Samstarfsverkefni

Storytelling Lab for Young Adults

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO tekur þátt í samstarfsverkefninu Storytelling Lab for Young Adults veturinn 2015 – 2016. Aðrir samstarfsaðilar eru Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Landakotsskóli og TAK (Towarzystwo Aktiwnej Komunikacji) í Wroclaw í Póllandi. Verkefnið felst í samvinnu 10. bekkinga í Landakotsskóla við jafnaldra sína í Wroclaw – netsamskiptum, heimsóknum, vinnusmiðjum og listsköpun á sviði ljósmyndunar, bókmennta og annarra listgreina. Afrakstur samstarfsins verður sýndur hér á landi á Barnamenningarhátíð í Reykjavík í apríl 2016.

Sjá meira um Storytelling Lab for Young People

Reykjavik Writing Jam

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og systurborg Reykjavíkur, Seattle, tóku höndum saman haustið 2014 í verkefninu Reykjavik Writing Jam. Rithöfundarnir Bragi Ólafsson og Karen Finneyfrock skiptust á persónulýsingum og skrifuðu smásögur út frá þessum lýsingum (Bragi út frá persónulýsingu sem Karen samdi og öfugt). Þau frumfluttu svo sögurnar á Reykjavik Writing Jam í Elliot Bay Book Company í Seattle þann 10. október 2014.

Við sama tækifæri var gestum á viðburðinum boðið að búa til eigin handgerðar bækur (chapbooks) með sögunum tveimur, myndskreyta þær og föndra með þær að vild. Þeir sem vildu gátu síðan fengið áritun Braga og Karenar á þessi smárit.

Sjá nánar um Reykjavik Writing Jam og lesið sögurnar hér eða horfið á vefstiklur með flutningi Braga og Karenar.

Transgressions: International Narratives Exchange

Bókmenntaborgin tók þátt í smásagnaverkefninu Trangressions árið 2014. Verkefnið fór fram í Póllandi, á Íslandi, í Noregi og í Lichtenstein. Viðburðir í Reykjavík voru hluti af Lestrarhátíð í Bókmenntaborg í lok október 2014. Þeir íslensku höfundar sem tóku þátt í verkefninu eru Halldór Armand Ásgeirsson, Kristín Eiríksdóttir og Þórarinn Eldjárn.

Sjá nánar um Transgression.

Ljóð frá Bókmenntaborgum UNESCO í Kraká

Á aðaltorginu í Kraká er hægt að lesa brot úr ljóðum eftir skáld frá Bókmenntaborgum UNESCO. Bókmenntaborgin Kraká hefur veg og vanda að þessu verkefni í samstarfi við aðrar Bókmenntaborgir. Ljóðunum er varpað á byggingu á horni Bracka strætis og aðaltorgsins Rynek, eða markaðstorgsins eins og það er oft nefnt á íslensku. Ljóðabrotin eru birt á ensku og pólsku. 

Sjá nánar um ljóð á veggnum á vef Multipoetry

Þýskir gestarithöfundar

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO á í samstarfi við Goethe stofnun í Kaupmannahöfn, sem meðal annars felst í móttöku þýskra rithöfunda sem koma til nokkurra vikna dvalar á Íslandi. Fyrstu höfundarnir sem komu hingað á vegum Goethe stofnunnar dvöldu og störfuðu í Reykjavík vorið og sumarið 2012. Það voru þeir Volker Altwasser og Finn-Ole Heinrich.

Sjá viðtal við Finn-Ole Heinrich um dvöl hans í Reykjavík (á þýsku).

Frásögn af dvöl Finn-Ole í Reykjavík og brot úr sögu eftir hann í íslenskri þýðingu.

Vorið og sumarið 2013 dvöldu Dirk Schwieger og  teymið Eva Kretschmer & Ulrike Olms í Reykjavík, hvort um sig í sex vikur.

Vorið 2014 var Daniela Seel, rithöfundur og útgefandi gestaristhöfundur í Reykjavík.

Vorið 2015 var Karen Köhler gestarithöfundur í Reykjavík.

Vorið 2016 mun Lena Gorelik dvelja í Reykjavík um sex vikna skeið.

ICORN

Reykjavík er síðan í mars 2011 skjólborg, eða International City of Refuge; griðastaður fyrir rithöfunda og skáld sem eru flóttamenn frá sínu heimalandi. Fyrsta  skáldið sem kom til Reykjavíkur undir merkjum skjólborgarinnar er Mazen Maarouf sem er af palestínskum uppruna og kom hann til landsins í nóvember 2011. Mazen er fæddur í Beirut árið 1978. Hann er ljóðskáld, rithöfundur, blaðamaður og gagnrýnandi og hefur unnið fyrir nokkur dagblöð í Líbanon jafnt sem erlend dagblöð. Hann var skjólborgarhöfundur í tvö ár en hefur nú fengið íslenskan ríkisborgararétt.

Frá haustinu 2015 hefur kúbverski rithöfundurinn Orlando Luis Pardo Lazo verið skjólborgarskáld í Reykjavík.

Heimsþing PEN 2013

Heimsþing PEN var haldið í Hörpu dagana 9. – 12. september 2013. Bókmenntaborgin Reykjavík undirbjó þingið í samvinnu við PEN á Íslandi, PEN International, Hörpu og fleiri. Hluti dagskrárinnar var opin almenningi  Einnig var haft samstarf við Bókmenntahátíð í Reykjavík, en hún fór fram dagana 11. – 15. september 2013.