásagnarhefð. Skáldsagan fjallar um sorg og er full af táknmyndum. Leit ungu manneskjunnar fer fram á mörkum bernsku og fullorðinsára, lands og vatns, draums og raunveruleika, lífs og dauða. Myndskreytirinn tvinnar í svarthvítum myndum sínum saman skáldlega grafík og ljósmyndatækni og styrkir þannig seiðandi heildaráhrifin.“ Seita Vuorela (áður Parkkola, fædd 1971) býr í Helsinki þar sem hún starfar sem rithöfundur og ljósmyndari. Hún kennir jafnframt skapandi skrif. Skáldsögur hennar fyrir ungmenni hafa verið þýddar á mörg tungumál, meðal annars sænsku, ensku, frönsku, ítölsku og þýsku. Kápumynd Jani Ikonens hefur verið lýst sem heillandi. Í bókinni eru jafnframt svarthvítar teikningar Ikonens sem minna á ljósmyndir og sem hægt er að túlka sem myndir af landslagi sálar. Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsundum danskra króna. Um verðlaunin og rithöfundana sem tilnefndir voru.

Profeterne i Evighedsfjorden

Kim Leine hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í flokki fullorðinsbóka fyrir skáldsöguna Profeterne i Evighedsfjorden (Spámennirnir í Botnleysufirði). Bókin er væntaleg í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar hjá forlaginu Draumsýn. Í rökstuðningi dómnefndar segir: Kim Leine hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir „Profeterne i Evighedsfjorden“, grípandi sögulega skáldsögu um kúgun og uppreisn. Þetta er margslungið verk þar sem fram kemur andúð á nýlendustefnu og hugleiðingar um manneskjuna sem líkama og hugsun.“ Leine er fæddur í Noregi en flutti til Danmerkur þegar hann var 17 ára. Kim Leine bjó og starfaði á Grænlandi í 15 ár. Árið 2004 sneri hann aftur til Danmerkur og gaf út fyrsta verk sitt, skáldævisöguna „Kalak“ (2007). Árið 2009 kom út skáldsagan „Tunu“. Í henni leitar Kim Leine aftur til Grænlands, að þessu sinni til að segja sögu af kynnum ungs dansks hjúkrunarfræðings af grænlensku samfélagi og menningu byggðanna. „Profeterne i Evighedsfjorden“ er fjórða skáldsaga Kim Leines. Hún segir frá danska prestinum Morten Falck sem fór til Grænlands í lok átjándu aldar. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsundum danskra króna. Sjá nánar um verðlaunabækurnar og höfundana á vef Norðurlandaráðs